Lesnir;

10.10.07

Blessuð sértu sveitin mín

„Ef Flóinn er framtíðarlandið, þá vona ég að sem flestir lendi þar. Járnbraut austur!“ Þessi orð eru höfð eftir Halldóri Laxness („Raflýsíng sveitanna“, birtist í bókinni Af menníngarástandi). Enn er ekki komin járnbraut austur, né heldur hraðbraut eða boðlegar almenningssamgöngur.
Nú stendur fyrir dyrum í hinu ágæta sveitarfélagi Árborg að úthýsa einu starfsemi Háskóla Íslands í héraði með niðurrifi húss í miðbæ Selfoss – sem áður hýsti hluta af starfsemi fyrirtækis sem var ein af forsendum þeirrar uppbyggingar sem hér varð og er elsta steinhús staðarins – svo stórbokkar geti grætt fleiri milljónir – án tillits til þess sem á undan er gengið eða á eftir mun koma. Étur byltingin börnin sín? Rífa afkomendurnir minnisvarðana um feðurna? „Allir vita að menníng er efnahagsatriði;“ sagði HKL í sömu grein og fyrr var vitnað til. Ég er ekki jafn viss. Flóinn er stór og víðlendur en þrátt fyrir það er talið nauðsynlegt að rífa menjarnar um fæðing og klæðing íbúa Selfoss og nærsveita til að rýma fyrir „nýjungum“ (svipaður harmleikur og nú er fyrirhugaður á Selfossi var áður leikinn í Kópavogi, ekki er miðbærinn þar vistlegur). Kannski vita það allir í dag að menningu beri að útryðja í nafni s.k. „hagvaxtar“?
Vonandi er Flóinn framtíðarland. Vonandi er jarðvegur fyrir menningu á Selfossi. Svo mikið er víst að hana er ekki að finna þar í ríkum mæli í dag, og hefur ekki verið að finna um langt skeið. Nýlega bárust af því fréttir að gamalgróinn kór hér í bæ telur ekki forsendur fyrir áframhaldandi starfi; það tók aldarfjórðung að endurreisa kvikmyndahús í bænum; leikfélag staðarins, sem boðið er á hátíðir erlendis með sýningar sínar, starfar í smáu og gömlu húsnæði sem sárvantar viðhald og endurreisn; allnokkuð er liðið síðan glæsilegt hús sem byggt var fyrir Mjólkurbú Flóamanna fyrir rúmum 70 árum og var teiknað af Guðjóni Samúelssyni var rifið; bæjarstjórn sá ekki ástæðu til að fagna 60 ára afmælis Selfosshrepps „hins forna“ (það þurfi einkaframtak til!); afkomandi Vestur-Íslendinga sem ég hitti fyrir nokkrum misserum sagði Selfoss minna sig helst á amrískan smábæ (Súbvei, Kenntúkkí &c.); vínstofur hér hafa ekki verið á vetur setjandi, hvorki að andlegum burðum né líftíma; listasafn, byggðasafn og náttúrugripasafn hafa annað hvort flúið eða fallið úr hor; þegar loksins loksins kom hér bókabúð þá kaupir fólk jólabækurnar frekar af Bónusi í stað þess að styrkja framtak heimamanna; eina styttan í bænum (brjóstmynd af fyrsta Kaupfélagsstjóranum) var fjarlægð þeygjandi og hljóðalaust fyrir nokkrum árum; einu sinni hefur verið reynt að setja hér upp útilistaverk, en skemmdarvörgum tókst með snarræði sínu að afstýra þeim tilraunum; menningarlegar ferðamannasnörur drauga og forynja lifa betur við ströndina en í fjölmennasta þéttbýliskjarna svæðisins; rauð og blá veitingahús sömuleiðis; við horfum upp á stórvirkar vinnuvélar naga fjallið þar sem Ingólfur var heygður (burtséð frá því hvort hann hafi verið til eða ekki) inn að rótum (þó það sé reyndar í Ölfusinu) og síðast en ekki síst: nafn höfuðbólsins er orðið að samnefnara fyrir menningarleysi og lágkúru á landsvísu. Ekki er það björgulegt.
Hvar er torg Egils Thorarensens? Á milli ráðhúss Árborgar og jarðskjálftamiðstöðvar Háskóla Íslands er bílastæði! Þar væri hægt að halda 17. júní hátíðlegan og leyfa mannlífi og menningu að blómstra árið um kring – að því gefnu að stætt verði fyrir sviptivindum frá væntanlegum háhýsum. Héraðsskjalasafn Árnesinga sárvantar geymslur, skrifstofur og aðstöðu fyrir fræðimenn. Bæjar- og héraðsbókasafnið er sömuleiðis að verða uppiskroppa með pláss. Útlit er fyrir að stórmerkilegt bókasafn séra Eiríks Eiríkssonar lendi á vergangi vegna þessa. Pakkhúsið hentar prýðilega undir ofantalið, vegna sögulegs gildis hússins og nálægðar við söfnin tvö. Mótbárur gegn þessum hugmyndum hef ég heyrt þær helstar að verslunarhúsnæði vanti pláss í miðbænum. Boðberar slíkra skoðana vilja kannski einnig leggja það fram við borgarstjórn Reykjavíkur að Iðnó og Menntaskólinn í Reykjavík yrðu rifin til að rýma fyrir framþróun og hagvexti?
Að lokum: Bankamenn og aðrir forkólfar viðskiptalífsins tala nú um stundir fjálglega um vafning íslenskrar tungu um tennur sér, og vilja hana feiga (innan síns geira) af þeim sökum. Varaformaður flokks viðskiptaráðherra (sá ráðherra er nýfluttur á Selfoss) hefur tekið í sama streng. Því er við hæfi að hafa eftir þetta vísubrot úr kvæði Jóns Helgasonar, prófessors í Kaupmannahöfn; ég kom þar:

En ég kveð á tungu sem kennd er til frostéls og fanna,
af fáum skilin, lítils metin af öllum;
ef stef mín fá borizt um óraveg háværra hranna,
þá hverfa þau loks út í vindinn hjá nöktum fjöllum.

6 skilaboð:

  • Já, láttu þá hafa það!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:46 e.h.  

  • Jamm, thetta ordar margt sem jeg saa ii sumar.
    En annars er Selfoss ekki annad ii edli siinu en thjounustumidstQd, og thvii edlilegt ad menningarliif sje thar aa mun laigra stigi en t.d. aa Stokkseyri.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 8:33 f.h.  

  • Í Sunnlenska með þetta!

    Sagði Blogger Unknown, kl. 3:15 e.h.  

  • Þetta er víst á leiðinni þangað, eftir ítrekaðar áskoranir.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 7:15 e.h.  

  • Til hamingju með birtinguna!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 6:32 e.h.  

  • Rífa þetta allt saman og fyrst þú ert að tala um aðstöðuleysi bóka- og skjalasafnsins þá á að losa gamla kaupfélagshúsið og færa söfnin nær skólunum. Pakkhúsið er ómerkilegur hjallur sem á að rífa sem fyrst.

    Sagði Blogger Unknown, kl. 5:44 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða