Lesnir;

10.11.07

Vetrarbyrjun

Kæru lesendur, kæru vinir.
Veðrið hérna er ekki ósvipað veðrinu í Flóanum. Ýmist er frost eða hláka, rigning og skúrir til skiptis við éljagang nema ofankomulaust sé, og alltaf í það minnsta gola. Munurinn er hinsvegar sá, að í Flóanum gengur maður um á grasi. Hér gengur maður í drullu.
Núna eru dagarnir litlausir - laufið allt fallið af trjánum, og ekkert minnir lengur á þróttgræna liti sumarsins, fyrir utan öll grenitrén einhverstaðar langt úti í skógi, þar sem er hvort eð er alltaf myrkur. Þó standa enn mjúkar og gulnaðar nálarnar á lerkitrjánum. Liturinn ljáir þeim í senn virðuleika og yfirskilvitlega fegurð. Ég er handviss um að ef ég sæi stúlku á mínu reki með slíkan hárlit þá gæti ég ekki á heilum mér tekið, ekki fyrr en ég drykki með henni kampavín á nýársnótt.

En þar sem enn er langt í nýár, þá langar mig til að stikla á ýmsu, sem hefur borið við í haust.

Flest er meira og minna við það sama. Heimavistin drekkur. Skólinn er að drepa mig úr leiðindum. Kennararnir nenna varla að setja manni fyrir, nema þeir sem eru komnir yfir sjötugt. Þeir eru vel helmingur kennara okkar. Hér í borginni er líka allt hið sama; verðhækkanir og ónýtt malbik. Í öllu Rússlandi er kyndikerfið í Arkangelsk verst búið undir veturinn. Nýji forsætisráðherrann hundskammaði borgarstjórnina opinberlega fyrir ekki svo löngu. Við fengum ekki heitt vatn fyrr en vel var liðið á október. Í 35 daga fór ég þessvegna ekki í sturtu. Ég er mjög stoltur af því.
Nú erum við Sanja herbergisnautur bæði ísskáps- og sjónvarpslausir. Sjónvarpið og ísskápurinn voru í eigu fyrrverandi bekkjarfélaga okkar, og um daginn kom hann og tók góssið. Annars hef ég áður verið ísskápslaus í hálft ár, það var vorið 2005, og fannst það bara allt í lagi. Og sjónvarpsdagskráin er svo mikið rusl að það er ekki nema gott mál að vera laus við það líka. Verst að ég sé aldrei fréttir.
En það er heldur aldrei neitt í fréttum í þessu landi. Fólk les ekki blöð. Það sem stendur í blöðunum er enda aðallega þvættingur og heimska. Í sjónvarpinu eru mestmegnis stórslys, fjöldamorðingjar, Pútín og ríkissaksóknari. Ég horfði með tífalt meiri ánægju á Stöð 7 en á ríkisfréttastöðvarnar. Á Stöð 7 eru sýndar jaðaríþróttir – fiskidorg, pílukast og póker.
Það verður þá bara meiri tími til námsbókalesturs. Mig langar að geta þess að hér eru námsbækur fríar. Sem eru nokkur viðbrigði frá því sem var í Fjölbrautaskólanum. Við búum til bókalista, og komum með hann í bókasafnið, og ef við höfum skilað öllum bókum síðan á síðustu önn, þá fáum við þær nýju vandræðalaust. Ég er hinsvegar einn fárra sem fékk þær í haust; hinir höfðu allir glatað bókum, og vilja helzt ekki láta sjá sig á bókasafninu.

Ég minntist á verðhækkanir. Já, hér er verðbólga, meiri en á Íslandi. Mest hlýzt það af meintum uppskerubresti á korni, sem spratt illa í sumar. Það sést vel á brauðverðinu; hækkaði úr 11 rúblum síðan í vor, uppí tæpar 16. Sólblómaolía hefur snarhækkað, mjólk, og kartöflur. Ostur hefur tvöfaldazt í verði. Bjór hefur líka hækkað. Það eina sem ekki hefur hækkað er niðursoðið kýrkjöt, þriggja ára gamalt.
Framleiðendur og seljendur drýgja vörur sínar sem aldrei fyrr. Ég heyrði, að brennivínsverksmiðjan Alvíz, hér í borg, væri hætt að kaupa spíra sunnan úr Kákasus til þess að búa til koníak, og væri þess í stað farin að nota etanól unnið úr trjákvoðu með brenninsteinsgegnumleiðingu. En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.
– Mér finnst einhvernveginn orðið einsog ég sé kominn aftur á 18. öld; kaupi mjöl á okurverði, gott ef ekki maðkað. Svo étum við grautinn okkar sitjandi á rúmunum, enda búum við í baðstofu. Ég hef líka verið að velta því fyrir mér að setja skæni í gluggann.

Klukkan var færð um daginn. Þannig fer að birta uppúr fótaferðatíma, en kvöldin eru ótrúlega dimm. Ef það er lágskýjað ljómar himinninn upp af götuljósunum, alveg einsog í Norðurmýrinni, á sunnudagskvöldum í logndrífu. Annars er nóttin gljáandi svört. Þangað til að út úr dimmblárri eldingunni fléttist enn einn hrímgrár morguninn.

2 skilaboð:

  • Ég votta þér hluttekningu mína í þessum harðindum þínum, kæri vin.

    En mótlætið kennir okkur jú að vera þakklátari fyrir það sem við þó fáum, hvort sem það er heitt vatn eftir 35 daga bið eða óbreytt verð á þriggja ára gömlu niðursoðnu kýrkjöti. Þetta hefðu getað verið sjálfdauðir hrútar, niðursoðnir, hugsaðu um það.

    hier efftirfilger. þier Paall. til hialprædiss. Psaalmur hardrædissinns þolenda:

    Alt framm streymir Endalaust / ætid til hinns verra. / Drottinn gief Oss Driuga Raust / til dÿrdarsaungs, Herra!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 5:24 e.h.  

  • Þetta veldur því vonandi ekki, að brjóstbirtan verði úr hófi dýr; annars letur ÞAÐ ekki okkur Íslendingana í skammdeginu.
    Ég samgleðst þér svo innilega, að vera nú sjónvarpslaus með öllu --- hér á landi verður það sannarlega til þess, að maður (karlmaður, ég get ekki lagt á það nógu ríka áhærslu) verður óviðræðuhæfur um ýmis helstu málefni, sem innihaldslausar samræður spinnast um, en jafnframt veldur það því, að téðir interlókútar neyðast til þess, að ræða við ... mann ... um göfugri málefni.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:56 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða