Lesnir;

13.7.05

Guð mín góða!

Á málstofu sem ég sat fyrir skemmstu á sk. kirkjudögum var rætt um íslenskt mál og mál almennt sem valdatæki og lið í kúgun kvenna fyrr og nú. Umræðan var greinilega mjög þörf miðað við lýsingar þess fjölda kúgaðra kvenna sem þangað var mættur og auðsjáanlegt að tungumálið er furðanlega vanstillt.

Konurnar lýstu til dæmis þeirri ömurlegstu útskúfun er fælist í ávarpinu: „Kæru vinir!“ — svo óheppilega vildi til að kirkjudagar voru einmitt opnaðir með þeim orðum. Sumum lá við köfnun af gremju, aðrar voru sárar og enn aðrar voru hrærðar yfir þó þeim árangri sem þær höfðu náð, svo mjög að ein þeirra lýsti því að blíð hvarmaskúr hefði vætt fyrstu síður nýrrar tilraunaútgáfu Nýja testamentisins sem að þónokkru leyti er og mun verða á máli beggja kynja.

Þetta er mikið áhyggjuefni. Þegar málinu á Biblíunni hefur verið breytt er hætt við að málnotkunin breytist víðar. Menn hætta að þora að ávarpa fjöldann í karlkyni: Eru ekki allir spenntir? Vegna bruna á þriðju hæð verða allir að yfirgefa bygginguna tafarlaust! (bara karlar?) o.s.frv. Hvað tekur þá við? Færeyska: Tað verða øll ... ? Það verða allir og allar ... ? (Þetta síðastnefnda kusu flestir á fundinum og fannst þetta sáraeinfalt, sjálfsagt mál).

Ég gat ekki annað en hrærst fölskvalausrar meðaumkunar yfir þessu hugarástandi kvennanna. Mér rann til rifja og sárnaði heiftin sem bjó í orðum þeirra þegar þær lýstu and-karllegum (refsandi, hirtingarsömum, letjandi, ávítandi) og al-kvenlegum (blíðum, móðurlegum, skilningsríkum, hvetjandi) hugmyndum sínum um Guð. Að mér læddust illir þankar um kvenupphafningarstefnu sem ekkert ættu skylt við evangelíska-lúterska trú þjóðkirkjunnar og væri frekar tilraun til að koma aftur á fyrra sambandi við Maríu mey — eða vildu þær í raun ekki bara kaþólska trú? Og átti nú að reyna að ráðskast með tungumálið, meðvitað aflaga það, hrista til í því, grauta í málvenjum undir því yfirskyni að verið væri að stuðla að jafnrétti?

Kirkjan hefur verið voldug en hún er það tæplega lengur, a.m.k. ekki hér. Ég óttast þó þau áhrif sem þetta kann að hafa; þau skilaboð sem slík breyting á textum Biblíunnar sendir út til mannanna. Hér áður fyrr tókst kirkjunnarmönnum að „afheiðna“ sjálf dagaheitin: geri aðrir betur.

Lausleg athugun á fornmáli leiðir eftirfarandi í ljós:1

1. dagur vikunnar:
sunnudagr > drottinsdagr > sunnudagur

Tilraun var gerð til að breyta sunnudegi í drottinsdag en sú breyting virðist ekki hafa slegið í gegn og við höldum gömlu myndinni.

2. dagur vikunnar:
mánadagr > ? (annardagr) > mánudagur (sló ekki í gegn)

Mánudagur sem áður var kenndur við mána og réttnefndur mánadagur gæti hafa verið uppnefndur annardagr af kirkjunni en um þetta finn ég engin dæmi.

3. dagur vikunnar:
týsdagr > þriðidagr > þriðjudagur

3. dagur vikunnar sem var áður nefndur eftir Tý fær hið frumlega (?) nafn þriðidagr. Sú breyting slær í gegn og við segjum þetta enn.

4. dagur vikunnar:
óðinsdagr > miðvikudagr > miðvikudagur

Dagurinn nefndur miðvikudagur eins og í þýsku.

5. dagur vikunnar:
þórsdagr > fimmtidagr > fimmtudagur

6. dagur vikunnar:
frjádagr > föstudagr > föstudagur

Upphaflega kenndur við Freyju en á lymskufullan hátt klætt í kristilegri búning.

7. dagur vikunnar
þváttadagr, laugardagr? > laugardagr > laugardagur


Skoðanir óskast.

1 Unnið upp úr gögnum í Textasafni Orðabókar Háskólans og fornmálsorðabók Fritzners, Ordbog over det gamle norske sprog, sem hvort tveggja er á Netinu.

11 skilaboð:

  • Danirnir, sem eru jú svo ligeglad, kunna þetta. Þar eru víst bara tvö kyn, samkyn og hvorugtkyn. Tökum upp dönsku á drottinsdögum, það er mál beggja kynja!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 1:06 e.h.  

  • Að auki vil ég benda áhugamönnum um þessa umræðu á þessa: http://www.thebestpageintheuniverse.net/c.cgi?u=feminazi
    síðu.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:23 e.h.  

  • Hvernig er það, teljið þið að tungumál geti stjórnað hugsunum? (Þ.e. gert þær mögulegar eða ómögulegar eftir atvikum.) Og teljið þið að þessi undarlega málbreyting sem kvennakirkjan stebdur fyrir geti haft áhrif í þá veru umfram eðlilega brenglun á boðskiptum sem verður við hugtakarugling sem þennan?

    Sagði Blogger Palli, kl. 11:07 f.h.  

  • Ég dreg mjög í efa hlutverk tungumáls í hugsun. Þetta var t.a.m. rætt í „fílunni“ og þar kváðust margir hugsa í orðum, en það er nokkuð sem ég get ekki hugsað mér. Oft er t.d. talað um að fólk hugsi á einhverju tilteknu máli, en í alvöru talað: hugsar einhver í orðum? Mér finnst sú hugsun með endemum heftandi og alveg ótrúlega seinvirk (ég man oft ekki orð og ef ég ætla að orða einhverja stórmerkilega hugsun kem ég henni ekki nærri því alltaf í orð sem hæfa henni). Ég hugsa aldrei: „Nei en sætur köttur!“ (ég segi það kannski upphátt) en hugsunin er frekar e-s konar tilfinning eða hughrif; ég væri allt of lengi að hugsa orðin „nei“, „en“, „sætur“, „köttur“. Ef ég segi t.d. þessa setningu upphátt fer ég ósjálfrátt að hugsa um orðið "cut" í ensku en það gerist ekki ef ég sé krúttlegan kött (stuðlun sem þessi vekti heldur ekki athygli mína ef ég hugsaði eitthvað í líkingu við 'krúttlegur köttur').

    Þannig að: ég hafna því að tungumál gegni einhverju hlutverki í hugsun.

    Það hins vegar að tala við sjálfan sig í hljóði kann vel að fara fram innan tungumáls - og það gerir það sannarlega - en það er allt annað en hugsun.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:31 f.h.  

  • Hvað hina spurninguna varðar - hvort þessar breytingar (t.d. afnám málfræðilegs kyns (menntamálaráðherra, hún fór...; það eiga allir og allar að yfirgefa bygginguna tafarlaust; vinkonur og vinir ['lærisveinar'] Chomskys eru síst til eftirbreytni; kennarar og kennslukonur þurfa bætt laun, o.s.frv.) muni breyta einhverju öðru en bara valda hugtakaruglingi o.þ.h. þá held ég (ef þessi málnotkun slær í gegn) að þetta muni aðallega leiða til árekstra milli tveggja öfgahópa: fólks eins og mín sem þolir þetta ekki og fólks eins og í Kvennakirkjunni sem er þetta mikið hjartansmál. Eins og fram kemur í umræðunni sem Gunnar benti á (sjá innlegg nr. 2) er þetta og verður endalaust vandamál ef fólk lætur þetta fara í taugarnar á sér. Ef ég ákveð að mér þyki óþolandi að heyra upptalið þeir/þær/þau og allir/allar/öll í sífellu, þá er það mitt vandamál. Ég læt það bara fara í taugarnar á mér. Eins með hinn hópinn.
    Ég held að í versta falli ýti þetta undir karlfyrirlitningu (innan Kvennakirkjunnar og vinkonum og vinum hennar), og stuðli að ennfrekari aðgreiningu kynjanna með því að tekin vera upp fleiri kvk-orð í stað kk. - sennilega væri farsælasta lausnin að nútímalísera íslensku og losa okkur við öll þessi kyn (það mætti ræða brottnám y, nk/nk og falla í leiðinni (skilja þó eftir nf. og þf.)).

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:46 f.h.  

  • Hvernig er það, eru þessar kvennakirkjukonur nú þegar farnar að kalla Guð Gyðju, eða hafa þær ekki stigið skrefið til fulls?
    Ég vilsvo benda á að einu orðin sem íslezkan á yfir sérstaklega kvenkyns prest eða þvíumlíkt eru hofgyðja og hofmey. Hvernig gæti það samræmst kristinni venju?

    Sagði Blogger Palli, kl. 7:53 e.h.  

  • En annars með þessar kynjahræringar, er þetta ekki braa einsog með manninn sem var alltaf með svo mikinn hausverk, og fór svo til læknis. Saman fundu þeir út að hausverkurinn stafaði af því að hann var af einhverjum ástæðum farin að bíta saman jöxlunum (upp að vissu marki), en yfirleitt gengur fólk um með lausbeizlaða jaxla (þó að það sé yfirleitt með lokaðan munninn). En manninum hafði einhvernveginn fundizt að það væri eðlilegt að ganga um með samanbitnar tennur. Svo að þetta er þvímiður bara í nösunum á þeim sem finnst asnalegt að segja „allir út" o.s.frv., það er aðeins föttunaratriði að finnast það allt í lagi að allir þýði bæði konur, karla og börn. En málið er að læknirinn gat auðveldlega bent jaxlamanninum á að það væri eðlilegt að bíta ekki saman tönum dags daglega, en hvað stoðar að segja kvennakirkjumönnum (efnislega skiptir ekki máli að þetta munu flest vera konur) að málfræði kk. tákni í raun oft öll kyn og ekkert kyn, og sé í raun yfir kyn hafið stundum, þegar þetta að þeirra mati er réttlætismál o.þ.h.
    Og svo eru það ekki þær sem fá hausverkinn, heldur við.
    Þetta er alltsaman alvarlegt mál. Lifum við kannski á upplausnartímum sambærilega við þjóðflutningaöld, þegar tungumál tóku stökkbreytingum? Það eru ekki allir sem bera skynbragð á yfirkynhafningu málfræðilegs karlkyns, og það gæti tekizt hjá þessum minnihluta sem telur kk. merkja kk. að sannfæra hina sem nota tungumálið en eru ekki eins vaknir og sofnir yfir eðli þess og aðrir. Við, bæði menntaðir íslenzkumenn og venjulegt fólk verðum að vera vakandi, megum ekki vera hræddir við að benda fólki á eðli málsins og tala um það, koma skilaboðunum út í þjóðfélagið. Einhvernveginn finnst mér að ég hafi heyrt af kvennakirkjumálfræðinni í umræðunni sísvona, en ekki af móthliðinni nema sérstaklega af því að ég er tengdur Lesnum og hef áhuga á málinu. Hvað með almenning? Sem ekkert fréttir?
    Ég óska þess að þegar ég verð gamall, þá muni krakkarnir sem hoppa og leika sér áhyggjulaus tala ómeðvitað „allir út", og meina þá alla, óháð kyni.

    Sagði Blogger Palli, kl. 8:18 e.h.  

  • Svo er eitt enn sem má benda á; í þeim dæmum úr Biblíunni sem fulltrúur(!) kvennakirjunnar tóku var alltaf um að ræða atvik þar sem kom sér vel, ef það má orða það svo, að vera talinn með. Sérstaklega hafa þær notað fjallræðuna í þessu sambandi: ,,Sælir/sælar eru fátækir/fátækar í anda", ,,Sælir/sælar eru hjartahreinir/ar því þeir/þær munu Guð sjá" o.s.frv. Ég spyr því, hvað um kafla eins og þennan úr 1. Kórintubréfinu:
    Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.
    Vill kvennakirkjan breyta þessum texta yfir á mál beggja kynja?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:15 f.h.  

  • Ég hef nú þegar eytt sirka tveim mínútum og nokkrum ónýttum byrjunum í að koma þessari athugasemd frá mér. Það sem ég set fram núna, þegar argúmentið hefur myndað sig í höfði mér, myndi ég vilja kalla hugsun. Það sem var á seyði í hausnum á mér áður en ég var fær um að koma því frá mér (hvort sem er á prenti eða í mæltu máli) myndi ég vilja kalla tilfinningu. Það er e.t.v. ekki besta orðið, en hvað um það. Mér sýnist þetta með köttinn sæta vera kjörið dæmi. Þú sérð kött sem vekur hjá þér einhverja tilfinningu sem þú kannast við, og þú þarft sosum ekkert að fara neitt lengra en það. En ef þú ætlar að deila þessari tilfinningu með einhverjum (eða ef þú ferð að tala við sjálfan þig í hljóði til að 'heyra' hvernig athugasemdin myndi hljóma) þá þarftu að koma henni í orð. Og þá er hún hugsun.

    Finnst mér.

    Eða hvað er fólk annars að gera þegar það segist vera að hugsa? Þetta er allt texti strákar, kommon.

    Sagði Blogger Björninn, kl. 1:02 e.h.  

  • Jújú, ég er sammála þessu með að ekki þurfi orð að koma nálægt hugsun fyrren hún er látin í ljós. Ekki verður maður hrifinn af stelpu í orðum, heldur í hughrifum. Vegna þess að hughrif eru án orða er svo erfitt að lýsa þeim með orðum. Þess vegna er erfitt að skrifa ljóð.
    En sjálfur var ég annars með hugann við dæmi úr bókinni 1984, þarsem menn í hugsanaráðuneytinu voru að stytta orðabók tungumálsins og búa til nýtt mál með útþynntum orðum einsog gott, ógott, tvíógott og tvíplúsógott. Söguhetjan vildi meina að með því að taka úr umferð viss orð sem væru til dæmis nauðsynleg til þess að tjá óánægju, yrði ómögulegt að tjá óánægju, og jafnvel að hugsa hana. Og er það mögulegt? Ég á við að er mögulegt að hugsa æðri, mjög óhlutbundna hugsun ef ekki eru til nein orð til þess að tákna hana?

    Sagði Blogger Palli, kl. 3:24 e.h.  

  • E.s.
    Ég á ekki við að „óánægja" sé æðri, mjög óhlutbundin hugsun.

    Sagði Blogger Palli, kl. 3:25 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða