Ber fólki sem hlýtur háskólamenntun að hluta eða heild fyrir ríkisfé að skila einhverju til samfélagsins umfram eina skitna prófritgerð og svo ekki orð um það meir? Þessi spurning er vandmeðfarin. Hverju ætti slíkt fólk að skila? Það hlýtur að ráðast af menntun fólksins. Ákveðnar deildir háskóla mennta fólk í praktískari hlutum en aðrar, læknar lækna, verkfræðingar byggja, viðskiptafræðingar reikna. Um þátt þess fólks verður ekki rætt frekar.
En fræðilegra nám, theoretískara nám, hvað um það? Ber líffræðingi að stunda rannsóknir eða kennslu, eingöngu, eða á hann auk þess að vera virkur í umræðu m.t.t. síns náms dags daglega? Mér finnst síðari kosturinn augljóst val. En hvað um bókmenntafræðinginn? Á hann að gagnrýna ljóð náungans, með vísan til sinnar sérfræðimentunnar og víðrar yfirsýnar? Á sagnfræðingurinn að leiðrétta samborgarann þegar þekkingarskorts verður vart hjá honum daglegri í umræðu? Já, vitanlega.
En hvernig tekur samfélagið á slíkri gagnrýni, besserwissi, fræðasnobbi, menntahroka? Tilvist þessara orða ein og sér sýnir afstöðu sumra borgara nokkuð vel. En þegar vísindamaðurinn, fræðarinn, nýtir menntun sína í daglegri umræðu á faglegan hátt (hér er ekki verið að ræða um yfirgengilegan hroka og yfirlæti sem allir geta sýnt óháð menntun) vill brenna við að viðkomandi telji sig betri, á þessu sviði, en samborgarann. Þá hlýtur spurningin að vakna: er eitthvað að því? Ef viðkomandi hefur lagt á sig þriggja ára háskólanám eða meira á kostnað skattgreiðenda er hann ekki þá einmitt það, betri en samborgarinn, á því sviði? Og eiga þá ekki bæði skattgreiðandinn og háskólaborgarinn heimtingu á því að sú þekking, sem gerir háskólaborgarann betri en fólk er flest á einhverju afmörkuðu sviði, nýtist og sé nýtt dags daglega, alltaf, daginn út og inn, óháð veðri og vindum, ætíð?
Stutt dæmisaga til samanburðar. Ef bíllinn minn er bilaður og ég ber mig aumlega í samtali við mann sem kemur síðan í ljós að er menntaður bifvélavirki og bendir mér á hvað gera megi til að laga bílinn, kalla ég hann menntahrokagikk í stað þess að þakka góð ráð? Munurinn á bifvélavirkjun og hugvísindum er allnokkur, um það er ekki deilt. En vegna þess að bifvélavirkinn skrúfar „bara“ skrúfur o.s.frv. en hugvísundurinn hefur haslað sér völl á andlega sviðinu vill oft brenna við að fólk finni til minnimáttarkenndar þegar því finnst vegið að hugsun þess. Þetta fólk lítur þó ekki á heildarmyndina, ekki er öllum gefið að nenna/geta setið yfir „gömlum skræðum“ í mörg ár, og að þeim árum liðnum hlýtur fólk að hafa aflað sér einhverrar sérfræðiþekkingar. Það er engin minnkun að því að þiggja ráð eða hljóta leiðréttingu af slíkri manneskju, þvert á móti, þegar rétt er að staðið.
Ég held að snobb fyrir
sveitamanninum sem veit sko betur en helvítis auminginn sem aldrei nennti að vinna og sóar bæði tíma og peningum í leikskólanum í Vatnsmýrinni sé plága sem haldi aftur af afrekum andans á sviði hugvísinda. Fólk sem hlýtur sérfræðimenntun í aðferðum hugvísinda, gagnrýnni hugsun og fræðilegum heilindum á ekki að gjalda fyrir menntun sína, heldur vera þakklátt fyrir að hafa hlotið hana og samfélagið á að samgleðjast vegna þess að til er fólk sem leggur það á sig að læra og rannsaka hluti hverra praktísku not skila ekki peningum með hundrað prósenta vöxtum í vasann strax í dag, heldur auðga menningu okkar og andans líf.