Lesnir;

27.11.06

Getraun VII

'Portland' er ekki bara borg í sameinuðu (fursta)ríkjum Norður-Ameríku heldur einnig gamalt örnefni á Íslandi. Undir hvaða nafni er sá staður betur þekktur?

Aukastig er gefið fyrir að geta tengsla staðarins við frambjóðanda til setu á Austurvallarþingi (sbr. hið forna Öxarárþing).

19.11.06

Tímarím

Svo lesendur ruglist ekki í ríminu, er hér lítil tímaríma. Takið eftir ofstuðluninni í fyrstu línu, þar sem stafsetning stjórnar stuðlum en ekki hljóð. Því er þessi vísa einungis ætluð til lesturs en ekki flutnings.

M og M er ártalið,
miður fjóra um tíu.
Nóvembris er mána mið.
Myndast jóla- menn að -sið.

8.11.06

Innflutt pólitík?

Eitt finnst mér hafa vantað í málfluttningi Frjálslyndra upp á síðkastið: formaður flokksins á pólska konu. Sjá hér [á gagnavarpinu, innsk. ritstj.]: http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=176

Svo þarf að ræða þessi mál og fólk skipar sér í hópa, annars vegar ,,Íslandi Allt!"-víkingarnir sem borða sviðahausa í hvert mál og höggva innflytjanda og annan og hinsvegar sojalatte-furchtbar tolerant*-101 liðið sem hlustar á heimsmússík af því það er svo polýkúltúrell**.

Ég hinsvegar er ekki nógu vel að mér í atvinnu-, félagsþjónustu- og menntamálum til að geta mótað mér nógu góða skoðun á þessu. Við fyrstu sýn virðist mér þó ábyrgðin hvíla á atvinnurekendum, þ.e. fólkið kemur vegna vinnunnar og því ber atvinnurekenda að sjá um integrasjón, þ.e. aðgang að opinberri þjónustu, tungumálanám o.s.frv., að íslenskum samfúndi.

En mér finnst kómískt af hálfu gagnrýnenda frjáls flæðis fólks að tala um sérstök hverfi útlendinga o.þ.h. Það mætti halda að slíkir rýnar hafi aldrei komið á/heyrt um kollegí Íslendinga í Danmörku, hvar fólk kemst upp með að læra öngva dönsku! Að halda nálægð við kunnuglega hluti við framandi aðstæður er náttúruleg hegðun fólks, eftir því sem ég best veit.

Einnig held ég að ef Íslendingar veigra sér við því að læra dönsku af öllum málum eigum við ekki að segja mikið ef pólsku/tælenskumælandi fólk verður hvummsa við að sjá hrognamálið íslensku! Svo ég vitni í sænskan innflytjanda: Hvernig er hægt að tala svona hratt með alla þessa málfræði í gangi?

*skelfilegt umburðarlyndi
**fjölmenningarlegt

6.11.06

Tilvitnun

Ég rakst (hér) á skemmtilega tilvitnun á hliðarbloggi eins lesins sem mig langar að deila með öðrum (lesnum sem ólesnum) lesendum Lesinna.


(Ábending: smellið á þessa smellnu hreyfimynd)

5.11.06

„Stafsetningarorðabókin“

Nú nýverið kom út bók sem ber hinn yfirlætislausa titil „Stafsetningarorðabókin“ (áherslur mínar). Að þessi óskapnaður hafi fengið að koma út, og að hið annars ágæta forlag JPV-útgáfa hafi fengist til þess að koma því út, og að bókin hafi meiraðsegja hlotið lof ritrýnenda, það er mér allt og hvertumsig með öllu óskiljanlegt. Ef ekki væri nema fyrir það eitt að sú ósvífni skuli fá að líðast að nokkurt fræðirit sem mark sé á takandi skuli nefnast þvílíku nafni myndi ég samt renna til hennar eiturspúandi, heiftúðgum glóðaraugum.


„Stafsetningarorðabók“


Stafsetningarorðabókin er annað og ... „meira“ ... en það sem hún gefur sig út fyrir að vera. Það getur tæpast verið hlutverk stafsetningarorðabókar að segja fyrir um hvernig orð skuli beygjast - allra síst ef sú fyrirumsegð á ekki við nein rök að styðjast. Þetta gerir bókin þó. Og ekki lýsir hún því máli sem ég tala, heldur virðist hún reyna að koma einhverri ímyndaðri reglu á mjög óreglulegt atriði í íslenskri beygingu; sosum rétt eins og orðabókarhöfundar tækju upp á því að fella orðið gestur (ft. gest-ir) inn í beygingarmynstur orðsins hestur (ft. hest-ar) => góðir gestar! Slíkt á fremur heima í brandarabók en orðabók um stafsetningu.

Títtnefnd stafsetningarorðabók limlestir þá tilfinningu sem ég hef fyrir íslenskri tungu.

Aldeilis ágæt og sérdeilis prýðileg hlýtur sú bók að vera! Hvílík gersemi; og hve þakkarvert er það verk sem fyrir ríkisfé hefur verið framið.

Tek ég nú mér til handanota þetta merka ágætisrit og skrifa nokkur orð sem ungmennum þessa lands sem ekki hafa neina ástæðu til þess að efast um réttmæti þess sem í bókinni stendur kynni að detta í hug að fletta upp.*)

Fyrst er að nefna orðið rúta sem hlýtur að teljast frægt dæmi um það að ekki sé hægt að skjóta inn n-i í eignarfalli fleirtölu veikra kvenkynsorða þó að það hafi um áratuga skeið verið haft í ef.ft. orðsins kirkja (við mismikla ánægju) - en viti menn! Stafsetningarorðabókin segir orðið rútu vera í ef.ft. (til) rútna.

Hvaða málgemling hefur Ríkið eiginlega valið til þess að sýna beygingarmyndir þessara orða? Þetta orð er nefnilega ekkert einsdæmi því gomma af þessum orðum eru rituð með n-i (nærfellt öll?) - orð af ekki lakara tagi en þessu hér (notkunardæmin eru mín):

1. nf.et. brussa - ef.ft. brussna (!)
til dæmis: Hryssingsháttur þessara brussna er með endemum.

2. nf.et. pitsa - ef.ft. pitsna (!)
til dæmis: Verð pitsnanna er best hjá okkur.

3. nf.et. rifa - ef.ft. rifna (!)
til dæmis: Öndunarhæfni buxnanna kemur til af vídd rifnanna.

4. (nf.et. rúta - ef.ft. rútna (!))
(til dæmis: Gættu rútnanna meðan við mötustum.)

5. nf.et. þota - ef.ft. þotna (það gæti ég sennilega sagt)
til dæmis: Hraði nýju þotnanna er geipilegur.

6. nf.et. æla - ef.ft. ælna (!)
til dæmis: Hvað er það sem veldur lit þessara ælna?

og rúsínan í pylsuendanum:

7. nf.et. pera - ef.ft. per(n)a! (ég á ekki til orð!)
til dæmis: Bragð perna kemur til af fagurljómaðri lögun þeirra.

Rúsínan bendir þó til þess að höfundar viti upp á sig skömmina - sviginn bendir til þess eindregið - en tæpast má skammast sín nóg fyrir þá málsögufölsun sem þessi bók mun nú veita komandi kynslóðum. Orðleysi mitt yfir þessu og ágáttelsi er - eðli málsins samkvæmt - algert.

Ég vil þó taka ofanaf fyrir einum uppmerksömum gagnrýnanda bókarinnar sem greinilega gerir sér grein fyrir því að hér er alls ekki um neina stafsetningarorðabók að ræða (mér er þó til efs að gagnrýnandinn átti sig á að kaldhæðnin er fremur veig):

„Hvernig er orðið kíkir í fleirtölu? Kíkirar? Kíkjar? Kíkar? Þegar stóra spurningin kom var gott að finna svarið á blaðsíðu 305.“
Andri Snær Magnason rithöfundur (sjá hér.)

Ekki held ég að nokkur Íslendingur velkist í vafa um það hvernig stafsetja ætti kíkirar eða kíkjar; nema e.t.v. latmælt, lesblind, reykvísk börn (ögn hífuð) - kannski þau skrifuðu kýgjar?

...

Það hvernig orð beygist kemur stafsetningu ekkert veð; nema málblóm á borð við mér langar séu nú orðin að stafsetningarvillu? Færeyska er þá kannski ekki einu sinni lengur tungumál - hún er bara illa stafsett. Kannski Ríkið ætti að líta út fyrir landsteinana með útgáfu á verki sem þessu. Nú leysum við öll okkar utanríkisvandamál - við getum meira að segja hætt að veiða hvali -- reist við efnahaginn! Þessa bók má nefnilega gefa út óbreytta fyrir hvaða tungumál sem er - þetta er nefnilega Stafsetningarorðabókin; ekki íslensk stafsetningarorðabók heldur stafsetningarorðabók með stórum staf og ákveðnum greini. Svei mér ef nokkuð þyrfti einu sinni að þýða titilinn með tilliti til „rangrar stafsetningar“ í hverju landi fyrir sig, hún talar sjálf sínu máli.

*) Ég tek það fram að mér var bent á flest þessara orða - en ég hafði fyrir því að athuga þau sjálfur og gáði að ýmsum öðrum orðum sem fengu sömu útreið af hálfu orðabókarinnar. Ótrúlegt en satt er það regla fremur en undantekning að orðin séu meðhöndluð á þennan hátt.