Lesnir;

20.5.06

Að (næstum) loknu Söguþingi.

Söguþingið hefur verið afar skemmtilegt og fróðlegt, þó á annan hátt en mig í fyrstu grunaði.

Og nei! Ég snidgieck sirkúsatriði Sigurðar Gylfa og hirðar hans og mætti frekar á málstofu um sjúkdóma á miðöldum og hospítöl, klaustratengd. Enda er það sagnfræði, ekki innihaldssnautt heimspekilegt hugtakafyllerí eða blammeringar út í loptið.

Umræður um aðferð eru sosum góðar og gildar, andóf jafnvel líka. En þegar menn hafa fundið „sannleikann“ og ætla sér að útryðja með öllum ráðum öllu sem að þeirra mati er rángt þá er hefst gangan óæskilega eftir hinum hála ís. Ég veit ekki betur en að það sé sagnfræðingum gagnlegt að hafa sem flest verkfæri í vinnubragðaskúrnum sínum. Það er gott að geta gripið til einsöguhamarsins þegar hann á við, en einnig yfirlitssagarinnar. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.

Í umræðum að loknum fyrirlestrum um menningu, sögu og túrisma var rætt m.a. um þann vanda sem upp kemur þegar „leikmenn“ bera sögu/sagnfræði á borð fyrir saklausa túrista. Ég hef ritað á svipuðum nótum, sjá hér

13.5.06

Við öndvert sumar: áhrif og athugasemdir

Kæru lesendur. Kæru vinir.

Arkhangelsk er 350.000 manna Eyrarbakki. Nær ekki lengra upp frá ánni en rétt að mýrunum sem eru hér allt um kring, en það er um kortérsgangur frá árbakkanum. Byggðin teygir sig svo niður eftir öllum ósum og árhólmum, og lengst uppfyrir Sagverk nr. 2.
Götu- og hverfaheiti eru svo ekki ósvipuð þeim á Selfossi. Einsog menn hafi fyrir löngu þurrausið hugmyndaflugið, eða þá að ótækt er talið að staðir heiti sínum raunverulegu nöfnum. Hér eru hverfi á borð við Ekonomíu 1 og 2, Súlfat og Sílíkathverfi, Faktoría er hér uppfrá, og einn hólmurinn heitir Konveier. (Það merkir færiband). Að ógleymdu hverfi Fyrstu 5-ára-áætlunarinnar.

Hinn ungi borgarstjóri Donskoj geislar af gleði er hann fer milli staða á Volvóinum sínum. Maðurinn sem háði kosningabaráttu í sænsku fánalitunum, og með slagorðum á borð við ,,Hver verður borgastjóri? Donskoj!”, og ,,Donskoj - punktur!”, er að vinna sig í áliti hjá íbúunum jafnt og þétt, aðallega með því að skipa mönnum að taka til í kringum skrifstofubyggingar og að reka háttsetta embætismenn. Og vonandi að fari ekki fyrir honum einsog Béloúsovi borgarstjóra í Tver, sem vann sitt fimmta kjörtímabil með einu slagorði; ,,Sinn.” – Þegar hann dó óvænt í miðju embætti fylltust allt frá skólanemendum til ellilífeyrisþega létti og, allt að því, gleði.

En burtséð frá því gengur allt sinn vanagang hér á vistinni. Eftir að skipt var um veggfóður í herberginu í febrúar höfum við Tóní ekki enn sett upp gluggatjaldaslá. Þar af leiðandi eru engin gluggatjöld. Ég er svosem ekkert að pæla í því þó að úr nokkrum gluggum á augnveikispítalanum hér á móti sjáist er ég tek kvöldarmbeygjurnar, en það er verra þegar sunnanvorsólin björt skín án miskunnar frá því um óttubil á tærnar mínar.
Og það er ekki laust við að mörgum finnist herða að hálsi þegar í morgunhitunum eina drykkjarhæfa vatnið er næturstaðið, moðvolgt vatn, og ef til vill hið eina sem hægt er að drekka yfir daginn svart te. Mörgum er það þessvegna ljúf leið að eyða þorsta sínum eftir vinnudaginn með svölum bjór úr einhverri sjoppanna sem standa við hverja stoppistöð.
Í borginni sem kennd er við Mikjál erkiengil er því margur kenndur. Og Mikjáll sjálfur stendur utan á ráðhúsinu, berleggjaður í stuttu pilsi að fara að reka sverð í púka, á meðan borgarbúar fljóta eftir götunum í strætisvögnum. Karlmenn með þunglyndissvip yfir yfirskegginu, því þyngri sem glæsileiki kvenfólksins, sem er þeim áleiðis í bílnum, er meiri.

Það virðist ekki ætla að fara að rigna í bráð. Þurr sandurinn læðist inn í skóna, svo að hella verður úr þeim við hverja heimkomu. Óskiljanlegt hvað grasið er grænt í regnleysinu, en það gæti þó vel verið skýranlegt með því að við sinubruna gengur mestallt vetni í lífrænum sameindum í samband við súrefni, svo að úr verður vatn. Þannig vökvast hin þurfandi vorjörð ummynduðu blóði forvera sinna, og er fagurt að sjá hve fólk er ötult við að brenna lauf.

Ef strætisvagnar gengju niður á Eyrarbakka myndi ég aldrei fara alla leið. Ég myndi vilja fara út á miðri leið og ganga í mýrinni. Þar sem störin vex þrístrend, og hrossanálin stingur í gegnum skálmarnar. Þar sem mýrfuglarnir eru.
Og ymur í sefi.