Lesnir;

16.11.07

Hátíðardagskrá Lesinna í tilefni 200 ára afmælis Jónasar Hallgrímssonar

Ávarp

Rétt í þessu barst mér sírenusöngur inn um gluggann á kontór mínum í Árnagarði. Heyrðist mér sungið á íslensku, þó að ekki hafi ég greint lagið. Það er vel við hæfi í dag.

Íslenskan hefur líklega aldrei staðið hallari fæti en einmitt nú á allra síðustu tímum. Eitt örlítið dæmi um það er að hreppstjóra í ágætasta hreppi Suðurlands tókst að láta út úr sér að nú væri að líða að 200 ára ártíð Jónasar. Það eitt og sér væri kannski ekki svo slæmt, en verra var að enginn hló að honum. Á það ber að benda að hreppstjórinn er aðfluttur.

Mikið hefur verið rætt um örar breytingar á tungunni á undangengnum árum, þannig að nú er svo komið að unglingarnir skilja ekki einu sinni lapþynnstu útgáfur/þýðingar Íslendingasagnanna. Eina stærsta orsök til þessa tel ég vera samskiptaleysi millum kynslóða. Börn eru alin upp á stofnunum innan um önnur börn og af niðursoðnu forheimskandi sjónvarpi í annan tíma. Ekki tala þau við eldra fólk sem aftur hefur sitt mál frá eldra fólki og þanninn koll af kolli. Þessu ætti bráðast að breyta.

Einnig má eyða orðum í tal um þá grósku sem verið hefur í ljóðagerð síðustu misserin, en þá gleymist að kiðin sem telja sig til skálda nú til dags kunna ekki að beita ljóðstöfum eða binda í brag. Jafnvel má efast um að þau kunni að telja atkvæði. Að yrkja á íslensku hefur alla tíð frá upphafi byggðar merkt: stuðlar og höfuðstafir. Ef ort er án þeirra er ekki ort á íslensku. Stuðlarnir eru svo samofnir íslenskri tungu að stærilæti þykir mér að hnýta í þá. Vel má hafa gaman af orðum sem raðað er saman án þess að þau séu bundin með bókstafarími en að kalla slíkt ljóð eða kvæði og þann sem það iðkar skáld er á misskilningi byggt. Þessu þarf að finna annað nafn. Endarím er hinsvegar aðflutt sunnan úr álfu og má að meinalausu sleppa, sbr. hina fornu norrænu bragarhætti, sem hafa varðveist á Íslandi einu landa. Rímið er ágætt til síns brúks og getur fegrað lítið ljóð, en nauðsyn tel ég rím ekki vera.

Lesendum lesinna til aflestrar færi ég svo frámunalega fánýtt kvæðakorn kveðið af vanefnum og vanviti. Njótið vel.

Einn á vegi gumi gekk
gulri undir sólu.
Hafði í sínum hærusekk
hundrað ljóð á spólu.

Var hans yndi óðafag,
ætíð valdi stuðla.
Ekki vild’ann vondum brag
vitlaust saman kuðla.

Hann var grýttur, hæddur, svei!
Halló þókti og forn.
Borgarbúar vildu ei
Böðverksmjaðarkorn.

Vísast eru vísur malar
vorsins angan glíkar,
en þó þær fáist falar
finnast engar slíkar
andans völlum virtum á
Virgli og Óðni háum hjá.
Þær dyljast oní djúpri lág
dirfast ei að berast á.

6 skilaboð:

  • Mig fyllir stolts.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 8:25 e.h.  

  • Leiðréttingar er þörf. Í fjórða vísuorði þriðja erindis stendur ,,Böðverksmjaðarkorn" en á að sjálfsögðu að standa ,,Bölverksmjaðarkorn". Þegar Óðin stal Suttungsmiðinum fór hann í gervi Bölverks. Nú segi ég eins og sagnfræðingar gera gjarnan: þetta er ekki minn tími.

    Annars, fyrst ég er byrjaður, þá er víst sök sér að útskýra kenninguna í fyrsta vísuorði fjórða erindis, ,,vísur malar". Hér er átt við þær vísur sem ortar eru á mölinni, það er ,,kveðskap" (les. hnoð) reykvískra úngskálda.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 2:00 e.h.  

  • Jahjerna, jeg four ad hugsa um kyyrmalir.
    Annars, meira af svo goudu! - thetta er bairilega kvedid. Jeg aitla nuuna aa eftir ad skrifa thetta upp aa blad og hafa thad aa skyrtubrjoustinu.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:52 e.h.  

  • Hver var annars thessi hreppstjouri?
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:53 e.h.  

  • Hreppstjórinn er rángægjíngur [sic] sem flutzt hefir í uppsveitirnar mínar heittelskuðu.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 2:26 e.h.  

  • Hmm, hann aa thetta til, ad mismaila sig. Hann er annars bezti kall, jeg labbadi einusinni ii houp med honum um Tumastadaskoug.
    En thad er sannarlega undarlegt ad enginn hafi sjed neitt athugavert vid thetta.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:18 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða