Lesnir;

23.5.05

Saga

Ég þykist hafa greint vandann sem sagnfræðin glímir við á öllum tíma, en það er glíman við leikmennina.
Reynir manneskja ómenntuð í bifvélavirkjun að gera við bílinn sinn? Nei, nema viðkomandi hafi grúskað eitthvað í þeim fræðum sem hobbý (oft með misjöfnum árangri, en þó alls ekki alltaf). Sama má segja um söguna; pólitíkusar, trúarofstækismenn, almenningur o.s.frv. hafa (hvort sem það er til góðs eða ills) greiðan aðgang að sögunni (í hvaða formi og frá hvaða heimildum sem sú saga kann að vera sprottin úr). Þess vegna, eins og með bílana, vaða hinir ómenntuðu oft(1) í villu heimildafordóma, takmarkaðs aðgengis að téðum heimildum og kunnáttuleysis í aðferðafræði; og valda meiri skaða en fólk gerir sér grein fyrir.
Eða, eins og prófessor Árni Magnússon orðaði það:

Svo geingur þad til i heiminum, ad sumer hialpa erroribus á gáng, og adrer leitast sidan vid ad utrydia aptur þeim sömu erroribus. Hafa svo hvorir tveggiu nockud ad idia.(2)

Svo má aftur ræða um hvað er ,,rétt" menntun í sagnfræði.

Tilvísanir:
(1) Ég endurtek, alls ekki alltaf.
(2) Jón Helgason: Handritaspjall. Reykjavík 1958, mynd andspænis bls. 113. [AM 436 4to]

21.5.05

Byltingarhorfur með aðstoð rökvísinnar

Kæru lesendur.
Hvern hefði fyrir þrjátíu árum órað fyrir því að heimurinn ætti eftir að verða einsog hann er nú?
Hver gat séð fyrir atburði einsog endalok SÍS og samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi, upplausn Sovétríkjanna, tilkomu og útbreiðslu internetsins og aðra sambærilega hluti og atburði? Hluti og atburði sem vissulega hafa haft áhrif á tilveru okkar og heimsmynd, sem og raunveruleika mannkyns.
Hvert stefnum við? Og af hverju stjórnumst við?

Ég vil leyfa mér að slá því fram að við stjórnumst að stóru leyti af hugmyndum og hugmyndafræði. Til dæmis má benda á þá það að afar lítið fer nú fyrir samvinnuhyggju og kommúnisma á Íslandi. (Enda er það ekki einleikið í íslenzkum stjórnmálum hve líkir allir eru hverjum öðrum.) Þetta tel ég einfaldlega vera af þeirri ástæðu að þjóðfélagið er svo til ómeðvitað allt á nokkurnveginn sömu braut. Og þó að einhverjir séu kannski að muldra úti í horni, þá eru þeir ekki annað en einsog diskódansarar eða pönkarar gætu hafa verið á 5. áratugnum; á undan (eða þá á eftir) sinni samtíð.
En, hæ!, hvaða sannindi eru hér á ferð? Það er klárt: Í lok 5. áratugarins voru um 30 ár í að pönkið yrði þekkt. Þetta er óhagganleg staðreynd, þó svo að það sé einnig klárt að í lok 5. áratugarins var ekki vitað að, um 30 árum seinna yrði pönkið þekkt. (Ef til vill er þetta dæmi um pönkið og 5. áratuginn ekki gott; einhver gæti haldið því fram að pönkið hafi í raun verið þekkt á 5. áratuginum, og einhver hafi í raun spáð því að það ætti eftir að verða þekkt eftir 30 ár, en gjöriði svo vel, það má alveg eins taka pönkið og segja að það hafi ekki verið þekkt í lok 19. aldar, og dæmið stendur fyrir sínu. Og vei þeim sem ætlar sér að halda því fram að á pönkið hafi verið minnst í einhverjum nýrómantískum berklabókmenntum um menn sem drukku te með lonníettum um leið og þeir skutu úr geislabyssum á kvöldin.)
Þetta dæmi sýnir auðveldlega fram á, að með réttu má spá því að eitthvað gerist eftir nokkra áratugi.
Gagngerar byltingar á sviði stjórnmála og þjóðskipulags eru stórvægar. Með þeim reynir fólk á eigin skinni hugmyndir. Nýtt þjóðskipulag getur af sér annað hugarfar, sem getur þá orðið ríkjandi straumur.
Og að þessu öllu undansögðu, þá er ekki úr vegi að spá byltingu á næstu árum eða áratugum. A.m.k. verður búið að gera byltingu fyrir árið 2045. Enn um sinn er þó ekki víst hvar bylting verður, og hvaða hugmyndafræði liggur að baki henni, og ekki heldur hversu margar byltingarnar verða. Mest spennandi finnst mér að sjá hvaða hugmyndir verða grundvöllurinn.
Einsog áður hefur verið bent á (hér á Lesnum: Hömlur mannshugans des. 2004 og Ný hugsun, enn nýrri hugmyndir nóv. 2004) er í raun allt hugsanlegt og óhugsanlegt mögulegt, í þessum efnum einsog mörgu öðru.
Ég er alls ekki að hvetja til neins. Við skulum láta Bjössa rak vera, ætli ég fari ekki hvort sem er í klippingu þangað í sumar. En mestar líkur eru á byltingu á þeim stöðum þar sem óánægja er mikil og víðtæk, og ólíklegt er að úr því verði bætt með öðrum leiðum. (Ef allir eru ánægðir er engin ástæða fyrir neinn að gera byltingu.) Í fljótu bragði eru slík teikn núna á lofti í Kína; á vissum svæðum í öllum nýja heiminum nema Kanada og Kúbu; Rússlandi; Mið-Asíu; Vestfjörðum, Suður- og Austur-Þýzkalandi; í Slóvakíu og á Kyrrahafseyjum fjær, svo að dæmi séu tekin.
Því er svo alls ekki hægt að neita því að vel hugsanlega getur orðið bylting í löndum, sem nú um stundir sýnast harla ólíkleg til þess, t.a.m. á Íslandi. Í þessu sambandi vil ég biðja menn að hugleiða þátt Framsóknarflokksins í að halda íslenzku samfélagi, einsog það er nú, saman.
Það er því óþarfi að kippa sér upp við staðreyndir; bylting verður, það er ekki spurning hvort, heldur hvenær og hvar. Nú þegar hrannast merkin upp, gamlar konur grýta lögreglumenn í Kína, og menn hafa lýst því yfir að eftir appelsínubyltinguna í Úkranínu, rósabyltinguna í Grúsíu og túlípanabyltinguna í Kirgisistan þá verði ekki meira um neina fleiri ávexti að ræða - næsta bylting geti aðeins orðið rauð.

Kæru lesendur, við getum ekki sagt einsog franska slektið að byltingin komi eftir okkar dag. Hér hefur einmitt verið sýnt fram á að byltingin komi á okkar dögum, svo framarlega sem við deyjum ekki áður. En það er líka langt til Vestfjarða. Sérstaklega úr Flóanum.

Palli