Lesnir;

5.8.09

Listin að skrifa, í krepputíð

Það er viss dilemma sem sækir á málfróðan í efnahagskreppunni. Á tímum sem þessum er leitað leiða til hagræðingar, þ.e. í ríkara mæli en venjulega. Ef skera á niður í kennslu og fjölga í bekkjum í barnaskólum hlýtur einnig að vakna sú spurning hvað skiptir máli að kennt sé í þessum sömu skornu (skertu) skólum.

Réttritun.

Stafsetningarreglur er sennilega sú pólitík sem málfræðingar heillast hvað mest að, svona að upplagi. Réttritunarreglur eru, eins og í mörgum öðrum löndum, bundnar í lög á Íslandi og þeim ber að fylgja í ritum sem tengjast beint hinu opinbera, þar með í menntastofnunum. (Þetta eru sérstök lög, því að þeim fylgir fólk út í ytstu æsar, þó að þeim beri alls engin skylda til þess.)

Tilefni þessa pistils er boðaður niðurskurður og sú einkennilega mikla vigt sem lögð er á að kenna íslenskar réttritunarreglur. Reglunum um stafsetningu íslensks máls mætti líkja við (eitt sinn) snoturt hús, sem með tímanum sést varla í fyrir ljótum viðbyggingum; nýbyggingar svipta fyrrum fagra götumynd sjarma sínum.

Hvað er ljótt við þessar reglur? Jú, í reglum um stafsetningu er eðlilegt að sé eitthvert innra samræmi, einhver ákveðin stefna. Því er ekki til að dreifa í núgildandi reglum; verið er að sólunda dýrmætum tíma í kennslu í að kenna einkennilegar undantekningar, sem hvorki eiga sér stoð í fortíð né nútíð. Þarna togast á framburðarreglur og upprunareglur, en núgildandi reglur eru eins og bland í poka; jafnvel mætti líkja þeim við fastmótaðar reglur, sem aftur hefur verið umturnað í átt til einhvers konar anarkisma, sem aftur er festur í óskiljanlegar reglur sem ekki eru í neinum tengslum við raunveruleikann.

-- Hvers vegna er kennt að skrifað skuli slappst (þú slappst) þegar sagt er slafst?

Samt er skrifað hist (þau hafa hist), vegna þess að sagt er hist, þrátt fyrir að þetta sé dregið af sögninni hitta (með /tt/), rétt eins og sleppa (með /pp/).

-- Hvers vegna er skrifað enskur og íraskur eins og sagt er, en ekki engskur og írakskur, sbr. slappst að ofan.

Samt er skrifað kembdur (hann var kembdur), sbr. kemba (með /mb/), þó að sagt sé kemdur.

Hvað var átt við með því að reglurnar hefðu eitt sinn verið snoturt hús, við fallega götu? Jú, tvennt. Annars vegar ástandið fyrir lagasetningu um stafsetningarreglur, þegar menn skrifuðu (að einhverju leyti) eins og þeim sýndist. Hins vegar reglurnar þegar upprunareglan var ofan á (1937) og tala mátti um hana sem rauðan þráð. Ganga hefði mátt lengra í þessa átt með breytingunum 1974 og 1977, en þess í stað var undantekningum fjölgað og reglurnar gerðar fullkomlega órökréttar.

Hvort er nú betra, að halda áfram að kenna þessar ónýtu reglur, eða hvetja --- enn einu sinni --- til umræðna á alþingi um að samdar verði rökréttar, heilsteyptar reglur um stafsetningu, til þess að hægt sé að verja tíma og orku í annað í skólum en að kenna börnum um duttlunga málfræðinga, sem mæ(tt)st hafa einhvers staðar á miðri leið, með það fyrirheit að vissulega þurfi að ganga lengra. En í hvaða átt?

Þeir sem sömdu reglurnar hafa oft sagt: í átt til framburðar. Það er eitt viðhorf. En fyrir alla muni, ef reglur, þá samræmi. Svar nefndarmanna við þessu voru hins vegar, merkilegt nokk: þeim sem hugnast ekki reglurnar, einfalt, þið þurfið ekki að fylgja þeim!

Meira að segja er innbyggt í reglur um greinarmerkjasetningu (ákvæði sem kennarar minnast aldrei á við nemendur sína) að heimilt sé að víkja frá reglunum í listrænum tilgangi.

Spurningin er þá ekki hvort þið eruð menn eða mýs, heldur, eruð þið listamenn eða ófrumlegar lyddur, sem ekki þora!