Lesnir;

21.4.05

Ofan af þriðju hæð

Kæru lesendur.
Mér þykir leitt að geta ekki veitt jafn ríkulega úr viskubrunni námsgreinar minnar og sumir, enda er ég bara á undirbúningsdeild tækniháskóla. En hvað um það.
Og gleðilegt sumar.
Ég fékk einmitt sms frá litla-bróður, með sumarkveðju. Mér þótti afar vænt um það. Ég ætlaði að spá í sumartunglið, en það er svo vont veður að það sést ekki í himininn, hvað þá tunglið sjálft.

En hvað um það. Talandi um veður, þá hef ég stundum hrósað í hljóði skýjafegurðinni hér í Arkhangelsk. En ekki meir. Ég fór um daginn á aðalbrautarstöðina, og sá þrjá reykháfa í fjarskanum, sem uppúr ruku hvítir reykir, einmitt einsog skýin eru. Og ef vel er að gáð, þá má sjá að mest allt veður hér í borg er ættað úr þremur trénis-pappírsverksmiðjukombínötum sem standa rétt austan við borgarmiðjuna.
Á vistinni gengur allt sinn vanagang. Díma herbergisnautur lætur ekki námið setja sér stólinn fyrir dyrnar að fá sér bjór öðru hvoru. Reyndar hefur hann ekki mætt nema einu sinni í skólann síðan í byrjun febrúar; það var um daginn. Hann hafði lagt viku-vinnu í að snúa sólarhringnum aftur rétt, og mætti svo í fyrsta tíma, og gafst upp í öðrum.

Ég gerði súpu um daginn úr byggi. Það hafði enginn sagt mér að bygg væri ekki notað nema sem súpuþykkir og skepnufóður. En í súpunni minni voru 400 gr. af byggi. Ég henti henni eftir þrjá daga. Þetta minnir mig á sögu af gömlum bónda í Flóanum. Orð hans um að sér þætti „nú sambandsmélið betra,” voru túlkuð á þá leið að hann gerði sér súpu úr méli, og ætti þá við að KÁ-mélið væri mun bragðverra en SÍS-mélið.

Þareð ég umgengst mjög fólk á mínu reki, er ég orðinn afar fær í slangri. Jafnvel svo, að mér veitist stundum léttara að segja það sem mér býr í brjósti á afar ómenningarlegan hátt, með orðum einsog „limlegt” og þessháttar orðalagi. Ég er logandi hræddur um að einn góðan veðurdag muni ég missa útúr mér við kennara eða einhvern álíka, setningu á borð við „Ég skil ekki typpi í þessu hórdóms dæmi, það er staðreynd, tík.”

Um daginn átti ég afar merkilegt samtal við kennara minn, konu á miðjum aldri. Þar eð ég var sá eini sem mætti í tíma, spjölluðum við um daginn og veginn drjúga stund. Þar kom að hún spurði mig hvort ég hefði nokkuð á móti því að kvænast hér í Arkhangelsk. „Ætli það nokkuð,” svaraði ég. Og svo benti hún á það hve góðar eiginkonur væri hægt að finna hér, og að ég ætti, þar fyrir utan, endilega að sækja mér eiginkonu út fyrir Ísland, þareð við Íslendingar værum áreyðanlega þjakaðir að margra alda skyldleika. Sem dæmi um úrkynjun af völdum skyldleika nefndi hún Þjóðverja: Sökum aría-kenninga nazista þá væru margir Þjóðverjar nú á dögum bæði magrir og hökusmáir. Svo sagði hún mér að margar stelpur væru á skógfræðideildinni. „En, til hvers þér skógfræðistúdínu? Allra beztar eru hagfræði- eða lögfræðistúdínurnar.”
Þar hef ég það, allt einsog opin bók.
Snjórinn beljar, og vindarnir gnauða. Hundarnir eru horfnir inn, nema þessir stóru villtu, með höfuð einsog á nauti og lafandi tungu.
Með sumarkveðju
Palli

10 skilaboð:

  • Gleðilegt sumar!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:50 e.h.  

  • Ég hitti fyrir nokkru mann frá Zambíu sem sagði að þeir Skandinavar sem þangað kæmu enduðu flestir giftir og aðsestir eftir skamma dvöl.

    En, gleðilegt sumar.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 8:10 e.h.  

  • Ég skelf... ég veit ekki af hverju.
    Jú ég sakna Palla - líf mitt er rugl án hans.


    Jón Örn

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 5:49 f.h.  

  • Hreint ótrúlega gaman að lesa.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 4:40 e.h.  

  • Já, já, félagar, þakka ykkur fyrir tárin.
    En annars þá er ég að leita eftir ráðningu á sumartunglsspánni minni. Málið er að á leiðinni heim af internetinu varð mér litið upp í himininn, og viti menn, rek augun í tunglið sjálft. Og ég þagði, alveg þangað til í matvörubúð að afgreiðslukona ein nefndi mér verðið við kassann: 45-70.(þ.e. 45 rúblur og 70 kópekar.)
    Er ekki einhver tölspekingur sem getur sagt mér hvað þetta merkir?
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 3:23 e.h.  

  • Þið eruð snillingar Palli og Sævar. Þið minnið mig á gamla gríska heimspekinginn Plató, bækur hans eru allar faldar í einnhverjum bull tölum sem enginn skilur.

    Réttlátur maður er sjö hundurðu og eitthvað sinnum hamingjusamari en ranglátur maður.

    Hið fullkomna borgríki á að vera með 5 þús og eitthvað manns......

    Palli og Sævar eru í svipuðum pælingum.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:20 f.h.  

  • Það eru ca. 5.000 íbúar á Stór-Selfoss svæðinu...

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:03 e.h.  

  • Eru Sævar Pýþagóras og Páll Orfeus okkar tíma?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:08 e.h.  

  • Jamms og þú Ödupus...

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 8:13 e.h.  

  • Ödipus var einungis fórnarlamb aðstæðna; sá sögulegi amk.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 8:19 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða