Lesnir;

15.3.06

Matur gerður

Kæru lesendur. Kæru vinir.

Tónverkasmiðurinn mikli Rossini - maðurinn sem samdi Rakarann frá Sevilla – snéri sér eftir tónskáldsferil sinn að annarri listgrein; matargerðarlistinni.
Eða er þetta ekki göfugt? – að maður sem helgað hefur sig einni af hinum æðstu listgyðjum skuli á efri árum gefa sig að ástundun frum-mannlegra íþrótta á borð við kássur og grauta.
Matargerð er enda samofin sögu mannkyns. Og í raun má líta á matargerð sem hverja aðra vísindagrein. Uppgötvanir hafa verið gerðar, og vitneskja orðið til, og allt hefur þetta ýmist verið samferða framþróun mannsins eða bein orsök hennar. Benda má á þá merkilegu uppgötvun, sem gerð var á Ströndum, að hákarl má éta eftir kæsingu, en það stuðlaði að útbreiðslu hákarlaáts á Íslandi, sem er varla þekkt annarsstaðar í kringum okkur. Og Erlingur Brynjólfsson benti í sögutíma á það stórstökk, þegar menn lærðu að koma korni í brauð og öl.

Í matargerð hafa komið fram ýmsir straumar hugmynda, jafnt í æðri matreiðslu sem lægri. Ég ætla ekki að hætta mér útí nein straumaköst, heldur svamla létt í lónum fræða leikmanns, með þeim hætti að birta hér niðurstöður eigin athugana á matargerð; hugrif af henni; orkanir og meðfæri.
---
Súpur eru hentugar að mörgu leyti. Oft er það svo að tími sem þarf til eldunar fer ekki saman við þann tíma sem raunverulega er fyrir hendi. Og til þess að komast hjá því að þurfa að lifa á brauði og tei einu saman er þægilegt að hafa súpu tilbúna í potti og hita hana upp á stuttum tíma þegar vill. Þannig er hægt að eiga í fáa daga tilbúinn mat í potti.
Í súpuna má hafa kartöflur, hrísgrjón eða pasta og hvaða annan kornkyns mat sem er, þar með taldar baunir. Um daginn sauð ég annars súpu með baunum og kuðungslaga pasta. Þegar ég svo var að matast fannst mér einkar skemmtilegt að sjá hvernig baunirnar höfðu skriðið inn í kuðungana, einsog til þess að fela sig eða að leika eftir fjörukröbbum. Datt mér í hug að þetta fyrirbæri gæti vel kallazt komportamentísk mímikría (atferlishermun). - Súpan er svo hituð upp við tækifæri, eins oft og löngun skreppur til. En eftir nokkra daga þá ætti hún að vera orðin all-þykk. Þykknun súpunnar verður til að mínu mati með þrennum hætti: a) Við austur í skál er yfirleitt tilhneiging að skilja bitana eftir en taka vatnið í ausuna. b) Vatnið gufar af sjálfu sér upp og c) hinir fastari hlutar súpunnar renna saman við vökvann og þykkja hann.
Þá er fátt hentugra en að hella því litla vatni, sem eftir er, af pottinum, skella eftirlegunni á pönnu og steikja súpuna.

-- Loðnusúpa. --
Fyrir nokkru sá ég reykta loðnu úti í búð, í frystipakkningum, og ákvað ég að kaupa hana þar eð ég minntist þess að hún væri ágætis matur. Heima á vistinni steikti ég hana, en aðra eins brælu hef ég aldrei vitað. Líka reyndi ég að hafa hana ofan á brauð; og að hafa hana með spaghettíi og tómatsósu, reyndi jafnvel að éta hana eina og sér og að síðustu með hveitibjór, en allt var það tómt erfiði og árangursleysi. Það var þá sem ég sá að hún myndi henta vel í súpu:
- léttsaltað vatn
- kartöflur ekki skornar smærra en í gúlbita, og þær látnar sjóða.
Þvínæst bætt við graslauk. Þá má láta í súpuna einsog tvær eða þrjár loðnur.
Undursamlegt þótti mér að sjá þær synda um, einsog væru þær lifandi, innan um kartöflur og graslauk. Augu þeirra, svo stór og tóm en um leið döpur, raunaleg og allt að því mannleg, virtu fyrir sér þessa nýju veröld, litla en bjarta (potturinn er hvítur að innan), - munnurinn opinn í undrun, eða kannski slokkningu þorsta tilkomins eftir grimmilega reykingu og frost.
Ég þurfti svo að bregða mér frá að gá að tekatlinum, og þegar ég kom aftur að pottinum voru loðnurnar allar sundurtrosnaðar.
- Þessu næst má brjóta egg beint ofan í pottinn, það soðnar strax og verður að nokkurskonar skýjatjásum eða þokuslæðingi.
Súpan bragðaðist harla vel; án verulegrar kryddunar, góð eintóm, hentar annars með gerlausu brauði eða byggöli - einfaldleikans vegna.

7 skilaboð:

  • Það er reglulega gaman að heyra í þér aftur. Það er aumt hvað ég hef lítið samband, en nóg um það.

    Þessar aðfarir eru í hæsta máta áhugaverðar verð ég að segja. Alla mína tíð hef ég haldið því fram súpur væru hið mesta óæti - bragðbætt vatn, og yfirleitt ofsaltað. Þetta var áður en ég gerðist tedrykkjumaður, eins og gefur að skilja.

    Ég geri fastlega ráð fyrir að í næstu viku reyni á atferlishermunina, þar eð kokkurinn verður fjarverandi. Þá má jafnframt prófa loðnusúpuna. Það verður kærkomin tilbreyting frá sundursoðnu pastaslaufum.

    - Og hvernig stendur á því; af hverju man ég ekkert úr sögunni hans Erlings annað en hvaða mikilmenni sögunnar voru gei og bæ og alkar, eða eitthvað þaðanafverra? Mér er ímynduð frásögnin af tilkomu korns í „matargerð“ í fersku minni, en aftur ekki neitt um frönsku stjórnarbyltinguna eða raunar neitt annað!

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:43 e.h.  

  • Tss, um stjournarbyltinguna aattum vid ad lesa sjaalf, en allt hid meira merkilega sagdi Erlingur svo okkur, og tel jeg ad med thessu mouti hafi jeg (svo ad jeg tali nuu adeins fyrir sjaalfan mig) Qdlast mun meiri innsyyn ii sQguna heldur en med einhverju stagli.

    Sagði Blogger Palli, kl. 6:37 e.h.  

  • Vissulega. Og ég þykist hafa lesið um stjórnarbyltingu þessa í myndasöguritinu sem uppnefnt var kennslubók í sagnfræði. Reyndar tengdi Erlingur frönsku byltinguna kornrækt! skyldi engan undra.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:29 e.h.  

  • Það er nú minnsta mál í heimi að tengja frönsku byltinguna kornrækt. Árið 1783 upphófust einhver mestu eldsumbrot á sögulegum tíma, þ.e. Móðu(r!)harðindin. Áhrifa þeirra varð vart í Evrópu og víðar, því öskuskýið var svo mikið og stórt að það hefti ágang sólar að jörðu, sem varð til kælingar og íllra sumra. Þess vegna áttu franskir bændur lítið korn og voru svángir og fóru í uppreisn.

    Annars: Schuppe! Ich hassche d' Schuppe.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:42 f.h.  

  • Juujuu, minnir ad Erlingur hafi talad um thetta med Mouduhardindin og frQnsku byltinguna.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 3:17 e.h.  

  • Sæll Páll langaði nú bara að kasta kveðju á þig, langt síðan maður hefur heyrt af þér. Svo langaði mig að forvitnast um bókina sem þú ætlaðir að skrifa (ég átti víst að vera fyrirmynd að persónu). Einhver von á henni fljótlega?

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 9:59 e.h.  

  • Blessaður Palli, hvenær kemuru heim
    kveðja Óli á Hrauni

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 8:51 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða