Lesnir;

15.1.08

Um þegna

Í Fréttablaðinu í dag, bls. 16, er stórmerkileg grein eftir Sigurð Líndal prófessor. Einungis eitt angraði mig við lestur greinarinnar, en það er notkun orðsins þegn. Með orðum Sigurðar: „Meðal þeirra grunngilda sem móta eiga lög í réttarríki eru að mælt sé fyrir um fyrirsjáanlegt ferli sem þegnarnir geti treyst.“

Ég hefi staðið í þeirri meiningu að til þess að teljast þegn (d. undersåter, e. subject, þ. untertan) þurfi maður að vera undir einhvern settur, t.d. konung af guðs náð. Hér á Íslandi hefur enginn verið gúdderaður konungur síðan 1944 (en hinir ágætu Aldinborgarar sem ríkja í Danmörku geta vitaskuld ekki skilað þeirri náð sem guð hefir gefið þeim, þ.e. konungsvald yfir Íslandi, og gengur í þeirra ætt líkt og liðagigt í öðrum). Í staðinn tókum við upp lýðræði, og kusum að hafa valdið hjá innbyggjurum landsins sem aftur framselja það hið sama vald til fulltrúa sinan í kosningum. Þetta er ekki ólíkt því að eiga hús, en nenna ekki að þrífa það, og ráða (kjósa) ræstitækni til að sinna ráðstöfun þrifanna, og endurskoða síðan ráðninguna að fjórum árum liðnum. Innbyggjarar landa þar sem þetta sístem er viðhaft hélt ég að nefndust borgarar.

Látum vera að maður sem ekki hefur í höndum vald frá borgurunum missi þetta orð út úr sér. En leiðinlega oft heyrir maður þingmenn og jafnvel ráðherra brúka það. Í svipinn man ég eftir Jóni Magnússyni*, Bjarna Harðarsyni** og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur***. Þeir eru vafalítið fleiri, og mætti gjarnan vinna úttekt á þekkingu valdhafanna(leigjendanna) á lýðræðislegu stjórnarfari.

* Hann notaði reyndar bæði þegn og borgari í sama viðtali.
** Hann innti ég eftir skýringu á þessu orðfæri og sagði hann að sér þætti þegn fallegra orð en borgari! Mér finnst þræll flottara en frjáls maður; ég kalla þig því þræl! Hvílík fásinna.
*** Þetta sagði hún í ræðu á 125 ára afmæli Þjóðskjalasafns Íslands. Sem er merkilegt, því sú stofnun gætir réttinda borgaranna með því að varðveita skjölin um gjörninga kjörnu fulltrúanna og ráðinna embættismanna og veita borgurunum aðgang að þeim.

2 skilaboð:

  • Ég er sammála þér í þessu. Í öðrum skyldu málum hefur þetta orð merkt ,þjónn, hermaður, maður' (t.d. fornensku ðegn og fornsænsku þiægn), samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. Upphafleg merking er þar sögð líklega ,ungur drengur' og síðar ,ungur maður í þjónustu höfðingja'. Sú síðari merkingin er nálægt nútímamerkingu, en víðsfjarri þeirri merkingu sem virðist vera að (reyna að) ryðja sér til rúms.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 9:17 e.h.  

  • Jú, ég er líka sammála. En mér líkar samt ekki heldur við orðoð borgari, það er eitthvað svo Reykjavíkurlegt. Komið frá Aþenu, eða eitthvað enn verra.
    Er ekki til neitt annað orð?
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 12:01 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða