Lesnir;

5.2.05

Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir og vinkonur

Ég hef áður minnst ögn á þá undarlegu málfarsstefnu íslenskra öfgahópa femínista að vilja setja jafnaðarmerki milli líffræðilegs kyns og málfræðilegs kyns; sé átt við konur skuli kvenkyn notað; sé átt við karla skuli karlkyn notað; sé átt við bæði kynin skuli hvorugkyn fleirtölu notað.

Fyrir skemmstu hélt Guðrún Þórhallsdóttir feiknarskemmtilegan fyrirlestur (á Rask-ráðstefnunni) um þetta málefni sem ég vildi helst geta birt hér í heild sinni, en það má nú víst ekki. Hún ræddi þónokkuð um endurskoðaða útgáfu af Nýja testamentinu, Vinkonur og vinir Jesú (takið eftir „forgangsröðinni“ á kynjunum), þar sem búið er að hnika til orðalagi þannig að það eigi sem oftast við bæði kynin. Því er þar skrifað: sæl eru fátæk í anda í stað sælir eru fátækir í anda.

Samkvæmt minni máltilfinningu - sem vel má vera að sé mótuð af hinu illa og kúgandi feðraveldi - er í fyrri setningunni (sæl eru fátæk í anda) aðeins og eingöngu átt við bæði karlkyn og kvenkyn, samsetningin verður að vera þannig að a.m.k. sé einn karl í hópi kvenna eða ein kona í hópi karla. Hin síðari setningin (sælir eru fátækir í anda) vísar hins vegar til hvers sem er, óháð líffræðilegu kyni. Vissulega er samt hægt að skilja þetta öðruvísi og ímynda sér að þessu sé eingöngu beint til karlmanna.

Hvað með setningar eins og:

það verða allir að vera með beltin spennt.

Hér er alveg ábyggilega ekki bara verið að tala um karlmenn; konur megi alveg vera lausar. Eða hvað gerist ef setningin er sett í hvorugkyn fleirtölu:

það verða öll að vera með beltin spennt.

Verða öll? Öll hver? Það hlýtur hverjum manni (má þetta?) að vera ljóst að karlkyn í svona setningum er hlutlaust. Alveg eins og kennari myndi spyrja nemendur sína:

vantar einhvern (eða einhverjum) blöð?

Og ávarpa þannig hópinn sem heild, þótt þetta sé karlkynsmynd orðsins einhver. Hvers vegna vilja öfgahópar femínista þessa aðgreiningu?

Hér eru fáein dæmi úr Vinum og vinkonum Jesú (tilvitnað eftir Guðrúnu Þórhallsdóttur „Mál beggja kynja“ - eða hvorugs?):

(1) Ekki bera menn ljós inn
Fólk ber ekki inn ljós (Mk. 4.21)

(2) Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð
→ Svo er Guðs ríki sem manneskja sái sæði í jörð

(3) tveir menn í leiftrandi klæðum
tvær verur í leiftrandi klæðum

(4) illgjörðamenn → vont fólk
(5) auðmenn → auðugt fólk, hin ríku
(6) falsspámenn → þau sem bera fram falskan boðskap
(7) lærisveinar Jesú → vinkonur og vinir Jesú
(8) bræður → bræður og systur

(9) Sá sem trúir á mig mun lifa, þótt hann deyi.
Þau sem trúa á mig mun lifa, þótt þau deyi.

Það skelfilega er að prestar hafa látið segjast og eru farnir að nota þessar hörmulegu hvorugkynsmyndir þegar þeir ávarpa söfnuðinn. Jafnvel leiðrétta þeir sumir sig ef þeim „verður það á“ að nota karlkynið.

Hvað finnst fólki um þetta?



Heimildir:
Guðrún Þórhallsdóttir. 2005.„Mál beggja kynja“ - eða hvorugs?. 19. Rask-ráðstefnan Háskóla Íslands, 22. jan 2005. Óprentað.
Vinkonur og vinir Jesú. 1999. Kvennakirkjan (tilvitnað eftir óbirtum fyrirlestri GÞ)

9 skilaboð:

  • Ágætu Lesnu!

    Mér er það sönn ánægja að hafa bætt ykkar blóki inn í daglegt blókvafur mitt. Skemmtilegar greinar verð ég að segja. Ég vona samt að eftirfarandi setning, í annars gáfulegri og skemmtilegri grein, sé grín: vantar einhvern (eða einhverjum) blöð?

    Einhverjum! Var þetta ekki örugglega djók! Það er að segja að gera ráð fyrir því að einhverjir, sem slíka setningu mæla af vörum, séu haldnir þágufallssýki. Eða er hér um einhverskonar frjálslynda málfars pólitík sem segir þágufallssýki eðlilega breytingu í tungumálinu. Þróun en ekki afturför? Er það tilfellið? Ef svo er þá verð ég að mótmæla af mínum veika mætti.

    Kæarar kveðjur,
    Ingi Björn Guðnason

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 10:07 e.h.  

  • Sem endranær er ég innilega sammála þér í þessu máli.. Og hef í raun ekkert frekar um það að segja. Kúdós.

    -b.

    Sagði Blogger Björninn, kl. 11:29 e.h.  

  • Ágæti Ingi!

    Einhverjum kann að þykja þetta viðhorf, sem ég geri í þessu greinarkorni að mínu, þó að í raun sé það á góðri leið með að verða hér að viðtekinni skoðun í málvísindalegri orðræðu, helst til mikil nýlunda og þá sem þekkja mig og til mín kann að undra að ég skuli, að því er best verður séð, leggja að jöfnu þolfalls- og þágufallshneigð.

    Vitaskuld var það ögn glannalegt af mér, að opinbera, án nokkurra varnagla, þessa skoðun, því ég veit, að hún er afar umdeild, svo ekki verði meira sagt, af alþýðu og - því miður - af fjölmörgum af annars ágætum kennurum þessa lands.

    Ber ekki heldur að fagna því, að íslenska skuli vera lifandi mál og frjótt? Ber ekki að fagna þó þeim fjölbreytileika sem við höfum? Ber ekki að stuðla að því að varðveita mállýskumun, eins lítill og hann nú annars er? Í aðalnámsskrá grunnskóla kemur þetta glöggt fram: varðveita ber mállýskubundin einkenni. Mállýskumunur er fjarri því að ná eingöngu til framburðar; við höfum blessunarlega heilmikið valfrelsi í setningagerð og beygingum, sem ber að fagna; nóg er af breytilegum orðaforða milli landssvæða; þónokkur í hrynjandi málsins.

    Hvers vegna hefur sá setningarfræðilegi breytileiki, að nota þágufall með skynjandasögnum, mætt svo mikilli andstöðu, þó einkum á 20. öld? - og það þrátt fyrir að dæmi um slíkt finnist í íslenskum málheimildum frá elstu tíð!

    Sannir áhugamenn um íslenskt mál hljóta að hafa áhuga á að kynna sér, útskýra og skrá allan þann breytileika í íslenskri málnotkun, sem þeir verða varir við, fordómalaust. (Innan sviga vil ég þó geta þess, að mér er þágufallshneigð ekki töm. Það þýðir hins vegar ekki að ég eigi að fordæma hana. Ég virði samt þína skoðun og það var gaman að þú skyldir skrifa!)

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:29 f.h.  

  • Ég fór líka full-glannalega með kommusetninguna þarna og biðst velvirðingar á því.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:33 f.h.  

  • Skoðanir greinahöfunda endurspegla ekki endilega skoðanir lesinna í heild; hér ríkir tjáningarfrelsi og reynum við eftir fremsta megni að virða það.

    fh. lesinna, Gunnar Marel.

    p.s. Ingi og Björn, það virðist vera í tíðsku að leyfa þágufallsýki að grasserast, við vonum að þetta sé bóla í fræðunum sem líði fljótt hjá.

    sami.

    Sagði Blogger Heimir, kl. 5:08 e.h.  

  • Málvillur er posmó. Ég er posmó. Þið eruð ekki posmó. Nautgripir!

    Jón Örn.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 5:35 e.h.  

  • Ágæti Heimir, og aðrir lesnir.

    Til að byrja með vil ég þakka þér fyrir að bera rétt kennsl á mig sem hluta alþýðu manna. Mér virðist sem svo að þú hafir lesið úr viðbrögðum mínum að ég sé haldin fordómum í garð þágufallsýki (og kannski felast miklir fordómar í því að segja þágufallssýki en ekki þágufallshneigð). Það kann að vera að fordómar mínir hafi opinberast í þessum viðbrögðum og ef svo er þá verður svo að vera. Mér þykir þágufallssýki leiðinleg og það sem meira er, en meira um vert þó, beinlínis ljót. Alveg eins og margt annað í máli fólks sem þó er ekki endilega rangt. Í raun finnst mér þá ekki skipta neinu máli hvort dæmi um slíkt finnist fyrr á öldum. Sem sagt, ég er á móti þágufallssýki af fagurfræðilegum ástæðum og er slétt sama um annað, þar með talda málvísindalega orðræðu (sem ég er ekki vel að mér í, enda alþýðumaður). Ég tæki þó ofan hatt minn fyrir þér, hefði ég einn slíkan, vegna áhuga þíns á að kynna þér, “útskýra og skrá allan þann breytileika í íslenskri málnotkun, sem [þú] verður var við, fordómalaust.”
    Þú spyrð hvort ekki beri að fagna því að íslenska sé lifandi og frjótt mál og hvort ekki beri einnig að fagna þeim fjölbreytileika sem við höfum í málinu. Við þessu tvennu get ég ekki annað en sagt sagt hreinskilið og einlægt, jú auðvitað.

    Og Gunnar minn góður, ég vona svo sannarlega að bóluspá þín sé rétt. Og vil láta þess getið að mér datt ekki í hug að á þessi ágæta síða ykkar væri einhver jákór.

    Pomó, Jón Örn? Þetta er nýtt fyrir mér. Þú átt ef til vill við póstmódernismann svokallaða. Ég vil benda þér og öðrum á skemmtilegri styttingu sem Sigurður Guðmundson myndlistamaður kom með í bók sinni Ósýnilega konan. SG tríó leikur og syngur. En þar kallar hann þetta fyrirbæri, sem svo ósköp margt er kennt við að það þýðir ekki neitt, pómó. Ég get alls ekki tekið undir að málvillur séu pómó enda einskorðast þær ekki við þann tíma sem kenndur er við þetta hugtak sem er varla hægt að segja að sé hugtak.

    Ingi Björn

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 11:33 e.h.  

  • Ég kannast við pomó. Pomó er ekkert betra en posmó.
    Fegurð er skilgreiningaratriði. Seinasta setning var
    posmó. Þú ert ekki posmó. Þú talar líka of mikið.
    Það er kalt úti. Það er ekkert í sjónvarpinu. Bæ.


    Jón Örn

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 12:42 e.h.  

  • Ég segi nú bara: eld og brennistein þessum apaköttum sem eru að hræra svona í tungumáli, sem okkur er öllum nauðsyn á að sé skýrt í meiningu og ljóst.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 3:38 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða