Lesnir;

3.5.08

Af ljóðum og ljóðum

Óhefðbundin ljóð, án stuðla og/eða ríms, vildu sumir e.t.v. meina að væri nokkur ljóður á máli, ef svo má að orði komast. Í ljósi þess, væri þá ekki gráupplagt að kalla hefðbundin ljóð, rímuð, stuðluð og ort undir háttum ljóð, en skipta hins vegar um kyn á orðinu þegar það er notað um óhefðbundin ljóð og hafa það í karlkyni: ljóður

Vegna þessa skemmtilega samfalls orðmyndanna (í þolfalli, þágufalli eintölu, og þágufalli fleirtölu), geta skáld sem ekki vilja yrkja hefðbundin ljóð kvaðst hafa ort ljóð — en við unnendur hefðbundinna ljóða getum þá kímt örlítið og sagt: Já, gott hjá þér, og er hann góður? 

Slík skáld eru eftir sem áður ljóðskáld, og við getum fræðst um fegurðina og annað dægilegt í ljóðum þeirra, sem fyrr.

10 skilaboð:

  • Já, þetta er prýðileg hugmynd. Skrifaðu nú íslenzkri málnefnd til, og stíngdu uppá þessu.

    Ogsvo skaltú láta fylgja í viðheingi pistilinn umm stafsetninguna.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 5:18 e.h.  

  • Þú ert rosalegur Heimir! Svo mikið krútt. Hvenær kemur safn fullt af þér?

    Sagði Blogger Jón Örn, kl. 12:52 e.h.  

  • Jæja, jæja. Þetta er ágætis nýmerking.
    En Jón eyðilagði alveg fyrir mér tækifærið til að koma að kaldhæðinni athugasemd.
    Palli.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 7:47 e.h.  

  • Ég held nú að Íslensk málnefnd taki öllu of hátíðlega til þess að hafa húmor fyrir svonalöguðu --- nema þar leynist innanum rykfallna nefndarmenn einhverjir bragfræðingar, sem má vel vera. (Hvernig er það annars, eru þeir ekki enn vansvefta af áhyggjum yfir öllum dönskuslettunum?)

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:53 e.h.  

  • .... þannig að, ef mér leyfist að gera laufléttan samanburð, þá skal kalla "hefðbundin" málverk (hekla, hestar, hús) "mál-verk" og "óhefðbundin" málverk (litir á striga/abstrakt) "mál-verki" ? Hm. Spurnari.

    Sagði Blogger hallurkarl, kl. 10:38 e.h.  

  • Jújú, þetta er svipað; ögn minna samfall á beygingarmyndum þó, en sumir myndu e.t.v. líta á það sem kost. (Sýning gæti t.d. verið full af málverkjum, eftir atvikum.)

    Og, safn af mér; það væri ekki ónýtt. Nema þú eigir við einræktun? Það væri kannski fullmikið af hinu góða.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 8:45 e.h.  

  • Eru eddukvæðin og fornu danskvæðin þá ekki ljóð?

    Sagði Blogger Örn Ólafsson, kl. 11:16 f.h.  

  • Sannarlega eru eddukvæðin og danskvæðin ljóð, enda hafa bæði fastmótaðan strúktúr, auk stuðla+höfuðstafa (sem stundum er kallað bókstafarím), og danskvæðin gjarna endarím. Svo það eru ljóð, og eddukvæðin glæsileg ljóð, mörg hver.

    Fyrir mér felast grófu mörkin milli ljóðs í hvorugkyni og karlkyni í strúktúrnum: hefðbundin ljóð hafa eitthvert fyrirframákveðið form sem orðin þurfa að passa í, og það skiptir ekki höfuðmáli hvort þessi formkrafa felst í atkvæðafjölda (dróttkvæði?), fjölda risa (eddukvæði?), stuðlun, ríms, hendinga, o.s.frv. Að uppfylla þessar formkröfur er þá eins konar þraut, og að koma orðum saman svo að vel fari er mikil íþrótt.

    Ljóð í karlkyni finnst mér svo vera hitt, að láta þessar formkröfur lönd og leið. Það er ekki þar með að segja að þau séu neitt verri en það sem ég vil kalla (?) ljóð í hvorugkyni, en mér finnst það bara vera eitthvað allt annað. Þar er e.t.v. meiri krafa um frumleika á allt öðru sviði og merkingarlegri dýpt (?).

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:41 f.h.  

  • Vel svarað, og veruleg framför frá fyrsta pistli. Þó sýnist mér enn umhugsunaratriði. Sé endurtekning í hljómi (rími, stuðlun, hrynjandi) einkenni ljóða, hví mætti þá ekki markviss endurtekning (með breytingum) á orðalagi eða myndmáli ekki vera það? Vart eru slík atriði minna um verð. Athugið slíkar endurtekningar í fyrstu kunnu íslensku fríljóðununum, Sorg Jóhanns Sigurjónsssonar og Söknuði Jóhanns Jónssonar. Ennfremur prósaljóð inni í grein (Stjörnudýrð) eftir Einar Benediktsson frá 1895, mér sýnist það hafa samskonar uppbyggingu og kveðin náttúruljóð hans frá sama skeiði. Sjá nánar bók mína Kóralforspil hafsins, bls. 14-15. Athugið ennfremur myndræna byggingu og orðalags í snilldarverkum Hannesar Sigfússsonar og Steins Steinars frá miðri síðustu öld.
    Það er nefnilega LJÓÐUR á ráði ungra manna að tyggja gagnrýnislaust upp íhaldskreddur þröngsýnna hagyrðinga fyrir hálfri öld.
    Með vinsamlegum helgarkveðjum

    Sagði Blogger Örn Ólafsson, kl. 11:48 f.h.  

  • Kannski það, svona álíka viðeigandi og að kalla bíl 'hest', einfaldlega vegna þess að hann hefur sumpart svipað hlutverk og hross í nútímanum? Þetta eru tvö mjög ólík fyrirbæri.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:52 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða