Lesnir;

19.10.07

Höfundur

Öfugt við það sem margur kynni að halda, hafandi lesið titil þessa örlitla greinarkorns, ætla ég ekki að ræða um höfundinn sem hugtak, og svo sannarlega ekki í einhverri póstmódernískri merkingu.

Tilefnið er að þessu sinni samtal sem ég heyrði, nauðugur, þar sem fræðimaður (áreiðanlega „annars ágætur“) kvartaði yfir fræðimönnum sem sífellt væru að skipta um nafn. Tökum sem dæmi að þessi fræðimaður hafi viljað vitna í B.A.-ritgerðina mína (sem hann trúlega fengi ekki að gera) og skráir höfund hennar, sem von er, svo: Heimir Freyr Viðarsson; eða ef greinin er á ensku: Viðarsson, Heimir Freyr. Nú vill svo til að ég kvænist í framtíðinni og ákveð þá að taka upp ættarnafn verðandi eiginkonu minnar, sem við skulum hafa fyrir satt að verði van der Feest. Fræðimaður þessi ætlar nú að vitna til nýrrar greinar sem ég skila frá mér undir nafninu: Heimir Freyr van der Feest, e.t.v. með skírnarnafni og millinafni styttu, H. F. Eins og þessi fræðimaður talaði var nú aðeins einn kostur í stöðunni: að breyta tilvísuninni í B.A.-ritgerð mína til samræmis við núverandi ættarnafn mitt! Semsé, að árið 2006, áður en ég kvæntist, sé ég titlaður eins og ég er eftir þetta ímyndaða brúðkaup mitt. Er þetta nú ekki vitlaust?

Hvaða hlutverki gegnir höfundurinn í þessari tilvísun eiginlega, hlýt ég að velta fyrir mér? Trúlega er það til þess að finna verkið, og er ekki eðlilegast að skrá verkið nákvæmlega eftir þeim upplýsingum sem koma fram á titilsíðu þess, hvað svo sem kann að hafa orðið um mig síðar.

Eða hvað á þá að gera til dæmis við dæmi þar sem ég væri e.t.v. titlaður „Heimir Freyr Viðarsson, B.A.“ við einhverja grein; ætti að breyta því ef vitnað er til þessarar greinar eftir 10 ár til samræmis við þáverðandi gráðu mína: „Heimir van der Feest, Ph.D.“? Er það sambærilegt? Er það sami höfundur?

Hvað með nöfn borga sem hverfa af landakortum? Hvað með breytta stafsetningu á t.d. Kjøbenhavn? Eða Christiania/Kristiania, ætti að breyta því í Osló? Keflavík og Reykjanesbær?1 Er þetta ekki tómt rugl?

1 Smávægileg efnisleg breyting á þessari setningu [20/10/2007].

10.10.07

Blessuð sértu sveitin mín

„Ef Flóinn er framtíðarlandið, þá vona ég að sem flestir lendi þar. Járnbraut austur!“ Þessi orð eru höfð eftir Halldóri Laxness („Raflýsíng sveitanna“, birtist í bókinni Af menníngarástandi). Enn er ekki komin járnbraut austur, né heldur hraðbraut eða boðlegar almenningssamgöngur.
Nú stendur fyrir dyrum í hinu ágæta sveitarfélagi Árborg að úthýsa einu starfsemi Háskóla Íslands í héraði með niðurrifi húss í miðbæ Selfoss – sem áður hýsti hluta af starfsemi fyrirtækis sem var ein af forsendum þeirrar uppbyggingar sem hér varð og er elsta steinhús staðarins – svo stórbokkar geti grætt fleiri milljónir – án tillits til þess sem á undan er gengið eða á eftir mun koma. Étur byltingin börnin sín? Rífa afkomendurnir minnisvarðana um feðurna? „Allir vita að menníng er efnahagsatriði;“ sagði HKL í sömu grein og fyrr var vitnað til. Ég er ekki jafn viss. Flóinn er stór og víðlendur en þrátt fyrir það er talið nauðsynlegt að rífa menjarnar um fæðing og klæðing íbúa Selfoss og nærsveita til að rýma fyrir „nýjungum“ (svipaður harmleikur og nú er fyrirhugaður á Selfossi var áður leikinn í Kópavogi, ekki er miðbærinn þar vistlegur). Kannski vita það allir í dag að menningu beri að útryðja í nafni s.k. „hagvaxtar“?
Vonandi er Flóinn framtíðarland. Vonandi er jarðvegur fyrir menningu á Selfossi. Svo mikið er víst að hana er ekki að finna þar í ríkum mæli í dag, og hefur ekki verið að finna um langt skeið. Nýlega bárust af því fréttir að gamalgróinn kór hér í bæ telur ekki forsendur fyrir áframhaldandi starfi; það tók aldarfjórðung að endurreisa kvikmyndahús í bænum; leikfélag staðarins, sem boðið er á hátíðir erlendis með sýningar sínar, starfar í smáu og gömlu húsnæði sem sárvantar viðhald og endurreisn; allnokkuð er liðið síðan glæsilegt hús sem byggt var fyrir Mjólkurbú Flóamanna fyrir rúmum 70 árum og var teiknað af Guðjóni Samúelssyni var rifið; bæjarstjórn sá ekki ástæðu til að fagna 60 ára afmælis Selfosshrepps „hins forna“ (það þurfi einkaframtak til!); afkomandi Vestur-Íslendinga sem ég hitti fyrir nokkrum misserum sagði Selfoss minna sig helst á amrískan smábæ (Súbvei, Kenntúkkí &c.); vínstofur hér hafa ekki verið á vetur setjandi, hvorki að andlegum burðum né líftíma; listasafn, byggðasafn og náttúrugripasafn hafa annað hvort flúið eða fallið úr hor; þegar loksins loksins kom hér bókabúð þá kaupir fólk jólabækurnar frekar af Bónusi í stað þess að styrkja framtak heimamanna; eina styttan í bænum (brjóstmynd af fyrsta Kaupfélagsstjóranum) var fjarlægð þeygjandi og hljóðalaust fyrir nokkrum árum; einu sinni hefur verið reynt að setja hér upp útilistaverk, en skemmdarvörgum tókst með snarræði sínu að afstýra þeim tilraunum; menningarlegar ferðamannasnörur drauga og forynja lifa betur við ströndina en í fjölmennasta þéttbýliskjarna svæðisins; rauð og blá veitingahús sömuleiðis; við horfum upp á stórvirkar vinnuvélar naga fjallið þar sem Ingólfur var heygður (burtséð frá því hvort hann hafi verið til eða ekki) inn að rótum (þó það sé reyndar í Ölfusinu) og síðast en ekki síst: nafn höfuðbólsins er orðið að samnefnara fyrir menningarleysi og lágkúru á landsvísu. Ekki er það björgulegt.
Hvar er torg Egils Thorarensens? Á milli ráðhúss Árborgar og jarðskjálftamiðstöðvar Háskóla Íslands er bílastæði! Þar væri hægt að halda 17. júní hátíðlegan og leyfa mannlífi og menningu að blómstra árið um kring – að því gefnu að stætt verði fyrir sviptivindum frá væntanlegum háhýsum. Héraðsskjalasafn Árnesinga sárvantar geymslur, skrifstofur og aðstöðu fyrir fræðimenn. Bæjar- og héraðsbókasafnið er sömuleiðis að verða uppiskroppa með pláss. Útlit er fyrir að stórmerkilegt bókasafn séra Eiríks Eiríkssonar lendi á vergangi vegna þessa. Pakkhúsið hentar prýðilega undir ofantalið, vegna sögulegs gildis hússins og nálægðar við söfnin tvö. Mótbárur gegn þessum hugmyndum hef ég heyrt þær helstar að verslunarhúsnæði vanti pláss í miðbænum. Boðberar slíkra skoðana vilja kannski einnig leggja það fram við borgarstjórn Reykjavíkur að Iðnó og Menntaskólinn í Reykjavík yrðu rifin til að rýma fyrir framþróun og hagvexti?
Að lokum: Bankamenn og aðrir forkólfar viðskiptalífsins tala nú um stundir fjálglega um vafning íslenskrar tungu um tennur sér, og vilja hana feiga (innan síns geira) af þeim sökum. Varaformaður flokks viðskiptaráðherra (sá ráðherra er nýfluttur á Selfoss) hefur tekið í sama streng. Því er við hæfi að hafa eftir þetta vísubrot úr kvæði Jóns Helgasonar, prófessors í Kaupmannahöfn; ég kom þar:

En ég kveð á tungu sem kennd er til frostéls og fanna,
af fáum skilin, lítils metin af öllum;
ef stef mín fá borizt um óraveg háværra hranna,
þá hverfa þau loks út í vindinn hjá nöktum fjöllum.

7.10.07

Ljóð, fjöldaframleiðsla og fleira

Þegar ég sit hér og hlusta á samtengdar rásir ríkisútvarpsins í gamla Radionette-viðtækinu, með stillt á „stereo“ og „tale“, „jazz“ eða jafnvel „orkester“ til að leyfa þessum listmálara að skreyta herbergið mitt tónum í öllum regnbogans litum, þegar svo ber undir, verður mér hugsað til garmsins í hinum enda herbergisins. Þó að garmurinn sé ágætt merki, frá mínu uppáhaldslandi, og þrátt fyrir að vera rúmum 35 árum yngri en radionettan, þá er þetta óskaplega mikið skran. Hér má glöggt sjá hve framleiðsluháttum hefur hrakað. Varla þarf að taka fram hvort tækið greinir mér frá stöðu heimsmálanna.

Mér verður vitaskuld hugsað til ljóðagerðar.

Ljóð. Þetta skemmtilega, knappa form. Knappt í hvaða skilningi? Ja, svar nútímaskáldsins er að það sé knappt „að lengd“ (ef það kann þá að stafsetja). Er það ekki líka knappt í skilningi bragarháttarins sem þjarmar illvígur að efni þess, setningaskipan, orðavali, áherslum, hrynjandi, atkvæðagerð, þunga, krafti ...? Það má líta á ljóðið sem íþrótt; hvernig skáldið glímir við bragarháttinn, hvernig það reynir að fella hugsun sína inn í formið, sem hvort um sig getur verið fjölbreytt að gerð og búningi. Það fer vitaskuld eftir því hve góður glímumaður skáldið er, hve vel tekst upp.

Ekki gæti ég orðað þetta betur en Sveinbjörn Beinteinsson: „Auðséð er, að bragregla er ekki trygging þess að kvæði sé mikils virði, en alltaf er leitt að sjá fagra hugsun í tötrum.“ (tekið héðan).

Nei, nú líst nútímaskáldinu ekki á blikuna. Hann hugsar áreiðanlega með sjálfum sér, vott ðe fökk?, og reynir að verja það form sem hann kennir við ljóð og telur sig kunna að yrkja.

En þetta er nákvæmlega eins og með viðtækið; þessi formlausu ljóð, sem nær væri að nefna drög að ljóði, mjög misgóð, eru ekkert nema skran. Þegar maður sér þau ásýndar í hillum verslananna líta þau ágætlega út, en þegar að er gáð er þetta líkara hordingli sem hristist og skekst í allar áttir með skáldinu meðan það barmar sér eins og fugl, alveg yfirsig ánægt með afraksturinn. Nú fær það vonandi í nefið.

3.10.07

Vökuhrif

Kæru lesendur, kæru vinir.
Aldrei datt mér í hug að ég myndi skrifa um sumarið. Aldrei datt mér í hug að ég myndi skrifa um voldug, bláleit fjöll. Aldrei datt mér í hug að ég myndi skrifa um ymjandi seftjarnir. Eða æðisfengna spóa þegar líða tekur á sumar, fjólubláa haga af skriðnu grasi, skipandi lóu með sitt gríðarsvarta móðurbrjóst. Langa malbikaða vegi og fjárhús sem standa breið og þung fyrir neðan rigningardökkar fjallshlíðar, angurblítt þjóðvegaþunglyndi eða upplýst mælaborð í fyrsta kvöldnæturmyrkrinu. Síðustu dagana, gráa og glerjaða af komandi brottferð. Biturð yfir enn einum þröngum og okandi vetri.
Nei. Ég mun aldrei skrifa um það.

Trén voru haustvaxin þegar ég kom, sigurskúfur og skarifífill hnykluðu sig í rigningu og tekið var að rökkva. Ég labbaði fram hjá öspunum sem skiptu litum í rokinu og horfði á heimavistina. Hér er ég kominn! - hér er ég loks kominn. Í öðrum hverjum glugga var ljós, Gúsév sat niðri á vaktinni.
Aftur komum við saman bekkjarfélagar eftir sumaraðskilnað. Hver hefur fiskað leirslabba í net eða geddu á færi, legið á árbakkanum í sólskini. Grillað yfir sprekaeldi með æskuvinum sínum og stelpum úr næstu götu, slegið heita morgna ofan í svartskjöldótta kú eða sparslað upp í stiga á póstinum.
Skýjunum fjölgar fyrir Dvínuósum, og sjórinn fexist. Á meðan bíðum við eftir að lágmarkshitinn fari niður fyrir sjö gráður tvo daga í röð, og ornum okkur við gullna drykki. Í freyðibólunum sést allt. Allt frá klúrum bröndurum til sólvermdra samstúdína okkar og ónýtra rafgeyma, það koma upp óteljandi persónur og leikendur, sniðug klámyrði og hálfkaraðar ljóðlínur.

Er, vina, glitrar í glösum
og glóir þitt hörund svo hljótt,
augun, þau rata á eftir
um axa þinna gnótt.
Mig langar og langar með þér.
Langt fram í djúpustu nótt.
...
Það er sem hlaupi héri útúr runnaþykkni. Hann stendur uppá afturlappirnar og hnusar útí loftið, en veit ekki að af honum sjálfum er megn spíralykt. Enginn nema eitursjúkur skógarbjörn leggði sér slíka skepnu til munns. Enda vilja menn frekar stæltan elg, sem hefur hlaupið um vorbleikar lyngmýrar og brotizt gegnum klofháan snjó. Hann blæs frá sér í gegnum víðar nasirnar, svo að horið flýgur burt á nálæga furugrein, augun margræð einsog í þeim einum sem hefur lifað alla sína ævi í skógi og séð átta kynslóðir smáfugla deyja. Elgurinn stekkur burt í haustið á vit eigin stanslausra ævintýra. Eftir stöndum við hin í kartöflugarðinum vopnuð skóflum og heykvíslum, tilbúin að taka upp á meðan ekki gerir rigningu. Mætti ég biðja um kartöflugaffal – mittisháan þegar hann stendur uppréttur við hlið manns, með þægilegu þverskafti sem fer einkar vel í hendi, og stórri greip til að hrista moldina úr. Ég vil gaffal með innbognum kvíslum og kjuðalaga endum svo að kartöflurnar rekist ekki á kaf.
Ég vil kjúkling. Rauðkál. Kreista pilsnerdós og drekka vinnustaðakaffi í panelþiljaðri stofu.