Lesnir;

14.3.06

Jarteinasögur

Jarteinasögur eru býsna merkileg fyrirbæri nútímalesendum. Í þessum sögum - sem eiga það til að líkjast ögn sjúkraskýrslum - er bágum aðstæðum einhvers manns eða húsdýrs hans lýst, hann heitir á dýrling - t.d. Þorlák eða Guðmund -- hvernig var það, var Guðmundur opinberlega tekinn í dýrlingatölu? -- sem bætir öll hans mein.

Að undanförnu hef ég aðeins þurft að lesa slíka texta, hvorki af fróðleiksfýsn né skemmtanaþrá, heldur vegna þess að óvíða flóa lindir íslensks máls tærar en einmitt hér.1) Hér er dæmi af slíkri frásögn, all-furðulegri:2)

31. Einarr hét maðr ok var Andrésson.3) Hann tók augnaverk, ok honum var krankt í fæti. Getnaðarlimirnir þrútnuðu, svá at hann varð at hafa klæði neðan undir til léttis, því honum þótti sem slitna mundi ella. Ok einn dag, sem hann var úti hjá sleða sínum, þá vatzt fótrinn undir honum, svá at hann gat ekki við spyrnt. Þá tók hann rim ór sleðanum ok studdist við inn í bæinn. Þá þykkir Einari þyngjast, hefir krankleika í augunum, svá at hann mátti eigi sjá, en í fótunum, svá at hann mátti eigi ganga, sárleik af þrútnan getnaðarlimanna, ok um nóttina fekk hann eigi sofit. Þá kallar hann á Guðmund byskup Arason ok hét at láta syngja þrjár sálumessur fyrir sálum föður ok móður Guðmundar byskups ok þess, at [G]uð gæfi honum aldrs heilsu, ok eftir heitit sofnar hann. Ok um morgininn eftir mátti hann vinna ok fekk alla heilsu sinna meina, ok til marks hér um, at þat eistat, er honum var sárara ok meir niðr sigit, var komit upp í kviðinn, en tómt skinnit eftir, ok svá hefir jafnan verit síðan.4)

Það er merkilegt með margar af þessum kraftaverkasögum - lesendur nú á dögum eiga yfirleitt auðvelt með að finna læknisfræðilegar skýringar á kvillunum sem hrjá viðkomandi mann (eða konu5)). Sumar sagnir eru stórlega ýktar (efasemdamönnum eins og mér), þar sem svöðusár gróa á fáeinum dögum og hverfa jafnvel án ummerkja. Hvernig orkuðu þessar ýkjur á samtímamenn þessa fólks? Kunni það að túlka frásagnirnar „rétt“? Sem svo að talað væri í fígúru, eða öllu heldur að ekki ætti að skilja þetta alveg bókstaflega? Það getur varla verið - í þessu tilviki var jarteinum safnað til að Guðmundur kæmist í dýrlingatölu: þær hafa átt að vera sannar.

En nútímalesandi hugsar vísast sem svo: aumingja maðurinn hefur fengið hettusótt.

1) Lesnir vita vitanlega að þessi orð hafði Jón Helgason um allt annað efni, en það má kannski segja að skilgreining „tærra linda“ hafi tekið nokkrum breytingum frá 1958.
2) Þessi frásögn er hugsanlega orðrétt eftir AM 657 C, 4to. (51v), nærfellt stafrétt eftir Jarteinabók Guðmundar byskups:486.
3) Einar þessi mun fæddur um 1180 samkv. Íslendingabók (hinni „minni“).
4) Jarteinabók Þorláks, sem þessi frásögn er úr, er í Stafrænu handritasafni Stofnunar Árna Magnússonar, en svo óheppilega vill til að 51v hefur ekki verið mynduð - 51r er þar hins vegar, og hana geta menn lesið sér til yndis og ánægju hér
.

5) Þess ber að geta að í þessum frásögnum er greint milli manna 'karla' annars vegar, og kvenna 'kvenna', þeim til fróðleiks sem áhuga hafa á því. Þessi not eru engin yfirlýsing af minni hálfu.

4 skilaboð:

  • Í óðagoti hef ég fellt öll skrif lesinna í eina gríðarstóra neðanmálsgrein. Ég biðst velvirðingar á því.

    (Ég þykist hafa fært þetta til betri vegar, en breytingarnar birtast mér leiður ekki).

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:43 f.h.  

  • Ísland hefur því miður einungis einn vottaðann dýrling alið; Þorlákur Þórhallsson heitir hann. Jóhannes Páll Páfi II samþykkti að hann væri helgur maður (1981?).

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:25 e.h.  

  • Annars, mjer vaknadi aahugi aa thessu med ,,lindur tairar iislenzks maals", (hjaalpi mjer, er jeg ordinn svona illa lesinn?)
    Hver er sagan aa bakvid thetta?

    Sagði Blogger Palli, kl. 6:42 e.h.  

  • Því er auðsvarað. Íslensk hómilíubók hefur löngum þótt málprúð með eindæmum og Jón Helgason sagði að óvíða flói lindir íslen[s]ks máls tærar (þessa athugasemd er að mig minnir að finna í bók hans Handritaspjall, að mig minnir á bls. 16, útgefin að mig minnir árið 1958).

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:26 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða