Lesnir;

12.11.07

Þegar femínisti hrasar í hugtakaneti sínu

(Nótat: Um leið og ég biðst afsökunar á því að ýta Páli skör neðar hér á Lesnum hvet ég lesendur eindregið til að lesa ágætan pistil hans.)

Margar femínístur [!] leitast eftir því að kyngera tungumáls sitt fram úr hófi, í því augnamiði að lýðum sé það ljóst að þær eru meðvitaðar um kyn sitt og stöðu þess í hinu samfélagslega híerarkíi.
Dæmi um þetta er flótti frá hugtökum á borð við maður, þar eð það orð virðist hafa skipt um merkingu nú í seinni tíð og sérhæfzt á þá leið að tapa helmingi þýðingar sinnar, þ.e. orðið táknar karlmaður í margra munni en útilokar kvenmennina.
Æ oftar rekst maður á þetta, nú síðast í dag. Ég las:

„Verslanamiðstöðin er sjálfstæð og manngerð veröld. Kona þarf ekki lengi að hugsa um Kringluna, árstíðabúninga hennar og þemadaga til þess að eiga auðvelt með að samþykkja samlíkingu Barbers og í þessu samhengi er skemmtilegt að hugsa um slagorð elstu verslanar Kringlunnar, Hagkaupa, að það sé þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla!1

Fyrst þegar ég las þetta skildi ég setninguna ekki. Ég hélt að kona væri hér notað til að leggja áherzlu á verzlunareðli kvenna, glíkt veiðieðli karla, en svo við þriðja lestur uppdagaði ég að hér hafði misritast og átt að standa maður. Kannski þetta sé mislukkuð þýðing? En nóg af flimtan. Við fjórða lestur sá ég eitt sem hafði farið fram hjá mér fram að því; nefnilega setninguna á undan, sem einnig er vitnað til hér að ofan. Manngerð veröld. Hér er greinilega andstæðupar á ferðinni, í huga höfundar (höfundarínunnar? höfundunnar?). Vonda veröldin sem höfundur lýsir (sem vissulega er vond, ég tek undir flest það sem tilvitnaður pistill fjallar um) er handverk karlmanna, en vegna sérvizku höfundar í því að vilja ekki segja: „Maður þarf ekki … “ þá gerbreytir setningin um merkingu. Hún angar af kynjapólitík sem er alls ekki það sem pistillinn fjallar um, nema höfundur hafi viljað koma því fram svona á milli línanna. Þá er nú hreinlegra að segja það hreint út frekar en að valda misskilningi með lélegri íslenzkukunnáttu.

---
1 Unnur María Bergsveinsdóttir: „Hvað er Ævintýraland?“ Í gagnavarpinu: http://hugsandi.is/article/210/hvad-er-avintyraland, sókt 12. nóvember 2007.

4 skilaboð:

  • Já, þetta er mikið skrítið. En blessunarlega má nú að þessu hlæja; eða eitthvað í þá veruna --- og ég fagna því (af ákafa), að þú skulir vekja máls á þessu mikla, ja, lymskubragði höfundar*, að koma pólítískum skoðunum sínum á framfæri með svo sérstökum hætti.

    * þ.e. eignarfall af orðinu höfund: mætti ekki líta á þetta sem kvenkynsorð, sbr. öfund. Svo mætti e.t.v. leika sér af, að slíta þetta tvennt í sundur, þ.e. höf-und? Þetta skilur, að minnsta kosti, eftir ofurlitla und í mínu málræktarhjarta, sem mjög svo er níðst á nú um stundir.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 1:04 e.h.  

  • Ég heyrði í dag af skemmtilegu dæmi þess að sumir hafa komið reglu á "ég vill" og "ég vil" --- þ.e. að "ég vill" segi karlmaður en "ég vil" segi kona; þetta halda sumir, hafði ég heyrt áður. Dæmið nú var sem sagt að á einhverju útsendu blaði frá fyrirtæki sem ég man ekki nafnið á virðist ætlunin hafa verið að tala til karla jafnt sem kvenna því þar voru báðar myndir gefnar upp með auka l-i innan sviga, eins og jafnan er gert með beygingarmyndir sem eiga við bæði kynin. Semsé eitthvað á þessa leið, lagt í munn lesandans: "Ég vil(l) taka þátt ..."; rétt eins og skrifað er "velkomin(n)" til þess að ná til beggja kynja!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:22 e.h.  

  • Frjettabladid er ad eydileggja maalvitund Iislendinga.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 3:09 e.h.  

  • Þótt ótrúlegt megi virðast, þá hefur þessi pistill valdið aðsóknarmeti hér á síðunni, nú í kvöld.

    Áhugasömum bendi ég á andsvar mitt við pistli Unnar, hér efst á síðunni.

    Þessir nýju gestir allir saman mættu nú kommenta, ekki vænti ég að allir séu efninu sammála?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:43 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða