Lesnir;

17.4.05

Bókmenntir

Þar sem sú námsleið sem ég valdi mér er oft álitin skilgetinn undanfari þess að mennta æskuna, hef ég óhjákvæmilega velt fyrir mér hvaða tökum ég tæki kennslu á mínu sérsviði. Hér er ofurlítil vangavelta um bókmenntirnar á neðri stigum skólakerfisins, n.tt. um fornbókmenntirnar. Með neðri stigum á ég einkum við efstu bekki grunnskóla og fyrstu ár almenns framhaldsnáms.

Fyrsta Íslendingasagan sem við vorum látin lesa var Hrafnkels saga Freysgoða. Hún var tekin þvílíkum vettlingatökum að það er ekki nema von að hnussi í æskunni þegar hún heyrir á þessar perlur minnst. Um þessa merkilegu sögu hefur margt verið skrifað og í fyrstu yfirlitsnámskeiðunum í bókmenntum í Háskóla Íslands var farið ofan í kjölinn á nokkrum sérvöldum sögum, þessi þ.m.t. Til dæmis var bent á mikil líkindi við dæmisögur Biblíunnar sem og hugmyndir um uppruna, og eins ýmislegt skoðað sem er athugavert í sambandi við landslýsingar og annað. Áherslan hér: efnið. Í grunnskóla lásum við hins vegar söguna, jújú. En við vorum látin teikna upp ættartré og persónutengslatöflur til að læra fyrir próf; látin muna hve lengi einhver ferð tók; hver væri amma þessa og móðir hins; hvað hesturinn héti; hver væru orð Hrafnkels og hvað vinnumaðurinn héti. - En hverju skiptir það? Þetta stendur í sögunni ef einhver skyldi gleyma þessu; það má fletta upp á svona atriðum.

Hvers vegna er það alltaf þannig í grunn- og framhaldsskóla að nemendur eru ævinlega spurðir út í merkingarlaus smáatriði? Hvers vegna ætti nemandinn að muna hvussu lengi eitthvert ferðalag tók ef lengd ferðalagsins sem slíks hefur engu hlutverki að gegna? Í rauninni skiptir skilningur nemandans á sögunni engu máli; á hann reynir ekkert í þessum prófum. Er nema von að skólar útskrifa árlega þúsundir nemenda sem munu aldrei líta í þessar bækur. Þeir hafa ekki forsendur til annars en að líta á þær sem staglsama ættfræði og statistík.

Það þarf að kynna þennan heim fyrir nemendum. Útskýra af hverju það stendur í þeim sem stendur í þeim. Útskýra tengsl þessarar hefðar við frásagnir í öðrum menningarheimum, þar sem finna má líkindi. Sýna þeim hvað tengir þessar sögur saman. Útskýra hugmyndir um munnmælahefð og frásagnarformúlur. Útskýra tengsl við heiðni og kristni. Útskýra tengsl við uppruna okkar og þessara sagna. Útskýra varðveislu, fyrr og síðar. - Ef kennurum finnst ekki hægt að ræða þessi atriði í grunnskóla, þá á heldur ekki að láta nemendur lesa sögurnar.

Í framhaldsskólanum verður að fara dýpra ofan í efnið. Það þarf að kynna nemendur fyrir fleiri flokkum: Íslendingasögum, fornaldarsögum Norðurlanda, riddarasögum, konungasögum, byskupasögum (kynna þær, ekki endilega láta þá lesa heilar bækur á þessu stigi - það má gera í góðu tómi síðar).

Á þessum aldri hafa nemendur gaman af klúrum lýsingum; tilvalið að láta þau lesa Bósa sögu. Ég er alltaf hálfgramur út í einn kennara í íslensku þegar ég var í framhaldsskóla fyrir að nefna hana ekki einu sinni þegar unglingsstúlka á 1. ári var að kvarta yfir að það vantaði allt um ást og kynlíf.

Auðvitað er gott að láta nemendur lesa frægustu sögurnar og að þeir muni vel alla helstu atburði og helstu persónur (Njáls sögu, Laxdælu, Grettis sögu, o.fl.) en það þarf að setja þessar sögur í samhengi. Margar sögurnar hafa verið rannsakaðar það ítarlega að það er synd að nemendur sjái ekkert nema blóðuga bardaga, statistík og ættfræði í þeim.

Í Njálu má benda á lýsingar á göldrum sem hafa áhrif á stærð tiltekins lims og vandkvæði því tengd og skýra jafnframt hvað mönnum kynni að hafa fundist um slíkar lýsingar. Til að sýna þetta væri tilvalið að skoða þýdda riddarasögu á b.v. Tristrams sögu og sýna muninn á íslenskuðu gerðinni og þeim erlendu, þar sem Íslendingum hefur fundist nóg um ítarlegar kynlífslýsingar og allt slíkt er stytt til muna. Einnig þarf að skoða galdra í sögunum, hvaða augum kirkjan leit galdra. Muninn á göldrum og kraftaverkum ýmiss konar, o.sfrv. o.s.frv.

Er þetta ekki sjálfsagt? Af hverju er enn verið að semja páfapróf sem nemendur verða að páfa sig í gegnum? Límheilarnir skora hátt - þeir sem hafa gaman af sögunum og lýsingunum fá hins vegar ekki að njóta sín. - Ritgerðarspurningar, takk fyrir. Burt með krossapróf.

6 skilaboð:

  • Jæja stelpur og strákar nú mun ég tala um galdra sem áhrif á lim karlmanna. Og svo förum við yfir Bóasögu (Heimir strýkur höndunum saman)

    Já vinan vilt þú Dísa ekki byrja að lesa jájá... þú hefur svo fallegar rödd (strýkur höndunum og glottir)

    _____

    Það er munur á því að höfða til ungs fólks og að vera pervert - þetta millistig þarft þú að finna.

    Jón Örn

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:59 f.h.  

  • Jón hefur greinilega hvorki lesið Bósa sQgu[o með onegin] oc Herrauðs né Brennu-NjálssQgu.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:56 f.h.  

  • Haha. Segir nokkuð. Þetta viðhorf minnir mig eiginlega einna helst á siðgæðisstimpla 19. aldar þegar útgefendum þóttu sumar lýsingar fornalda-/miðaldatexta svo dónalegar [sem þær sumar eru!] að þeir ákváðu að sleppa þeim [táknað með [ . . . ] í útgáfu]! Svona var farið með merka játningu ríkrar konu þar sem ýmislegt myndrænt, hrátt og ósæmilegt orðalag var einfaldlega tekið út; jafnvel þó að um skjalfesta játningu væri að ræða.

    Eins og málið horfir við mér þá er enn stór hópur lesenda sem hefur gaman af grófyrðum og dónalegum sögum, morðsögum, sögum með ástarívafi - þetta þarf að rannsaka. Það þarf að opna augu nemenda fyrir því að þessir sömu lesendur voru til fyrir hundrað árum (t.d. sagan Upp við Fossa sem er lesin víða í framhaldsskólum), fyrir fimm hundruð árum, þúsund árum... Ættfræðina þarf að skýra - sem part af þjóðerniskennd, sem part af uppruna fólks í nýju landi; ekki sem endalausar upptalningar á staðreyndum.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:05 e.h.  

  • Ég verð nú að vera sammála þér hérna enn eina ferðina.. Þó ég hafi kannske engan samanburð þykir mér, eftir á að hyggja, bókmenntakennsla í grunnskóla og (að mestu leyti) í framhaldsskóla fara fram með hangandi hendi.
    Krossapróf eru útí hött þegar verið er að prófa fólk í bókmenntum, en ég get ímyndað mér að það sé mun þægilegra og fljótlegra fyrir kennara að fara yfir. Spurningarnar þurfa þá einmitt að vera þess efnis að ekkert rúm sé til túlkunar, og þ.a.l. er lögð áhersla á einstök atriði sögunnar fremur en eitthvað sem skiptir raunverulega máli.

    Þetta tengist síðan öðru sem ég hef tekið eftir, og það er að fólki virðist hreinlega ekki kennt að skrifa ritgerðir á þessu námsstigi. Ég man að í fyrsta skipti sem ég fékk einhverja alvöru yfirferð á ritgerð var á seinustu önninni minni í FSu. Og hún var náttúrulega hökkuð í sundur vegna þess að ég hafði bæði ekki lært að skrifa ritgerð og hafði komist upp með það að skila lélegum ritsmíðum vegna þess að það þótti víst ekki skipta máli hvernig sagt var, bara að allar staðreyndir kæmu fram.

    Hérna hef ég reyndar dálítinn samanburð. Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að líta yfir ritgerðir nokkurra samnemenda minna í bókmenntafræðikúrs núna á síðasta ári, og ég ætlaði ekki að trúa því að þetta væri menntaskólagengið fólk. Sumar þessarra ritgerða hefðu allteins getað verið aftan á mjólkurfernum.

    Eins hef ég talað við MA-nema í heimspekinni sem fer yfir ritgerðir í BA-kúrsum í hjáverkum, og segist álíta að sú leiðsögn sem fólk fái við ritgerðaskrif í framhaldsskólum hljóti að liggja í því einu að velja mynd á forsíðuna.

    Bíðum við. Já, semsagt: ritgerða- og bókmenntakennsla í grunn- og framhaldsskólum tvíplúsógóð.

    Sagði Blogger Björninn, kl. 7:12 e.h.  

  • Afskaplega er ég sammála þessu með menntaskólalegar ritgerðir á háskólastigi. Af þeim ritgerðum samnemenda minna sem ég hef séð er allnokkur hluti saminn eins og lagt hafi verið af stað í göngu í flóanum áttavitalaus í þoku. Hér er ég auðvitað ekki að alhæfa né hefja mig yfir einn eða neinn en markviss heimildanotkun og framsetning efnisins er eitthvað sem kennurum við sagnfræðiskor háskóla Íslands finnst ekki vert að verja sínum tíma í.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:34 e.h.  

  • En gleymið því ekki að við högnumst á þessu.

    Það sem mér hefur fundist hvað mest ábótavant í ritgerðum - fyrir utan þrjóska nemendur sem nenna ekki að læra stafsetningarreglurnar - er skipting í efnisgreinar.

    Allt of oft eru þær of langar, þannig að upphafið er ekki í beinum - jafnvel ekki neinum - tengslum við síðustu línurnar. Þá hef ég líka séð - og þetta mun vera furðulega algengt hef ég heyrt - að efnisgreinar eru hafðar fáránlega stuttar, og allt niður í ein setning (gjarnan ca 2 línur). Slíkt er náttúrulega alveg út í hött. Annað hvort hlýtur sú setning að eiga heima annars staðar; nú eða það vantar hreinlega eitthvað meira utan á hana.

    Ég held að vandamálið við ritgerðir í grunn- og framhaldsskóla sé aðallega hvussu óskaplega stuttar þær voru yfirleitt. Í 3-5 síðna ritgerð er tæplega hægt að hafa eðlilega kaflaskiptingu. Þar er framvindan heldur aldrei nægilega skýr því ritgerðinni er í raun lokið þegar hún er rétt nýbyrjuð.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:57 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða