Lesnir;

22.1.08

Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn

„Valgarður mælti: Illa hefir þú launað mér goðorðið er eg fékk þér í hendur að fara svo ómannlega með. Vil eg nú að þú launir þeim því að þeim dragi öllum til bana. En það er til þess að þú rægir þá saman og drepi synir Njáls Höskuld. En þar eru margir til eftirmáls um hann og munu þá Njálssynir af þeim sökum drepnir verða."

"Eigi mun eg það gert geta," segir Mörður.

"Eg skal leggja ráðin til," segir Valgarður. "Þú skalt bjóða Njálssonum heim og leysa þá út með gjöfum. En svo fremi skalt þú rógið frammi hafa er orðin er vinátta með yður mikil og þeir trúa þér eigi verr en sér. Máttu svo hefnast við Skarphéðin þess er hann tók féið af þér eftir lát Gunnars. Munt þú svo fremi taka höfðingskap er þessir eru allir dauðir."

Þessa ráðagerð festu þeir með sér að sjá skyldi fram koma.“

16.1.08

Kvæðagerð í kreppu - íslenzkan sem slík í öngstræti

Þrír bókmenntafræðingar sitja á kaffihúsi:
- Guð er dauður.
- Höfundurinn er dauður!
- Harry Potter er dauður.

Ég vona að þessir heimsku bókmenntafræðingar móðgist ekki við svona gáfulegar skrýtlur. Annars er þetta hæfilegur inngangur, því að svo vill til að efni þessa pistils er, ef svo má segja, bókmenntalegt. - Í þessum pistli held ég því fram að skáldskap á Íslandi hafi hnignað; bendi á eina ástæðu þess, og útlista að lokum leið úr þeirri ógæfu.
---
Ef gluggað er í bundið mál frá fyrri tímum, þá sést vel sú orðgnægð sem skáldin höfðu að moða úr. Þetta er einna gleggst í rímnakveðskap. Jafnvel í ofur-venjulegum rímum brimar af orðasjónum upp í opið fangið. Ein ríman byrjar á: ,,Brast þar áður mærðin mín/”, önnur hefst þannig: ,,Skemmdist kvæða stífluð æð/”* Einsog birkiskógur með blágresi undir er auðugari en þurrt beitilygsholt; þannig var málið ríkara og gróskumeira en það er nú. Urmullinn kitlar jú.
Nútímamaðurinn klórar sér í kollinum og spyr hvað sé á seyði. Afhverju eru öll þessi orð um sömu hlutina? Og ég skal játa – mest var ort um bardaga, sjóferðir og gengilbeinur við drykkjuveizlur fornmanna. Í rímunum er fátt annað en grjót, óveður og blóð.
En skáldin voru furðulega lunkin við að klæða efnið aðdáunarverðum búningi. (Það er spurning hvort er aðdáunarverðara; sjálfur búningurinn eða hvernig hann var gerður?)
Nútímamálið er hinsvegar fullt af stirðum og luralegum orðum. Látum vera tölvu, síma, fax og gemsa – öll snotur orð. En hvað með ljósaperu, stofnun, ráðstöfunarfé?
Hvað þjáir bændur nú til dags? Hvernig hljóða mansöngvarnir? Afhverju eru samsett orð skáldleg í fornmáli, en hversdagsleg í nútímamáli? Og hvað varð til þess að íslenzkan er orðin svona ófögur?

Íslenzkunni er að hnigna. Ef við tegruðum hana einsog hún er núna, lægi hallinn beint til Kaupmannahafnar. Fólk hefur ómeðvitað steypt málið í þurrt mót, kynslóðirnar hafa lítil samskipti á milli sín, og mikill hluti af því máli sem við tökum við, er úr fjölmiðlum. Þeir sem skrifa í dagblöð og tala í útvarp eru ýmist upplesnir af erlendum námsbókum, eða hafa hreinlega lært í útlöndum. Svo halda þeir að í krafti þess að þeir séu Íslendingar, þá fari þeir létt með að snara öllu yfir á íslenzku. Nei – meira að segja Heimir er orðinn háður lýsingarorðum. (- hann fær á baukinn fljótlega. PS)
Ráðizt á orðhenglana! Notið fátíð orð, jafnvel þó að þannig kunnið þið að líkjast fólki með Asperger-heilkenni. Lesið í orðabók á kvöldin, eða þó ekki væri nema samheitaorðabókinni. Talið afturábak. Og verið óhrædd við að vera kannski ekki fullkomlega skiljanleg í fyrsta kastið. Nútímaíslenzka er hvort sem er illskiljanlegt mál. Og í annan stað: ef nógu margir kjósendur Samfylkingarinnar æskja þess, verða markaðsöflin fljót á sér að gefa út bókina Orðin sem þú skildir ekki en þorðir aldrei að spyrja hvað þýddu. Mér mun ekki þykja leitt ef sú bók verður stór. Hinsvegar óttast ég hvað margir munu sjá mörg orðanna í fyrsta skipti einmitt þar.

Vissulega er hægt að smíða margt með öxinni einni saman. Og ég hrífst alltaf af tónlist sem spiluð er á «hamlandi» hljóðfæri, ef útkoman ber vott um sérstaka færni tónlistarmannsins. En á sama hátt og orðin verða fleiri, sem hægt er að skrifa ef stöfunum fjölgar, þá verða ljóðin meiri ef orðunum fjölgar; og það verður áreiðanlega léttara að yrkja þau.
Þegar ég var lítill var í skólanum alltaf verið að segja okkur frá lífinu í gamla daga. Við fengum að heyra um baðstofuna, rokkinn og snælduna, tólgarkertin, orfið, ljáinn og lestarferðirnar. Þau orð sem notuð eru um hluti og fyrirbæri, hand- og hugleikin nútímaíslendingi – eru einfaldlega of þurr, löng og óskáldleg til þess að hægt sé að notast við þau í skáldskap.
Fegurstu nýju orðin er að finna í íðorðaforða eðlis- og líffræða. Ástæður þess eru mér huldar. En á öðrum sviðum athafna okkar mætti taka sér þær til fyrirmyndar. Það þarf að finna upp ný orð og koma þeim í umferð, fjölga samheitum og drepa stirðnuð orðtök úr Dróma. Helzt þarf að þýða nýjungar með sem styztum nýyrðum, og notast við sjaldgæfa beygingarflokka, - ekki þannig að öll kvenkynsorð fái enguna –a, og karlkynsorð –i. Einmitt með sem flesta beygingarflokka verður málið fegurst og auðveldast að yrkja á því.
Og almennt séð: höfum meira álegg ofan á brauðið. Því að þar er ort sem orðin eru til.

*Rímur af Andra jarli, ortar af sr. Hannesi Bjarnasyni og Gísla Konráðssyni. Skúli Thoroddsen. 2. útg. Bessastöðum. 1905.

15.1.08

Um þegna

Í Fréttablaðinu í dag, bls. 16, er stórmerkileg grein eftir Sigurð Líndal prófessor. Einungis eitt angraði mig við lestur greinarinnar, en það er notkun orðsins þegn. Með orðum Sigurðar: „Meðal þeirra grunngilda sem móta eiga lög í réttarríki eru að mælt sé fyrir um fyrirsjáanlegt ferli sem þegnarnir geti treyst.“

Ég hefi staðið í þeirri meiningu að til þess að teljast þegn (d. undersåter, e. subject, þ. untertan) þurfi maður að vera undir einhvern settur, t.d. konung af guðs náð. Hér á Íslandi hefur enginn verið gúdderaður konungur síðan 1944 (en hinir ágætu Aldinborgarar sem ríkja í Danmörku geta vitaskuld ekki skilað þeirri náð sem guð hefir gefið þeim, þ.e. konungsvald yfir Íslandi, og gengur í þeirra ætt líkt og liðagigt í öðrum). Í staðinn tókum við upp lýðræði, og kusum að hafa valdið hjá innbyggjurum landsins sem aftur framselja það hið sama vald til fulltrúa sinan í kosningum. Þetta er ekki ólíkt því að eiga hús, en nenna ekki að þrífa það, og ráða (kjósa) ræstitækni til að sinna ráðstöfun þrifanna, og endurskoða síðan ráðninguna að fjórum árum liðnum. Innbyggjarar landa þar sem þetta sístem er viðhaft hélt ég að nefndust borgarar.

Látum vera að maður sem ekki hefur í höndum vald frá borgurunum missi þetta orð út úr sér. En leiðinlega oft heyrir maður þingmenn og jafnvel ráðherra brúka það. Í svipinn man ég eftir Jóni Magnússyni*, Bjarna Harðarsyni** og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur***. Þeir eru vafalítið fleiri, og mætti gjarnan vinna úttekt á þekkingu valdhafanna(leigjendanna) á lýðræðislegu stjórnarfari.

* Hann notaði reyndar bæði þegn og borgari í sama viðtali.
** Hann innti ég eftir skýringu á þessu orðfæri og sagði hann að sér þætti þegn fallegra orð en borgari! Mér finnst þræll flottara en frjáls maður; ég kalla þig því þræl! Hvílík fásinna.
*** Þetta sagði hún í ræðu á 125 ára afmæli Þjóðskjalasafns Íslands. Sem er merkilegt, því sú stofnun gætir réttinda borgaranna með því að varðveita skjölin um gjörninga kjörnu fulltrúanna og ráðinna embættismanna og veita borgurunum aðgang að þeim.

7.1.08

Bréf til Unnar Maríu

Nú í dag leit inn hér á Lesnum höfundur pistils sem ég hafði tekið til umræðu í pistli, sjá hér: http://lesnir.blogspot.com/2007/11/egar-femnisti-hrasar-hugtakaneti-snu.html

Téður höfundur hefur í framhaldinu ritað um skrif mín, sjá hér: http://unnur.klaki.net/mind/entry/1199732487.html

Það er ætíð gleðiefni þegar skrif manns vekja viðbrögð, og því er ekki úr vegi að víkja nokkrum orðum að orðunum. Skal hér reynt að ansa Unni eftir föngum, í réttri röð efnisins skv. pistli hennar. En áður en ég hef þá umræðu vil ég nota tækifærið og biðjast afsökunar á orðum mínum um íslenskukunnáttu Unnar í fyrrnefndum pistli mínum. Þau voru meint sem kaldhæðið grín en í endurliti er mér ljóst að þau áttu engan rétt á sér.

Fyrst ber að árétta að Unnur hefur aldrei „offað“ [sic] mig á barnum. (Sé skilningur minn réttur, þýðir þetta höfnun af einu tagi eða öðru (kristilega kærleiksblómin spretta o.s.frv.)) Unni hef ég reyndar einu sinni rætt við, mér vitanlega; það var um efni erindis hennar á árshátíð sagnfræðinema árið 2007. En spurningunni um, hvort að ég hatist við femínista og sjái þá af þeim sökum í hverju horni, er erfitt að svara. Mér vitanlega hatast ég ekki við nokkurn mann, enda mikill friðarins maður. Hins vegar er mér illa við þegar menn/fólk/einstaklingar slá ryki í augu lesenda sinna með sérviskulegri hugtakanotkun sem heftir skilning.*

Orð Unnar um meint andlát höfundarins skil ég ekki.** Felst í andsvari við pistli á opinberum vetvangi með pistli á opinberum vetvangi morð á höfundinum? Sé skilningurinn sá, að um texta einhvers annars en manns eigins megi ekki ræða án þess að líta svo á að höfundur hins fyrri texta komi málinu ekki lengur við, þá hefur Unnur sjálf framið vel heppnað hjartahnoð á höfundinum, og umræðan lifir: Sjá! báðir höfundar bera lífsanda í brjósti og ræða texta sína frjálst og milliliðalaust (nema gagnavarpið (e. internet) sé talið milliliður). Færi ég henni bestu þakkir fyrir lífgjöfina.

En þá komum við að rétti dagsins. Unnur segist, í fyrrtilvitnuðu bloggi, stundum nota „"kona" í staðinn fyrir "maður" af því [henni] finnst það fyndinn útúrsnúningur.“ Þessi orð gleðja mig ósegjanlega. Það er fátt jafn upplífgandi og jafn mikið andans fóður og leikur að tungumálinu. Þetta iðkum við iðulega hér á Lesnum, eins og sést á ritstílnum sem hér er við hafður. (Ekki fer nokkur maður að taka þennan stíl alvarlega? Glíkt, sókt, zeta eftir geðþótta? Mig hlægir.) Það er einnig sem mig minnir að Morgunblaðið hafi flutt af því frétt að vísindamenn, breskir að ætt, hafi fundið það út að með því að reyna á þanþol tungumálsins auki fólk á hugargáfur sínar (einnig átti maður að verða klárari brúki maður vinstri hönd til tannburstunar, sé maður rétthendur, og öfugt). Því er þó ekki að neita að það er eitthvað við þessa mjög svo móðins kyngervingu tungumálsins sem ergir mig. Ásteytingarsteinninn, eftir því sem ég best fæ séð, er þessi: Þarf hvort kyn sitt tungumál? Þeirri spurningu verður hver að svara fyrir sig. Ég er það mikill jafnréttissinni að ég svara henni neitandi.

Um menntun og störf Unnar, eða nokkurs varaborgarfulltrúa Vinstri-Grænna (eða Vinstri-Græns eins og sumir vilja hafa það), hef ég ekki forsendur til að tjá mig. Ég óska henni alls hins besta og þakka viðkynninguna.

_____
* Hér má jafnvel ympra á bjálkanum og flísinni.
** Enda er ég afar illa að mér í nýmóðins bókmenntafræðum.