Lesnir;

18.12.06

Almenningur

Ég hef lengi furðað mig á þeim hugsunarhætti sem hér er við lýði að til sé einhver hópur fólks með reynslu lífsins sem hafi áhuga á að lesa fræðilegar greinar, eða að sá hinn sami hópur kæri sig um að mæta á ráðstefnur og málþing. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr reynslu lífsins. Það sem ég hins vegar skil ekki er hvaðan sú krafa kemur að þeir sem vilja skrifa um eitthvert atriði innan sinnar fræðigreinar skuli þurfa að skrifa það á máli sem sé þessum fróðleiksfúsa almenningi ekki fullkomlega dulið. Ekki skil ég það mál sem unglingarnir tala í strætisvögnunum - stundum held ég að ég heyri einhverja útlensku en svo eru greinanleg þarna fáein orð sem ég tel mig þekkja - og það er bara allt í lagi; þeir eru að tala um eitthvað sem ég hvorki hef áhuga á né kæri mig um að skilja.

Ég yrði því mjög undrandi á því ef þessi almenningur (sem aldrei lætur sjá sig á opnum ráðstefnum þótt þær séu auglýstar sérstaklega sem slíkar) gerði slíka kröfu sjálfur. Ég yrði líka undrandi á því ef fræðimenn gerðu þetta til þess eins að gera greinar sínar auðlesinni (þar sem það er mun erfiðara að skrifa eitthvað og forðast torkennileg hugtök, og krefst gjarnan meiri skilnings á efninu en annars!)

Eitt skil ég til dæmis ekki: af hverju stafar þessi mikli fjöldi útgáfna fornrita sem eru með öllu ónothæfar? Hvers vegna er til þessi mikli fjöldi misaðgengilegra lestrarútgáfna sem enginn almenningur les ótilneyddur og stundum eingöngu draugar fortíðar með ónákvæmum vinnubrögðum, breytingum, púsluspilsævintýraleiðöngrum og lagfæringum og endurbótum (með góðum vilja þó)? Með þessu eilífa föndri með heimildirnar eyðum við tíma og peningum í óþarfa.

En aftur að málinu, ég skil ekki hvað er athugavert við það orð á borð við transformur, rhetorískur, pragmatískur eða empírískur. Þetta eru orð sem eru notuð daglega en þau mega helst ekki birtast á prenti. Einhverjir segja ástæðuna vera þá að þau lagi sig ekki að íslensku málkerfi (þá þarf einhver bara að taka sig til og laga þau að íslensku málkerfi!):

Rhetorísk vinnubrögð
Rhetorískur hugsunarháttur

Empírísk gögn
Empírískur vinkill
Empírískt flæði

Ég hef áhyggjur af þessum hugunarhætti - ef málið fær ekki að blómstra í öllu sínu veldi þá endar það bara sem stofustáss.

2 skilaboð:

  • Um eitt atriði hugtakanotkunnar þinnar hnaut ég. Þú segir: „Með þessu eilífa föndri með heimildirnar eyðum við tíma og peningum í óþarfa.“ (áhersla mín).

    Skjal getur verið margt. Þær upplýsingar sem skjal geymir geta meir að segja verið heimild um eitthvað. En skjal er aldrei heimild púnktur. Alltaf heimild um eitthvað. Þess vegna hefði farið betur á því að nota orð á borð við útgáfur, skjöl eða eitthvað annað í stað heimildar sem myndi lýsa objektinu, ekki þeim upplýsingum sem objektið getur veitt um eitthvað annað tengt einhverri rannsókn sem kemur theóretískum hugleiðingum ekkert við.

    Annars er þetta hinn ágætasti pistill. Og sjálfur hugsað: Hví að takmarka rannsóknina við einhvern ímyndaðan lesendahóp? Á rannsakandi ekki að leitast við að skila sem bestu verki algerlega óháð duttlungum annarra? Er rétt að gengisfella fræðilega vinnu í þeim tilgangi einum að reyna af veikum mætti að ná almenningshylli og kastljóssviðtali? Hvort þjónar maður mammon eða fræðunum?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:34 e.h.  

  • Þetta er góð athugasemd og tekin til greina. Fráleitt (eða allt að því) er að tala hér um heimild - þó að vissulega séu þetta heimildir. En vissulega er föndrað við skjalið (textann) og heimild hans, eða heimilda(r)gildi, (kannski mætti jafnvel tala um orðræðu hans, í vissum svæsnum tilfellum?), þar sem reynt er að finna hinn „rétta“ eða „góða“ texta. Þetta orðalag mitt á því að nokkru leyti rétt á sér, og alveg sérstaklega ef ég á við málheimilarlegt gildi hans.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:48 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða