Lesnir;

23.9.08

Sonnetta

Tvíræðir höfundar trítla á skáldaslóðum
tileinkandi portfrúm vísur sínar.
Leirburðinn þeirra lofa allir rýnar
því listin dó, við hana fótum tróðum.

Sérðu hvar hún liggur, syrgð af fáum;
sælir eru þeir sem henni bráðast gleyma.
„Þar sú fórst sem aldrei finnst um heima
og fyrri hæðum aldrei gera náum.“

En víst má reyna að vekja hana af svefni
og vekja þjóð til mennta og af sút.
Því hvað er líf sem lifað er án róta?

Fornra skálda ennþá nöfnin nefni,
en nýgræðinga man ei dægrið út.
Þröstur minn góður, stefnt getum til bóta.

17.9.08

Myndir úr vísindaferð

Það benti mér maður á að það gæti orðið gaman að birta nokkrar myndir úr námskeiðsdvölinni í Karasí. Auk þess kallaði hann ferðina vísindaferð, sem mér finnst skemmtilega komizt að orði.

Myndirnar eru frá hinum og þessum. Það þurfti að velja þær gaumgæfilega; sneiða hjá öllum myndum af ölvuðu fólki, stelpum í sundbolum og þeim sem á annan hátt kynnu að gefa upp neikvæða, ýkta eða ranga mynd af mannlífinu.

Það má vera, að það hafi ekki tekizt fullkomlega. En látum það samt vera.

---


Gúsév, Červočkov, Kostylév.

Á heimleið eftir sýnikennslu á TDT-40 beltatraktor. Takið eftir gleraugunum á Gúsévi; þau skar hann út úr tómri bjórflösku þá um morguninn.


Vanín, Borovoj, Zadorín, Zacharov, Alexander Rosljakov, Michalič, glittir í Kičakov, Gúsév, Kobilín, Romanov.

Frá vígsluathöfn varðeldstæðisins, sem seinna fékk nafnið And-stúdentaráð. Það fylgir sögunni að þegar fáninn var svo dreginn upp, þá hafi allir sungið þjóðsönginn.


Kobilín, Rosljakov.

Lerkitré mælt. Mælistikan náði ekki utan um stofninn.


Michalič, Tretjakov, Zacharov.

Súpa að kvöldi til. Í bakgrunni er blái svefnskálinn (karldyr). Hægra megin liggur eldiviðurinn.


Tsvetkov, kennari; Ovsjannikova, Kostilév, Vanín, Spíridonov, Smírnova, Zadorín.

Í skógmælingum. Þetta voru heitir dagar, en bitmýið ásækið.