Lesnir;

3.10.07

Vökuhrif

Kæru lesendur, kæru vinir.
Aldrei datt mér í hug að ég myndi skrifa um sumarið. Aldrei datt mér í hug að ég myndi skrifa um voldug, bláleit fjöll. Aldrei datt mér í hug að ég myndi skrifa um ymjandi seftjarnir. Eða æðisfengna spóa þegar líða tekur á sumar, fjólubláa haga af skriðnu grasi, skipandi lóu með sitt gríðarsvarta móðurbrjóst. Langa malbikaða vegi og fjárhús sem standa breið og þung fyrir neðan rigningardökkar fjallshlíðar, angurblítt þjóðvegaþunglyndi eða upplýst mælaborð í fyrsta kvöldnæturmyrkrinu. Síðustu dagana, gráa og glerjaða af komandi brottferð. Biturð yfir enn einum þröngum og okandi vetri.
Nei. Ég mun aldrei skrifa um það.

Trén voru haustvaxin þegar ég kom, sigurskúfur og skarifífill hnykluðu sig í rigningu og tekið var að rökkva. Ég labbaði fram hjá öspunum sem skiptu litum í rokinu og horfði á heimavistina. Hér er ég kominn! - hér er ég loks kominn. Í öðrum hverjum glugga var ljós, Gúsév sat niðri á vaktinni.
Aftur komum við saman bekkjarfélagar eftir sumaraðskilnað. Hver hefur fiskað leirslabba í net eða geddu á færi, legið á árbakkanum í sólskini. Grillað yfir sprekaeldi með æskuvinum sínum og stelpum úr næstu götu, slegið heita morgna ofan í svartskjöldótta kú eða sparslað upp í stiga á póstinum.
Skýjunum fjölgar fyrir Dvínuósum, og sjórinn fexist. Á meðan bíðum við eftir að lágmarkshitinn fari niður fyrir sjö gráður tvo daga í röð, og ornum okkur við gullna drykki. Í freyðibólunum sést allt. Allt frá klúrum bröndurum til sólvermdra samstúdína okkar og ónýtra rafgeyma, það koma upp óteljandi persónur og leikendur, sniðug klámyrði og hálfkaraðar ljóðlínur.

Er, vina, glitrar í glösum
og glóir þitt hörund svo hljótt,
augun, þau rata á eftir
um axa þinna gnótt.
Mig langar og langar með þér.
Langt fram í djúpustu nótt.
...
Það er sem hlaupi héri útúr runnaþykkni. Hann stendur uppá afturlappirnar og hnusar útí loftið, en veit ekki að af honum sjálfum er megn spíralykt. Enginn nema eitursjúkur skógarbjörn leggði sér slíka skepnu til munns. Enda vilja menn frekar stæltan elg, sem hefur hlaupið um vorbleikar lyngmýrar og brotizt gegnum klofháan snjó. Hann blæs frá sér í gegnum víðar nasirnar, svo að horið flýgur burt á nálæga furugrein, augun margræð einsog í þeim einum sem hefur lifað alla sína ævi í skógi og séð átta kynslóðir smáfugla deyja. Elgurinn stekkur burt í haustið á vit eigin stanslausra ævintýra. Eftir stöndum við hin í kartöflugarðinum vopnuð skóflum og heykvíslum, tilbúin að taka upp á meðan ekki gerir rigningu. Mætti ég biðja um kartöflugaffal – mittisháan þegar hann stendur uppréttur við hlið manns, með þægilegu þverskafti sem fer einkar vel í hendi, og stórri greip til að hrista moldina úr. Ég vil gaffal með innbognum kvíslum og kjuðalaga endum svo að kartöflurnar rekist ekki á kaf.
Ég vil kjúkling. Rauðkál. Kreista pilsnerdós og drekka vinnustaðakaffi í panelþiljaðri stofu.

6 skilaboð:

  • Það er svo merkilegt með texta, hvernig hann höfðar misjafnlega til skilningarvitanna. Af sumum er megn skítalykt meðan aðrir ilma. Þessi var nokkuð ilmfagur.

    Ég þekki þetta með gaffalinn; en saknarðu okkar semsagt, eða juist niet? eins og ég lærði að segja í Hollandi?

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 8:53 e.h.  

  • Stundum vill maður lesa hægt - en á erfitt með hemja sig og svolgrar orðin í sig af áfergju.

    Héðan er ekkert að frétta nema það eitt að enn ein haustlægðin dynur á okkur í endalausri röð haustrigninga.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:12 f.h.  

  • Juist niet?
    PS

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 2:50 e.h.  

  • einmitt ekki; annars er ég lítið fyrir þýðingar!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 3:20 e.h.  

  • Gaman að heyra frá þér Páll. Pistlarnir þínir eru alltaf mjög skemmtilegt lesefni. Mættir gjarnan skrifa oftar.

    Sagði Blogger Unknown, kl. 2:46 e.h.  

  • Tek heilshugar undir síðustu athugasemd. Fleiri pistla Palli!
    kv. Lýður

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 8:22 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða