Lesnir;

23.5.05

Saga

Ég þykist hafa greint vandann sem sagnfræðin glímir við á öllum tíma, en það er glíman við leikmennina.
Reynir manneskja ómenntuð í bifvélavirkjun að gera við bílinn sinn? Nei, nema viðkomandi hafi grúskað eitthvað í þeim fræðum sem hobbý (oft með misjöfnum árangri, en þó alls ekki alltaf). Sama má segja um söguna; pólitíkusar, trúarofstækismenn, almenningur o.s.frv. hafa (hvort sem það er til góðs eða ills) greiðan aðgang að sögunni (í hvaða formi og frá hvaða heimildum sem sú saga kann að vera sprottin úr). Þess vegna, eins og með bílana, vaða hinir ómenntuðu oft(1) í villu heimildafordóma, takmarkaðs aðgengis að téðum heimildum og kunnáttuleysis í aðferðafræði; og valda meiri skaða en fólk gerir sér grein fyrir.
Eða, eins og prófessor Árni Magnússon orðaði það:

Svo geingur þad til i heiminum, ad sumer hialpa erroribus á gáng, og adrer leitast sidan vid ad utrydia aptur þeim sömu erroribus. Hafa svo hvorir tveggiu nockud ad idia.(2)

Svo má aftur ræða um hvað er ,,rétt" menntun í sagnfræði.

Tilvísanir:
(1) Ég endurtek, alls ekki alltaf.
(2) Jón Helgason: Handritaspjall. Reykjavík 1958, mynd andspænis bls. 113. [AM 436 4to]

2 skilaboð:

  • Sjá frekari vangaveltur mínar um tilvistarkreppu sagnfræðinnar á skjalgr.blogspot.com.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:41 e.h.  

  • Þetta minnir mig svolítið á viðtal við Sjón sem ég heyrði um daginn. Hann var þá að rabba við útvarpsmann um listir og rakti óbeint allar helstu grunnhugmyndir póst-strúktúralista og hugtök þaðan. Þetta var í sjálfu sér listavel gert hjá manninum en síðan fór ég að efast um að hann væri nokkuð annað að gera en einmitt að þylja þetta upp, því það sem hann sagði síðan um verkið „sitt“ var í svoleiðis öskrandi mótsögn við hans almennara snakk um fræðin. Hann sagði hvorki meira né minna en það, að lesendur myndu alveg áreiðanlega
    „misskilja“ verkið (hvar er margröddunin?).

    Nú veit ég ekki hver er erroribus í þessu tilviki, listamaðurinn Sjón í holdinu, höfundurinn Sjón, söguhöfundurinn Sjón, sögumaðurinn Sjón, einhver Sjón útí bæ (sem er hæpið), tvískinnugur póst-strúktúralisti, eða e.t.v. allt í senn eða einhver allt annar, en þetta sannar ummæli Árna: það eru til menn sem telja sig vita og telja öðrum trú um að þeir viti; þessir menn geta svo sem komið ýmsu góðu til leiðar, en sennilega reynist það sem þeir segja vera tómt snakk um allt og ekki neitt, og gerði í þessu tilviki a.m.k. ekki mikið annað en að rugla hlustandann í ríminu.
    Til dæmis stoðar lítið að halda miklar lofræður um útgáfur og mikilvægi þess að vera textanum trúr en rusla svo og berja saman illagerða texta með ófullnægjandi aðferðum og viðmiðum um hvað getur með góðu móti talist nýtilegt. - Það er þó við þessar aðstæður e.t.v. sem upp kemst um svikin og menn átta sig á að það þarf að gera miklu betur. Vonandi gerist það áður en fleira tortímist af okkar dýrmætu menjum liðinna alda.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:15 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða