Lesnir;

21.12.06

Undur Gagnavarpsins, eða: dansað kringum Gullkálfinn

Tölvur eru undursamleg tæki. Allar upplýsingar, gögn, skjöl, skrár og heimildir1 heimsins aðgengileg með einum músarsmelli. Sannarlega er enginn ljóður á þessum mikla mætti alheimsvitskunnar. Allt sem fer inn í hið altumlykjandi Gagnavarp blífur þar til hindsta dags. Og sjá viðurkenninguna sem höndlendur lyklanna og skilningsins hljóta af Times tímaritinu, þetta eru menn ársins, þeir sem brúka Gagnavarpið!

Nú tek ég stafrænar ljósmyndir á stafræna myndavél, skrifa lærðar ritgjörðir á mína kjöltutölvu og rita minn fannál af miklum móð. Allt situr þetta öruggt í tryggri umsjá og geymslu í Gagnavarpinu. Tákn rituð á harðan disk tölvunnar minnar eru sem meitluð í stein. Læsileg um alla eilífð. Ekkert fær grandað myndum höluðum upp í erlendar gagnageymslur sem eru tryggari en gullforði íslendska Ríkisins. Aldrei hefur erlend gangageymsla farið á hausinn og hent sínum geymsludiskum. Við getum sofið róleg því skammhlaup, gjaldþrot, skemmdarverk, hrun tölva eru hlutir sem henda ímyndað fólk í flökkusögum og æfintýrum. Gagnatap er þrálátur orðrómur og mýta. Treystum tölvunum, þær eru vinir okkar. Fyrir alla muni ekki taka ljósmyndir á filmur, það er svo hallærilegt. Ekki prenta nokkurt ritað orð út á pappír, það gera bara afar og ömmur, ógó leim. Tölvan er ekki bara vinnslutæki, heldur hin tryggasta geymsla. Passaðu bara að breyta skráarsniðunum og emígrata gögnunum eftir því sem þú uppfærir hugbúnaðinn og skiptir um tölvu. Passaðu bara að hafa flakkara svo til sé varaafrit ef diskurinn skyldi hrynja. Passaðu bara að leita reglulega að vírusum svo enginn fjórtán ára unglingur út í heimi skemmi ekki gögnin þín. Passaðu bara að borga viðgerðamanninum nóg svo hann nenni að laga tölvuna þína. Passaðu bara að missa fartölvuna þína ekki í gólfið svo ritgerðin sem þú ert alveg að verða búinn með glatist ekki.

Er ekki mál að linni? Hversu lengi ætlar fólk að hlusta á þvaðrið í markaðsgúrúunum? Hvenær rennur af almenningi og hann áttar sig á því að tölva er ekkert meir en flókin ritvél? Ef þú vilt geta lesið persónuleg bréf (eða tölvupósta eins og það heitir víst nú orðið) eða önnur skjöl frá þér eftir nokkur ár er þér hollast að setja það á miðil sem krefst einskis annars en augans til að lesa, en ekki tækniundurs sem úreldist á fáum árum og skemmist. Hefur þú reynt að nota gamlan floppý-disk nýlega? Hefur þú reynt að lesa fyrstu skrifuðu geisladiskana þína? Ef augað les það ekki hjálparlaust er því ekki treystandi.

Tölvan er gagnlegt vinnutæki, hljálpartæki jafnvel, en hvorki meira né minna. Varðveitslutæki er hún ekki. Hún er heldur aldrei og alls ekki tilgangur í sjálfu sér.

---
1Hér er orðið 'heimild' notað í rangri merkingu, sbr. athugasemd mína við greinina „Almenningur“ eptir Heimi.

4 skilaboð:

  • Það er afar viðeigandi að engin athugasemd sé gerð við þennan pistil.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:54 f.h.  

  • Já, tilhvurs að tala einhver orð út í vindinn; þetta er allt svo forgengilegt.

    Heimir

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:50 e.h.  

  • Hér má máské, með góðum vilja, gera lítinn stigsmun á kröfunni um takmarkaðan forgengileika, t.d. fer allur almenningur ekki fram á að hvert orð sem sagt er í hálfkæringi sé meitlað í stein. Hins vegar er alla jafna vilji fyrir varanlegri geymslu sums umfram annars, á það líklega helst við um sendibréf og ljósmyndir. Hins vegar er hægur leikur að prenta vitskuna Lesinna út, sé vilji fyrir upprifjun og skemmtilestri síðar.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 5:21 e.h.  

  • Einmitt, og vitaskuld er þetta þarft umhugsunarefni. Fyrir fáeinum mánuðum varð RHNET (rannsókna og háskólanet Íslands) fyrir því mjög svo óheppilega óláni að þrír harðir diskar biluðu hjá þeim samtímis - en þeir áttu að vera hver öðrum til stuðnings undir álagi - svo öll skráargeymsluþjónusta þeirra lá niðri (http://rhnet.is/atburdir.html, 23/10/2006)). Hvað hefði gerst, hefðu allir diskar - einhverra hluta vegna - bilað, einnig þeir sem varaafrit geyma? Þetta er vissulega umhugsunarvert.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 5:32 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða