Lesnir;

22.3.05

Lærð skrif

Í lærðu lífi lærlingsins, er nemur spakleg fræði á æðri skólastigum, eru skrif snar þáttur. Sérhverjum nema verður að vera ljóst mikilvægi þess, að skrifin séu á því máli, er efni og stað hæfir, en eigi þess tíma tízkumælis og skrílsyrðum — heldur séu þau á vönduðu máli og tímalausu, sem laus eru við hvers kyns nútímalegar ambögur, rangmæli og brákað mál.

Kunnáttu lærðra manna í Norðurlandamálunum, og einkum dönsku, fer mjög þverrandi. Svo mjög er henni ábótavant, að sumir bera alls ekkert skynbragð á, hvað hreint er og íslenzkt, óbjagað og eigi aflagað; jafnvel skynsömustu menn fremja viljanda vanvits slíka misgerð, því þeir telja, að hið fáheyrða og lítt nýtta orðalag hljóti að bera vitni víðlæsis og frjógrar hugsunar.

Fjarri fer því. Með dönskuskotnu málfari hafa þeir afhjúpað fáfræði sína lesendum, er þaðan af geta eigi áreynslulaust lesið ritgerðina sér til fróðleiks, heldur aðeins til athlægis og skopskyni sínu til næringar, en fræðilegri umræðu til óþurftar og menntamönnum til mestu minnkunar og samfélaginu öllu til vanvirðingar. Sínu verri eru þó enskusletturnar, sem hverju mannsbarni ætti að vera hægt, að hliðra sér hjá; slíkar villur eru sannarlega ófyrirleitnastar.

Hvaða nauðsyn rekur óreynda æskuna til voðaverka þeirra, sem hér hafa upp verið talin? Hvers eðlis er sú slettuduld, sem hún er haldin? Duld, sem þrátt fyrir að fara leynt handan snotrar snoppunnar, birtist þó ljóst í verkum hennar og brytjar niður sjónina svo að vér sjáum ekkert nema depla og strik.*

„Þér skuluð eigi  [. . .]  rita“
Villuræflunum kann nú að vera spurn: „Viltu meina að orð sem eru í málinu í dag og hafa vel að merkja verið í málinu í árhundruð séu dönsku- og enskuslettur? Og ekki nóg með það heldur gengurðu út frá því að við séum „fáfróð“. Það er um að geraslá einhverju svona föstu og stilla sér upp eins og alvitur siðapostuli eða svo að segja. Það er sláandi hvað þú berð þig að með miklum hroka. Þetta hefur ekkert að gera með fræðileg skrif. Ég hef á tilfinningunni að skrifin þín séu aldeilis hagsmunum fræðasamfélagsins óviðkomandi! Þvert á móti hefur ekkert að segjareikna með að venjuleg manneskja geti fundið út úr því hvaðan orðin koma. Ég vil undirstrika að það er hvergi stemning fyrir svona dillum. Þú sleppur með skrekkinn í þetta sinn en ef þú svo mikið sem segir múkk um þetta í framtíðinni skal ég sýna þér hvar Davíð keypti ölið!

(áherslur mínar)

Í þessari stuttu athugasemd, sem einhver bögubósanna hefði hæglega getað mælt — ef ekki í gær og ekki í dag, þá e. t. v. á morgun, er nær helmingur orðanna eða orðasambandanna danskættaður.

Gætum tungunnar! Mengum ekki málið. Forðumst  æ t í ð  útlenzk orð, klisjur, tuggur og götumál, svo sem ritað er (** og ***):


að stilla út ... (utstille)
aðvara, aðvörun ... (advarsel)
afgerandi ... (afgørende)
aldeilis ... (aldeles)
auðmýkja ... (ydmyg)
auðmýkt ... (ydmyghed)
árhundruð ... (århundred)
bera sig að ... (bære sig ad)
byggja ... (bygge)
(upp)bygging ... (building)
byrja með: til að byrja með ... (til at begynde med, to begin with)
dýrka ... (dyrke)
e-ð er sláandi ... (er slående)
e-ð liggur fyrir ... (noget foreligger)
e-ð þýðir ... (det betyder)
eins og aldrei áður ... (som aldrig før)
ekki að tala um ... (ikke at tale om)
ekki nóg með það ... (ikke nok med det)
eyðileggja ... (ødelægge)
finna út úr e-u ... (finde ud af noget)
forgengilegur ... (forgængelig)
framúrskarandi ... (fremragende)
gamaldags ... (gammeldags)
ganga út frá e-u ... (gå ud fra noget)
ganga yfir til e-s ... (gå over til)
grundvöllur ... (grundvold)
hafa á tilfinningunni ... (have noget på følelsen)
hafa yfirtökin ... (have overtaget)
hanga saman við ... (hænge sammen ved)
hefur ekkert að gera með ... (har intet med at gøre)
hefur ekkert að segja ... (har intet at sige)
heldur ekki ... (heller ikke)
hljóða upp á ... (lyde på)
innleiða ... (indlede)
(allt) í allt ... ((alt) i alt)
í ár ... (i år)
í dag ... (today)
í framtíðinni ... (i fremtiden, in the future)
koma inn á e-ð ... (komme ind på noget)
kringumstæður ... (omstændighed)
meining ... (mening, meaning)
móttaka ... (modtage)
múkk ... (muk)
mögulegur ... (muglig)
nærvera ... (sbr. nærværende)
óviðkomandi ... (uvedkommende)
reikna með ... (regne med)
samhangandi ... (sammenhængende)
sálusorg ... (sjælesorg)
sem oftast ... (som oftest)
ske ... (ske)
slá e-u föstu ... (fastslå)
sleppa með skrekkinn ... (danskt orðtak)
spursmál ... (spørsmål)
staðsettur ... (enskulegt)
stemning fyrir e-u ... (det er stemning for noget)
stilla e-u upp ... (stille op)
svo að segja ... (så at sige)
svo mikið sem ... (så meget som)
sýna e-m hvar Davíð keypti ölið! ... (danskt/þýzkt orðatiltæki)
taka á móti ... (tage imod)
taka e-ð yfir / yfirtaka e-ð ... (overtage, take over)
teikna ... (tegne)
tilfelli ... (tilfælde)
til staðar ... (til stede)
um að gera ... (om at gøre)
undirstrika ... (understrege)
uppfylla ... (opfylde)
uppstilling ... (stille op, opstillning)
utan að ... (udenad)
útnefna ... (udnævne)
varðandi ... (tugga)
vel að merkja ... (vel at mærke)
vilja meina ... (ville mene)
voru mættir/var mættur (á fundinn) ... (var mødt)
yfirbjóða ... (overbyde)
yfirhöfuð ... (overhovedet)
yfirleitt ... (tugga)
það gengur ekki ... (det går inte)
það gengur út á ... (det går ud på)
það liggur í ... (det ligger i)
þvert á móti ... (tværtimot)
æfa ... (øve)

- Notum ekki strik í hálfkæringi; höldum bandstrikum -, hálfstrikum – og þankastrikum — aðgreindum!

- Setjum ekki eintöluorð í fleirtölu (og öfugt)

* Svava Jakobsdóttir. 1969. Leigjandinn. [bls. 116]. Helgafell, Reykjavík.
** Halldór Kiljan Laxness. 1939. „Ill danska“. Tímarit máls og menningar, 33-35.
*** Dönsk-íslensk / íslensk dönsk orðabók. 1989. Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Svanhildur Edda Þórðardóttir (ritstj). Orðabókaútgáfan.




(Þær hugmyndir sem settar eru fram í þessari grein endurspegla ekki skoðun höfundar).

4 skilaboð:

  • Jah'erna, fyrst hélt ég að ég væri að lesa eitthvað eftir Gunnar, og svo sá ég orðalistann, og sáa að það hlaut að vera Heimir, og svo stendur undir að skrifin lýsi ekki skoðunum höfundar, og svo aftur að þetta væri Heimir sem bloggaði. Hvað á maður að halda. En vel gert samt, þetta er nokkuð sem þarf virkilega að fara að hreinsa úr málinu.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 5:46 e.h.  

  • Mér var ekki stætt á öðru en að henda einhverju inn fyrir páska og þetta var efni sem ég hef lengi ætlað að tjá mig um. Ég ákvað að það væri best að yfirkeyra stílinn aðeins á þessu í og með (d. 'i og med') til að menn færu ekki að taka þetta sem fullri alvöru (d. fuld alvor). (öll slettudæmi eru þó fullkomlega áreiðanleg - eða eiga að vera það - og ég gerði mér meira að segja það ómak að kíkja í fornmálsorðabækur í fáein skipti sem ég efaðist um réttmæti þess að telja orð eða orðasamband til dönskuslettu til að sannreyna dæmin og tryggja að orðin kæmu örugglega ekki fyrir í fornu máli). Það væri skemmtilegt að taka saman sambærilegan lista yfir enskuslettur í nútímamáli; þetta voru mestmegnis dönskuslettur. Það sem ég fann engar traustar heimildir um kallaði ég bara 'tuggur' eða 'klisjur' (t.d. varðandi 'varðandi').

    (P.s. ég vil benda áhugasömum um skrif á þýsku um íslenska málhreinsun með hundavaðsbrag á nýja versjón af þeirri grein, nú myndskreytta og málfræðilega (og reyndar efnislega) réttari. Það er hægt hér: http://www.hi.is/~hfv/ForumIslandiae/)

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 6:19 e.h.  

  • C'est n'importuquoi. Vos n'aves qu'à ecrire ce que vous voulez, c'est ici qu'il fait chaud.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 3:33 e.h.  

  • Ég skil ekki frönskuna en ég skil það sem er á milli orðana, þar stendur:

    Mér finnst franskur bjór vondur!


    Jón Örn

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 4:10 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða