Lesnir;

2.12.06

Orð sem ættu að vera til

Þau eru ófá, orðin sem ættu að vera til. Orðin sem svo gjarnan mættu vera til. Öll orðin sem við kunnum en notum ekki; orðin sem við höfum á hraðbergi þegar við tölum öðrum tungum og orðin sem við reynum að útskýra með löngum skýringum. Orðin. Orðaforðinn. Það er nefnilega málið, við forðumst orð. Þessi forðun, eða forði, orkar á heilahvelin eins og einhvers konar takmörkun. Orðaforðinn er nefnilega ekki til marks um gnægð, orðagnægð. Nei, orðaforði er beinlínis takmörkun. Orðaforðinn eru endimörk getu okkar til þess að brúka orð.

Hvers vegna segjum við „ekki á morgun heldur hinn“ - „ekki á morgun, ekki hinn, heldur hinn“? Á dönsku getum við sagt „overmorgen“ - „overovermorgen“; svo á einnig við um önnur skyld mál, til dæmis hollensku. Þetta orð kunna Íslendingar, þessa hugsun þekkja Íslendingar, en einhverra hluta vegna notum við þetta klúðurslega orðalag: „ekki á morgun heldur hinn“. Þetta er ófrjótt með endemum.

Englendingar eru okkur þó verri um sumt, verri en við Íslendingar. Við eigum þó orð yfir sama fyrirbæri í fortíðinni: „í fyrradag“ - „the day before yesterday“. Á hollensku má orða þá hugsun á frjóan hátt eins og í íslensku: „eergisteren“. Með herkjum má jafnvel segja „eereergisteren“ en það er jafnvel enn erfiðara á íslensku „fyrrafyrradag“.

Ég vil nota tækifærið og óska hérmeð eftir hentugri þýðingu á „overmorgen“.
Ég óska sömuleiðis eftir þýðingu á „respectively“.

[eytt af skynsemi (ritstj.)]

5 skilaboð:

  • Ef það er eitthvað verra en ritskoðun þá er það sjálfsritskoðun. Það er nú bara mín skoðun.

    Annars hafa Þjóðverjar 'beziehungsweise'. Það mætti þýða sem 'tengslavegu' eða 'sambandslega'. Þetta eru nú bara mín aumu forslög.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:57 e.h.  

  • Ég vildi nú bara reyna að fá einhver viðbrögð!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:00 f.h.  

  • Ég segi nú oftast "á hinn daginn" í staðinn fyrir "ekki á morgun heldur hinn". Það er ekkert svo óþjált

    Sagði Blogger Regnhlif, kl. 12:31 e.h.  

  • Góð uppástunga. Svo er orðalagið „annan ...“ notað stundum, og hefur færst í vöxt finnst mér, frekar en hitt. „Annan mánudag“ 'ekki núna á mánudaginn heldur næsta'. E.t.v. mætti reyna að virkja þá notkun meira og tala um „annan dag“ (um annan dag? á annan dag?)

    Á eftirdaginn? á eftireftirdaginn? (sbr. útl. over- og andsp. ísl. venju 'fyrra-')

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:35 e.h.  

  • Ég minnist nýlegrar stórmyndar sem kallaðist The Day After Tomorrow sem einhver íslenskaði Ekki á morgunn, heldur hinn. Mér fannst íslenski titillinn betri, ef eitthvað er.

    Ég sakna líka oft respectively.

    Sagði Blogger Sölvinn, kl. 2:25 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða