Um það, hvað er ljóð, og hvað ekki
Hvernig er hægt að komast að og útskýra eðli ljóða, eða einsog sumir vilja hafa við, ljóðsins?
Það væri hægt að skoða uppruna ljóða hjá mannkyni til þess að útskýra eðli þeirra. Það væri líka hægt að skoða áhrif þeirra á fólk þegar það les þau. Eða draga mörk þess hvað telst ljóð. Og í þessum pistli hyggst ég einmitt leitast við að reifa skilgreiningar, skoða gagnsemi þeirra, og einsog berja í nokkra tunnubotna.
Eða er spurningin: Skiptir máli, og þá hvaða, hvað ljóð er? – kannski mikilvægari?
Í íslenzkri orðabók er sagt að ljóð sé „ljóðrænn texti þar sem hrynjandi og myndmáli er meðal annars beitt markvisst, stuðlar eru áberandi og rím er oft notað, er annaðhvort háttbundinn, þar sem skipan þessara og fleiri atriða fer eftir föstum reglum, eða frjáls, án slíkra reglna […].”
Hér má draga saman, að eina atriðið í skilgreiningunni á ljóði samkvæmt orðabókinni, sem ekki er bundið skilyrðinu getur verið, er þessi: ljóðrænn texti. En er þá ljóðrænn texti, þar sem hrynjandi og myndmáli er beitt, ljóð? Nei, það held ég að sé nokkuð langt seilzt.
Er hægt að nota svipaða meðferð við hugtakið ljóð? – Nei, vegna þess að tónlist og ljóð eru ekki á sama stigi. Ljóð eru deild bókmennta, og geta því skarast við aðrar deildir, tónlist er hinsvegar ekki deild í neinu, heldur einsog bókmenntirnar sjálfar, yfirdeild. Þar fyrir utan er ótækt að gera ráð fyrir að hugtakið ljóð hafi eins innri byggingu og hugtakið tónlist.
Hafi maður tileinkað sér hugtakið ljóð og noti það samkvæmt beztu samvizku, er líklega óhætt fyrir hann að ganga á röðina og segja: Þetta er ljóð, þetta er ekki ljóð. Þessvegna er bezt að hengja sig ekki um of í skilgreiningar, og allra síst að draga erlenda orðræðu inn í málið.
Enginn slítur þau bönd,
--------sem hann er bundinn heimahögum sínum. Móðir
--------þín fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í
--------heiminn, en þorpið fer með þér alla leið.
---------------------------------[Úr Ég er svona stór eftir Jón úr Vör]Mörg fleiri dæmi mætti tilfæra, sem sýna að hugsun býr að baki „kvæðanna”, og frásögnin víða meitluð og nákvæm. En hvers vegna vill höf[undur] kalla þetta l j ó ð, fremur en sögur, brot, þætti eða eitthvað þess háttar?
Er hér ekki verið að hafa hausavíxl á hugtökunum, að ástæðulausu?(Úr ritdómi Rósbergs G. Snædal um ljóðabók Jóns úr Vör, Þorpið. Í tímaritinu Stíganda, 1946.)
Hér má einnig nefna til sögunnar nýlundu á borð við svokölluð fundin ljóð, ljóð samin af tölvum, orðarugl uppúr blaðafréttum, gatnakortaljóð og þessháttar. (Jón Örn Arnarson hefur kynnt mig fyrir þessu öllu. Kann ég honum þökk fyrir. PS) Þarf að búa til nýja listgrein undir hvert nýtt fyrirbæri, ef það rúmast ekki innan þeirra eldri? Og hvað má segja um þessi listform – ljóð eða ekki? Það held ég að skáldin verði að gera upp við sig sjálf. Og þau hafa fullan rétt til þess.
Hér hafa verið týndar til tvær tilraunir til skilgreiningar á ljóði, og bent á annmarka þeirra. Einnig voru hér færð til nokkur dæmi og tvær litlar sögur til þess að varpa betra ljósi á vangavelturnar. Þannig finnst mér allt búið undir lokaniðurstöðuna, sem er þessi: Skilgreining á því hvað sé ljóð og hvað ekki, á varla rétt á sér í vitrænni umræðu. Enda hafa skáldin sjálf ein rétt til þess að ákveða fyrir sig sjálf hvort þeirra verk séu ljóð eða ekki.
8 skilaboð:
Geta hagyrðingar ort ljóð? Er munur á íþrótt þeirra og skáldskap eða ljóðlist?
Sagði Gunnar, kl. 3:32 e.h.
Þetta þarf að rannsaka.
Sagði Palli, kl. 10:16 f.h.
Sé það skáldanna að ákveða hvort afurð þeirra er ljóð, hver er þá „réttarstaða“ viðtakandans? Og hvort áttu hér við skáldið í holdinu eða skáldið í verkinu? Ef skáldið í holdinu skiptir um skoðun síðar á lífsleiðinni, hættir afurðin þá að vera ljóð?
Sagði Heimir Freyr, kl. 11:24 f.h.
(Eða er þetta barnalegur útúrsnúningur?)
Sagði Heimir Freyr, kl. 11:24 f.h.
Neinei, þetta eru engir útúrsnúningar Heimir, - það þarf að rannsaka þetta gaumæfilega, og hvað er betur til þess fallið en þungvægar spurningar settar fram af þeim sem þekkir til.
Tja, en hvað ég á við, skáldið í verkinu eða í holdinu - eg er nú bara of lítt bóklega menntaður til þess að átta mig á því. En hvað er það, skáldið í verkinu, og skáldið í holdinu?
Sagði Palli, kl. 4:09 e.h.
Nú vonaðist ég náttúrulega til þess að einhver bókmennafræðispekúlant tæki til máls. Áreiðanlega er mikil einföldun að tala hér aðeins um tvö skáld: skáldið í verkinu og skáldið í holdinu, og nú er mér gleymt hvort hið innbyggða skáld og hinn innbyggði lesandi er annað en skáldið í verkinu og lesandinn í verkinu (starfar heilinn ekki dásamlega!). Burtséð frá þessum hugtökum, verður (vildi einhver segja) að gera greinarmun á a.m.k. þessu tvennu. Við skulum bara til hægðarauka kalla annað skáldið blóðskáld en hitt, það sem birtist á pappírnum, trefjaskáld — blóðskáld mætti fyrir mér allt eins kalla vefjaskáld, það er ljóðrænna á öðru sviði, rímar. Blóðskáldið situr og stritar, svitaperlur myndast á enni þess og það hnerrar yfir pappírinn, þó, vel að merkja, ekki yfir trefjaskáldið. Trefjaskáldið er skáldið (sjálft? þarf ekki að vera) eins og það birtist í afurð blóðskáldsins. Nú sagði ég t.d. um þýðingu eins okkar að ég fyndi fyrir aukinni „ágengni ljóðmælanda“ í verkinu. Á ég þá við ágengni okkar ágæta Gunnars (eigin persóna), eða á ég við ágengni hans sem skálds (blóðskáld), eða hins innbyggða skálds, trefjaskáldsins? Trefjaskáldið situr þrykkt á pappír og er (nærri því) óumbreytanlegt. Það getur haft ákveðna skoðun (sem birtist í verkinu) sem er gerólík skoðun blóðskáldsins, sem aftur getur verið önnur en skoðun Gunnars, nema hann og skáldið séu eitt, sem má vel vera. En trefjaskáldið er álíka og persónur í frásögn, hluti af verki, byggt inn í það, og getur verið mikið ólíkt skáldinu / Gunnari (ég forðast vitanlega orðið „höfundur“ (og þarmeð orðið „skáld“), eins og gefur að skilja).
En semsagt ef blóðskáldið segir: þetta er ljóð! er þetta þá ljóð, af því að blóðskáldinu finnst það?
Eins, ef trefjaskáldið segir: þetta er ljóð! en þar sem við kannski þekkjum blóðskáldið, vitum við að hann gerir að gamni sínu; er þetta þá ljóð?
Eins mætti velta fyrir sér muninum á hinum innbyggða lesanda, það er þeim lesanda sem blóðskáldið og/eða trefjaskáldið hefur hannað verkið, sem les verkið á þann hátt sem (a.m.k.) trefjaskáldið gerir ráð fyrir, — hefur hann eitthvað um þetta að segja? — og þeim síbreytilega blóðlesanda sem þessvegna hefur skiptar skoðanir.
En ef við svörum öllum þessum spurningum játandi, þá er ljóð allt og ekki neitt, og öfugt. En það er kannski bara atvinnuskapandi?
Sagði Heimir Freyr, kl. 10:22 f.h.
Þennan orðavaðal Heimis van Hekkenfeldt má sjóða niður, svo:
Einn (skáld?) yrkir. Annar les, og (mis)skilur.
Úr (mis)skilningum má svo malla mikinn graut, og kalla fræði, finnist nógu stór já-kór pseudofræðimanna til þess.
Sagði Gunnar, kl. 2:54 e.h.
Sannlega! Ég þakka, ég þakka.
Sagði Heimir Freyr, kl. 4:04 e.h.
Skrifa ummæli
<< Forsíða