Lesnir;

5.11.06

„Stafsetningarorðabókin“

Nú nýverið kom út bók sem ber hinn yfirlætislausa titil „Stafsetningarorðabókin“ (áherslur mínar). Að þessi óskapnaður hafi fengið að koma út, og að hið annars ágæta forlag JPV-útgáfa hafi fengist til þess að koma því út, og að bókin hafi meiraðsegja hlotið lof ritrýnenda, það er mér allt og hvertumsig með öllu óskiljanlegt. Ef ekki væri nema fyrir það eitt að sú ósvífni skuli fá að líðast að nokkurt fræðirit sem mark sé á takandi skuli nefnast þvílíku nafni myndi ég samt renna til hennar eiturspúandi, heiftúðgum glóðaraugum.


„Stafsetningarorðabók“


Stafsetningarorðabókin er annað og ... „meira“ ... en það sem hún gefur sig út fyrir að vera. Það getur tæpast verið hlutverk stafsetningarorðabókar að segja fyrir um hvernig orð skuli beygjast - allra síst ef sú fyrirumsegð á ekki við nein rök að styðjast. Þetta gerir bókin þó. Og ekki lýsir hún því máli sem ég tala, heldur virðist hún reyna að koma einhverri ímyndaðri reglu á mjög óreglulegt atriði í íslenskri beygingu; sosum rétt eins og orðabókarhöfundar tækju upp á því að fella orðið gestur (ft. gest-ir) inn í beygingarmynstur orðsins hestur (ft. hest-ar) => góðir gestar! Slíkt á fremur heima í brandarabók en orðabók um stafsetningu.

Títtnefnd stafsetningarorðabók limlestir þá tilfinningu sem ég hef fyrir íslenskri tungu.

Aldeilis ágæt og sérdeilis prýðileg hlýtur sú bók að vera! Hvílík gersemi; og hve þakkarvert er það verk sem fyrir ríkisfé hefur verið framið.

Tek ég nú mér til handanota þetta merka ágætisrit og skrifa nokkur orð sem ungmennum þessa lands sem ekki hafa neina ástæðu til þess að efast um réttmæti þess sem í bókinni stendur kynni að detta í hug að fletta upp.*)

Fyrst er að nefna orðið rúta sem hlýtur að teljast frægt dæmi um það að ekki sé hægt að skjóta inn n-i í eignarfalli fleirtölu veikra kvenkynsorða þó að það hafi um áratuga skeið verið haft í ef.ft. orðsins kirkja (við mismikla ánægju) - en viti menn! Stafsetningarorðabókin segir orðið rútu vera í ef.ft. (til) rútna.

Hvaða málgemling hefur Ríkið eiginlega valið til þess að sýna beygingarmyndir þessara orða? Þetta orð er nefnilega ekkert einsdæmi því gomma af þessum orðum eru rituð með n-i (nærfellt öll?) - orð af ekki lakara tagi en þessu hér (notkunardæmin eru mín):

1. nf.et. brussa - ef.ft. brussna (!)
til dæmis: Hryssingsháttur þessara brussna er með endemum.

2. nf.et. pitsa - ef.ft. pitsna (!)
til dæmis: Verð pitsnanna er best hjá okkur.

3. nf.et. rifa - ef.ft. rifna (!)
til dæmis: Öndunarhæfni buxnanna kemur til af vídd rifnanna.

4. (nf.et. rúta - ef.ft. rútna (!))
(til dæmis: Gættu rútnanna meðan við mötustum.)

5. nf.et. þota - ef.ft. þotna (það gæti ég sennilega sagt)
til dæmis: Hraði nýju þotnanna er geipilegur.

6. nf.et. æla - ef.ft. ælna (!)
til dæmis: Hvað er það sem veldur lit þessara ælna?

og rúsínan í pylsuendanum:

7. nf.et. pera - ef.ft. per(n)a! (ég á ekki til orð!)
til dæmis: Bragð perna kemur til af fagurljómaðri lögun þeirra.

Rúsínan bendir þó til þess að höfundar viti upp á sig skömmina - sviginn bendir til þess eindregið - en tæpast má skammast sín nóg fyrir þá málsögufölsun sem þessi bók mun nú veita komandi kynslóðum. Orðleysi mitt yfir þessu og ágáttelsi er - eðli málsins samkvæmt - algert.

Ég vil þó taka ofanaf fyrir einum uppmerksömum gagnrýnanda bókarinnar sem greinilega gerir sér grein fyrir því að hér er alls ekki um neina stafsetningarorðabók að ræða (mér er þó til efs að gagnrýnandinn átti sig á að kaldhæðnin er fremur veig):

„Hvernig er orðið kíkir í fleirtölu? Kíkirar? Kíkjar? Kíkar? Þegar stóra spurningin kom var gott að finna svarið á blaðsíðu 305.“
Andri Snær Magnason rithöfundur (sjá hér.)

Ekki held ég að nokkur Íslendingur velkist í vafa um það hvernig stafsetja ætti kíkirar eða kíkjar; nema e.t.v. latmælt, lesblind, reykvísk börn (ögn hífuð) - kannski þau skrifuðu kýgjar?

...

Það hvernig orð beygist kemur stafsetningu ekkert veð; nema málblóm á borð við mér langar séu nú orðin að stafsetningarvillu? Færeyska er þá kannski ekki einu sinni lengur tungumál - hún er bara illa stafsett. Kannski Ríkið ætti að líta út fyrir landsteinana með útgáfu á verki sem þessu. Nú leysum við öll okkar utanríkisvandamál - við getum meira að segja hætt að veiða hvali -- reist við efnahaginn! Þessa bók má nefnilega gefa út óbreytta fyrir hvaða tungumál sem er - þetta er nefnilega Stafsetningarorðabókin; ekki íslensk stafsetningarorðabók heldur stafsetningarorðabók með stórum staf og ákveðnum greini. Svei mér ef nokkuð þyrfti einu sinni að þýða titilinn með tilliti til „rangrar stafsetningar“ í hverju landi fyrir sig, hún talar sjálf sínu máli.

*) Ég tek það fram að mér var bent á flest þessara orða - en ég hafði fyrir því að athuga þau sjálfur og gáði að ýmsum öðrum orðum sem fengu sömu útreið af hálfu orðabókarinnar. Ótrúlegt en satt er það regla fremur en undantekning að orðin séu meðhöndluð á þennan hátt.

10 skilaboð:

  • Fátt er skemmtilegra en að lesa eigið blogg - enn skemmtilegra er að sjá að maður er flámæltur!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:47 e.h.  

  • Mér finnst ég knúinn til að bera í bætifláka fyrir þessa bók, því ég eignaðist eintak af henni á útgáfudegi hennar, sem einnig er afmælisdagur minn. Það eru tengsl þar á milli, því ég fékk bókina að gjöf á afmælisdag minn, sem einnig er útgáfudagur bókarinnar.

    Fyrst skulum við ræða titilinn. Hann getur vissulega verið misvísandi, um það er ekki deilt. En ef kápa bókarinnar er grandskoðuð, þá sjá! Þar eru þrjú orð með útskýringum sýnd. Þau eru 'íslenska', 'stafsetning' og 'orðabók'. Þarna blasir innihaldslýsingin við, því öllum nema slefandi hálfvitum ætti að vera ljóst að um íslenska stafsetningarorðabók er að ræða, þó hún beri hinn skemmtilega titil Stafsetningarorðabókin. Titlar verka eiga ekki skv. neinum lögum að vera nákvæm innihaldslýsing. Greinirinn í titlinum er máské frekar notaður til að marka bókinni ákveðinn sess, sýna að hér er um merka bók að ræða.

    Hvað ákvarðanir höfunda um beygingu ákveðinna nafnorða varðar finnst mér vel sloppið í verki af þessari stærðargráðu að rýnir finni ekki fleiri agnúa á. Getur ekki verið að á ritstjórnarfundi hafi vaknað sú spurning hvort úníformítet sé ekki æskilegt? Jú, fundarmönnum hefur þótt það góð hugmynd. Því hefur ef. ft. 'rútna' orðið til á síðum bókanna. (Sem NB særir ekki mína máltilfinningu.) Túngan er síbreytileg. Um það er ekki deilt. Bók af þessu tagi verður eðli sínu samkvæmt úrelt um leið og prentverkið ælir henni út. Því, þar sem ekki er um beinar stafsetningarvillur að ræða, eru þeir meinbugir sem rýnir argaþvargast vegna, ekki meir en stormur í vatnsglasi.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 8:48 e.h.  

  • Og hvernig dettur rýni í hug, maður sem ég hef hingað til talið búa yfir a.m.k. lágmarks heilastarfsemi, að beyging orða tengist stafsetningu ekki!?

    Orð stafsetjast óháð því hvort þau séu no. nf. et. eða so. 3.p. ft. fs.h. og taka jafnvel allmiklum breytingum milli falla/hátta/myndar/tölu/stiga.

    Mín niðurstaða er sú að rýnir sé fúll yfir því að þessi bók sé ekki skrifuð af honum sjálfum. Hann er því pirraður vegna þess hóls og skjalls sem ekki lendir á honum vegna hennar.

    (Mér er ljóst að þessi rýni á rýnina hefir litast nokkuð af persónulegum blammeringum. Það er meðvitað og viljandi, því ég er að vernda heiður ættmenna minna sem komu að gerð Stafsetningarorðabókarinnar, að gömlum og góðum sið.)

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 8:55 e.h.  

  • Það grunti mig. Hinu stend ég fastara á en fótunum að stafsetning og beyging eiga enga samleið.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:15 e.h.  

  • Þú sumsé viðurkennir máttleysi raka þinna og viðurkennir ekki að orð í aukaföllum eru stafsett?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:18 e.h.  

  • Tvefalt já við því.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:21 e.h.  

  • 'Hesti' er þá skv. þinni kenningu ekki stafsett orð.

    Spurning hvort þú skellir þér þá ekki í grunnskólaíslenskuna aftur áður en þú heldur áfram í meistaranáminu?

    Til fróðleiks má geta þess að skv. Marðar-orðabók er stafsetningarorðabók ,,orðabók til að sýna réttan rithátt orða" (2. bindi bls. 1449, dálkur. 2.). Þannig að ef ég legg út af orðum þínum þá er meining þín að orð í aukafalli sé ekki orð fyrst stafsetningarorðabók, hverrar tilgangur er að sýna stafsetningu orða, eigi ekki að sýna kenniföll o.þ.h.?

    Þú ert ágætur.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:31 e.h.  

  • Þú dregur, að mér finnst, ekki eðlilega ályktun af orðum mínum. Vitaskuld eru öll orð stafsett, hvaða falli sem þau sosum standa í. Hitt er annað þegar menn brúka stafsetningarorðabækur til að finna út hvernig orð beygjast (eins og Andri Snær virðist hafa notað bókina). Líkast til er eðlilegt að sýna kenniföllin, en það er mjög hæpið að segja að -n- eigi að vera eignarfallsmyndinni, þar sem það er vægast sagt mjög umdeilt.

    Auk þess grunar mig að í bókinni standi að nú eigi að skrifa tímann með punkti að enskri fyrirmynd, í stað þess tvípunkts sem hingað til hefur verið brúkaður - en þetta þarf ég að athuga nánar.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:06 e.h.  

  • Thad er lQngu kominn tiimi til ad stinga airlega upp ii bullukollana af ,,kruuttlegu kynsloudinni."

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:57 e.h.  

  • Oujaa.

    Sagði Blogger Palli, kl. 1:58 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða