Þar sem þokan er hvít
Hratt flýgur stund. Samt er ekki enn farið að hlýna upp fyrir frostmark hér. Blámeisurnar standa enn í trjánum, og krákurnar róta í ruslinu. Snjórinn liggur, og þar sem fólk hefur gengið á honum í vetur, og myndað brautir og stíga, er nú þykkt svell.
Um daginn keypti ég mér reiknivél. Hún kostaði 400 krónur. En það tók óratíma að ganga frá kaupunum, því að útbúa varð ábyrgðarskírteini. Ábyrgðin á þessari forláta reiknivél er heilt ár.
Já, ég hef aldrei áður keypt reiknivél með ábyrgð, en einu sinni er nú allt fyrst. Um daginn smakkaði ég loðnu, þurrkaða og reykta, sem við herbergisnautar mínir notuðum sem meðlæti. Og ég sem hélt að öll loðna væri brædd í lýsisfóður handa búfé. Þetta er hinsvegar ódýr og bragðgóður matfiskur, eftir því sem ég hef lært núna.
Með loðnunni fengum við okkur í staupinu. Vodkinn hét „Svarta gull”, unninn í kolanámuborg norður á reginheiðum, af Bjórverksmiðjunum í Vorkúta. Ég sem hélt að vörumerki ættu að vera traustvekjandi.
Við sama tækifæri fór ég með ruslið í ruslarennuna. Og úr ruslarennunni heyrði ég frábæra latneska danstónlist. Ekki veit ég hvaðan hún kom. En þetta er með því allra ljóðrænasta sem hefur komið fyrir mig hér, ásamt því þegar ég sá þrjá glóbrystinga á trjágrein fyrir tveimur vikum.
Um daginn varð vatnslaust á vistinni. Hjá okkur er vatnið komið á, en í sumum hlutum blokkarinnar hefur verið vatnslaust í heila viku. En hvað um það, vatnið er hvort sem er ekki svo gott. Klóri er bætt í það, og sérstaklega núna að vori til, svo að bæði kalda og heita vatnið er grátt að lit. Ég reyni að gleyma því með því að hafa bara teið nógu sterkt.
Til þess að fara á internetkaffihúsið þarf að fara í gegnum eftirlit. Þar er kerling sem skoðar vegabréfin hjá fólki, og skrifar í stóra bók eftirnafn og vegabréfsnúmar allra sem koma inn í bygginguna. (sem er 22 hæðir.) Um daginn leit hún á aðalsíðu vegabréfs míns, og spurði hvort eftirnafn mitt væri ekki örugglega Krázner. (!) Líklega hefur hún óvart lesið þar sem stendur fæðingardagur og ár.
En ekki meira þrugl að sinni.
Ykkar Flóamaður í Arkhangelsk - Palli