Þrír bókmenntafræðingar sitja á kaffihúsi:
- Guð er dauður.
- Höfundurinn er dauður!
- Harry Potter er dauður.
Ég vona að þessir heimsku bókmenntafræðingar móðgist ekki við svona gáfulegar skrýtlur. Annars er þetta hæfilegur inngangur, því að svo vill til að efni þessa pistils er, ef svo má segja, bókmenntalegt. - Í þessum pistli held ég því fram að skáldskap á Íslandi hafi hnignað; bendi á eina ástæðu þess, og útlista að lokum leið úr þeirri ógæfu.
---
Ef gluggað er í bundið mál frá fyrri tímum, þá sést vel sú orðgnægð sem skáldin höfðu að moða úr. Þetta er einna gleggst í rímnakveðskap. Jafnvel í ofur-venjulegum rímum brimar af orðasjónum upp í opið fangið. Ein ríman byrjar á: ,,Brast þar áður mærðin mín/”, önnur hefst þannig: ,,Skemmdist kvæða stífluð æð/”* Einsog birkiskógur með blágresi undir er auðugari en þurrt beitilygsholt; þannig
var málið ríkara og gróskumeira en það er nú. Urmullinn kitlar jú.
Nútímamaðurinn klórar sér í kollinum og spyr hvað sé á seyði. Afhverju eru öll þessi orð um sömu hlutina? Og ég skal játa – mest var ort um bardaga, sjóferðir og gengilbeinur við drykkjuveizlur fornmanna. Í rímunum er fátt annað en grjót, óveður og blóð.
En skáldin voru furðulega lunkin við að klæða efnið aðdáunarverðum búningi. (Það er spurning hvort er aðdáunarverðara; sjálfur búningurinn eða hvernig hann var gerður?)
Nútímamálið er hinsvegar fullt af stirðum og luralegum orðum. Látum vera
tölvu,
síma,
fax og
gemsa – öll snotur orð. En hvað með
ljósaperu,
stofnun,
ráðstöfunarfé?
Hvað þjáir bændur nú til dags? Hvernig hljóða mansöngvarnir? Afhverju eru samsett orð skáldleg í fornmáli, en hversdagsleg í nútímamáli? Og hvað varð til þess að íslenzkan er orðin svona
ófögur?
Íslenzkunni er að hnigna. Ef við tegruðum hana einsog hún er núna, lægi hallinn beint til Kaupmannahafnar. Fólk hefur ómeðvitað steypt málið í þurrt mót, kynslóðirnar hafa lítil samskipti á milli sín, og mikill hluti af því máli sem við tökum við, er úr fjölmiðlum. Þeir sem skrifa í dagblöð og tala í útvarp eru ýmist upplesnir af erlendum námsbókum, eða hafa hreinlega lært í útlöndum. Svo halda þeir að í krafti þess að þeir séu Íslendingar, þá fari þeir létt með að snara öllu yfir á íslenzku. Nei – meira að segja Heimir er orðinn háður lýsingarorðum.
(- hann fær á baukinn fljótlega. PS)Ráðizt á orðhenglana! Notið fátíð orð, jafnvel þó að þannig kunnið þið að líkjast fólki með Asperger-heilkenni. Lesið í orðabók á kvöldin, eða þó ekki væri nema samheitaorðabókinni. Talið afturábak. Og verið óhrædd við að vera kannski ekki fullkomlega skiljanleg í fyrsta kastið. Nútímaíslenzka er hvort sem er illskiljanlegt mál. Og í annan stað: ef nógu margir kjósendur Samfylkingarinnar æskja þess, verða markaðsöflin fljót á sér að gefa út bókina
Orðin sem þú skildir ekki en þorðir aldrei að spyrja hvað þýddu. Mér mun ekki þykja leitt ef sú bók verður stór. Hinsvegar óttast ég hvað margir munu sjá mörg orðanna í fyrsta skipti einmitt þar.
Vissulega er hægt að smíða margt með öxinni einni saman. Og ég hrífst alltaf af tónlist sem spiluð er á «hamlandi» hljóðfæri, ef útkoman ber vott um sérstaka færni tónlistarmannsins. En á sama hátt og orðin verða fleiri, sem hægt er að skrifa ef stöfunum fjölgar, þá verða ljóðin meiri ef orðunum fjölgar; og það verður áreiðanlega léttara að yrkja þau.
Þegar ég var lítill var í skólanum alltaf verið að segja okkur frá lífinu í gamla daga. Við fengum að heyra um baðstofuna, rokkinn og snælduna, tólgarkertin, orfið, ljáinn og lestarferðirnar. Þau orð sem notuð eru um hluti og fyrirbæri, hand- og hugleikin nútímaíslendingi – eru einfaldlega of þurr, löng og óskáldleg til þess að hægt sé að notast við þau í skáldskap.
Fegurstu nýju orðin er að finna í íðorðaforða eðlis- og líffræða. Ástæður þess eru mér huldar. En á öðrum sviðum athafna okkar mætti taka sér þær til fyrirmyndar. Það þarf að finna upp ný orð og koma þeim í umferð, fjölga samheitum og drepa stirðnuð orðtök úr Dróma. Helzt þarf að þýða nýjungar með sem styztum nýyrðum, og notast við sjaldgæfa beygingarflokka, - ekki þannig að öll kvenkynsorð fái enguna –a, og karlkynsorð –i. Einmitt með sem flesta beygingarflokka verður málið fegurst og auðveldast að yrkja á því.
Og almennt séð: höfum meira álegg ofan á brauðið. Því að þar er ort sem orðin eru til.
*Rímur af Andra jarli, ortar af sr. Hannesi Bjarnasyni og Gísla Konráðssyni. Skúli Thoroddsen. 2. útg. Bessastöðum. 1905.