Lesnir;

25.11.10

Á gangi í ársfjórðung

Haust: safaríkt og gult. Fyrir framan gluggann á herberginu okkar er heimreiðin með runnum og illgresi. Það minnti helst á dvergvaxinn hitabeltisskóg. Allar götur og stræti voru blautar og skítugar, líka á malbikinu. Trén stóðu sumpart ennþá með laufum; hvítar bjarkir með gulum og grænum blöðum; sum reynitrén klæddust blóðmöttum haddi, önnur voru eld-gul, hin gul og örfá með allt laufið fokið burt.
Dag nokkurn gekk ég eftir Rósu Ljuksemburg-stræti. Það var ánægjulegt að labba á trébrúnum, sem eru til þess að ganga á meðfram götunum. Sumstaðar voru plankarnir harðir og traustir á milli stöplanna, annarsstaðar dúaði undan fæti, og kvenfólkið arkaði með svip, sem gaf til kynna að þeim bæri stöðugri hluti brúarinnar. Allstaðar kom uppúr jörðinni lyktin sem mér líkar svo vel - lykt af ferskum fúa og myglu, einsog kemur oft eftir langar rigningar og svalt veður.
Þá sá ég líka skjó uppi í birkitrjánum; hann klúkkaði eitthvað með hásri rödd og flaug tré úr tré. Skjórinn lyfti sér fagurlega upp í krónuna, í hægum þokkafullum sveig, einsog hann væri með þungt stél líkt og raunverulegur páfugl. Ákaflega glæsilegur fugl, finnst mér. Þann dag var ég í einkar góðu skapi.
- - -
Í september voru inntökupróf í framhaldsnámið. Það hafði svosem enginn sagt að þau yrðu erfið, en samt töldu allir að það væri betra að vera vel undirbúinn. Annað prófið af þremur var heimspeki.
Sæmilega lærði ég, aðallega með því að lesa útprentaða svindlmiða. Prófið var kl. 12 í stórri kennslustofu sem hækkar um eitt þrep uppaf hverri sætaröð.
Nú, ég gekk inn og úlpu, kennslubækur og útprentuðu hjálparmiðana lét ég á hnitmiðaðan hátt á auðan stól fyrir neðan innganginn, og settist sjálfur í autt sæti fremst þar fyrir ofan, svo að hver sem vildi gæti séð að ég svindla ekki. Ég var í fallegri rauðri skyrtu, með góðan penna mér í hönd, og óttaðist ekki neitt. Snéri mér við og kastaði kveðju á árgangssystur mínar úr skógfræðinni, sem sátu þarna aðeins aftar.
Síðan hófst útdeiling prófmiða. Ég dró miða með tveimur spurningum; um tilurð og forsendur marxisma; og um kategoríurnar form og innihald. Ég sat og samdi gáfuleg svör; tíndi allt til sem ég vissi um þessa hluti og reyndi að gera úr því heildrænt og skiljanlegt mál. Fyrir aftan mig hvissaði í hjálparmiðum, hvískri og bókaflettingum. Ein kona sat og fylgdist með að enginn svindlaði; hún réði krossgátu með báðum augum á meðan.
Eftir klukkustund var komið að því að svara; fjórir kennarar komu inn og settust hver á sinn stað, og stúdentarnir gengu til þeirra eftir því sem verkaðist. Alls voru kannski um 50-60 manns í prófinu, og eftir að um það bil helmingurinn hafði svarað og gengið út, var mér farin að leiðast biðin. Þá losnaði sá kennaranna sem mér þótti fýsilegast að svara, og ég stóð upp með svarblöðin mín. Nema hvað, stökk þá ekki einhver hindin sem hafði hugsað það sama og ég, og varð fyrri til. Nú, en þar sat enn sjálfur skorarformaðurinn, doktor prófessor Kolosov, með arnarnef og ólundarsvip sem fór ágætlega saman við það.
Ég fór til hans og hóf lesturinn. Minntist á díalektík Hegels, orð Engels um materíalisma Feuerbachs, og tókst svo að koma því að, að Marx væri á Vesturlöndum varla talinn heimspekingur, heldur í mesta lagi klár félagsfræðingur. Alltaf þyngdist arnarnefið á prófessornum - ég frétti seinna að hann hefði á sovétárunum verið aðalritari héraðsstjórnar kommúnistaflokksins. Nú, ég lét móðan mása, og hann kinkaði ekki hið minnsta kolli, heldur bara ranghvolfdi augunum. Þá vildi hann næst heyra um form og innihald.
Ekki get ég sagt að ég hafi skilið hvað felst í þessum sk. kategoríum. Það eina sem ég vissi, var að form gæti ekki verið án innihalds, og innihald ekki án forms. Form væri í innihaldi, og á yfirguðlegan hátt, þá væri innihald líka í formi. Og svo framvegis.
Að lokum setti hann upp líkneskis-svip, og spurði:
- Hvað er innihald?
- Innihald? Uh, nú, innihald er fyrirbæri ...
- Fyrirbæri? Það er ekki fyrirbæri. Fyrirbæri er a l l t annað!
Og fór síðan í aðra sálma:
- Gætirðu sagt mér eitthvað meira um tilurð marxisma?
Ég nefndi Saint-Simon, en Kolosov skar á þann þráð:
- Jájá, hann kemur nú málinu ekki við: ég er að spyrja hér um sögulega nauðsyn tilurðar marxisma.

Á þessum augnablikum fannst mér einsog það væri raunveruleg hætta á að ég yrði felldur þarna, á þessari stund. Felldur af gömlum marxista með vax í hárinu. Á glæsilegan hátt hefði þarmeð verið sett þungt pottlok yfir stórkostleg námsafrek mín á næstu misserum.
Þvínæst fnæsti prófessorinn, muldraði eitthvað og skrifaði «viðunandi» við nafnið mitt. Ég þakkaði fyrir mig og gekk út.

Allt gott tekur einhverntíman enda, en þessi pistill heldur áfram: Nú er haustið liðið, og orðið kalt á morgnana. Fyrir utan gluggann í framhaldsnemaherberginu er háskólagarðurinn og sjálf aðalgatan við ána. Skipin Kafteinn Evdokimov og Dikson liggja við bakkann. Dvína er breið og full af ís sem er við það að leggja. Hinumegin, á Vesturbakkanum, standa hafnarkranarnir og verksmiðjuturnarnir. Í björtu veðri sést langt, yfir lága hálsa með endalausum skógi, rafmagnsmöstur og rákótt ský. Sólaruppkoman er falleg. Líka sólsetrið, ef manni dvelst fram yfir kaffitíma. Þá blika borgarljósin í góðu veðri.

20.6.10

Ís í hádeginu. Bjór á kvöldin

Allt er eins. Vorið kom og sólin skein fyrir utan stutta nóttina.
Hið besta sem hægt var að gera þegar kvöldið er dimmt og skýjin liggja lágt, var að taka sér kvöldgöngu að götusjoppunni og fá sér lítinn bjór á leiðinni heim. Það er svo ... náttúrulegt.
Þegar strætisljósin skinu með gulrauðum ljósum í skýjunum, hugsaði ég um það hve gott væri ef öspin væri þegar laufguð. Þá var hún ennþá nakin. En ég var hræddur um, að seinna, eftir að öspin laufgaðist, yrði orðið of bjart til að finna fyrir ljóðrænunni. Það gerðist einmitt þannig. Svo er heldur ekki leyft að fara út af heimavistinni eftir kl. 12 á miðnætti.
— Veturinn leið allur. Varla hafði nokkur maður komið út í skóg síðan í fyrrasumar. Fyrir utan auðvitað þá fiskiglöðu. Ég eyddi tímanum í skólamatsalnum, og hugsað um búrekstur og stelpur og tók þátt í mali um allt og ekki neitt með bekkjarsystkinum mínum.
Í matsalnum vinnur líka Olga. Hún er með rautt litað hár að öxlum, sviphrein og með bráðföla húð einsog hitasóttarsjúklingur. Þegar hún lætur fram þorsk á diskinn er hún til augnanna einsog Jónas frá Hriflu, en það vottar fyrir brosi í munnvikunum.

Í maí gekk á með þrumuveðri. Fyrst dökknar allt af skýjum, svo hefjast eldingar hingað og þangað um himininn. Ef þær eru nógu nálægt og þrumurnar nógu háværar, vakna oft margar bílþjófavarnir í einu. Eftir svona hálftíma-klukkutíma byrjar himinninn að lýsast, einsog birtan af eldingunum sitji eftir í skýjunum. Það er nú samt bara skynvilla, því að skýjin sjálf hafa losnað við þrumusortann og fá á sig aftur sinn venjulega lit.

Lúðrasveitin spilaði fyrir dansi einn daginn. Kannski var fullt tungl, en eftir fyrra hlé báru tveir hljóðfæraleikarar að nóturnar dönsuðu á línunum fyrir sér. Ég heyrði á tal annars þeirra við stjórnandann:
„Nú, þú skilur Volodja, ég bara sé ekki neitt hvað ég er að spila...”
„ — það getur komið fyrir” svaraði Volodja.
Síðan fóru þeir drukknu upp í herbergi að reykja, og pældu mikið í því hvernig þeir kæmust heim til sín.

Fyrir nokkru brotnaði lágt skarð í bollann minn. Það er fátt heimilislegra en að drekka molakaffi úr skörðóttum bolla. Verst að skarðið er með sprungu í aðra áttina, og ég óttaðist að yfirvaraskeggið gæti fest sig í bollanum. Þannig að ég rakaði það af, og drakk síðan kaffi áhyggjulaus með fæturna uppi í gluggakistunni.

26.2.10

Í dag er afmæli. Horft um öxl

Inngangur:
Þessar hugleiðingar skrifaði ég fyrir nokkru; byrjaði liggjandi í rúminu á gistiheimili við Kaznaceiskaja-götu, og hélt áfram með tveimur kaffibollum á kaffihúsi við Nevskij-breiðstræti.
- Það fór ekki svo að ég mætti 28. janúar í Arkangelsk. Þetta varð fyrsti dagurinn af þremur í Sankti-Pétursborg, en þangað bauðst ég til að fara með nauðsynlega pappíra viðvíkjandi því hvort ég, og í leiðinni tveir Perúmenn, hefðum áreiðanlega löggilt stúdentspróf. Og gerði úr því örlitla menningar- og skemmtiferð, svona til upplyftingar þegar dagarnir eru sem grábotnóttastir hérna fyrir norðan.
- - -
Kæru lesendur. Kæru vinir.
Í dag eru slétt fimm ár síðan ég kom til Arkangelsk.
Gísli Súrsson var skógarmaður á Vestfjörðum í fjórtán ár. Halldór Laxness bjó með munkum í Lúxemborg og Lundúnum í tæp tvö ár; Jónas frá Hriflu kynntist deiglu samvinnuhreyfingar og framsækins skólastarfs við fjögurra ára námsdvöl sína víða í Evrópu. Og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson var lengi í Kaupmannahöfn og dó þar að lokum.

Það má nú bæta því við hér að framan, að ég kom til Arkangelsk í febrúar 2003. Það var með skiptinemasamtökunum. Við vorum þar í fjóra daga að mig minnir. Síðan þá man ég sæmilega eftir miðbænum.
En 28. janúar 2005 hafði ég frá því um morguninn verið á ferðinni frá Keflavík. Um kvöldið kom ég, þrútinn í framann af þorsta, svefnleysi og flugvallaþreytu. Það er á mörkunum að hægt sé að komast með góðu móti frá Íslandi til Arkangelsk á einum degi.
Það var grimmdarfrost á flugvellinum og blés töluvert. Flugvélin stóð á vellinum og farþegarnir gengu niður landtröppurnar. Það var kominn bíll, gamall trukkur með aftanávagn. Hann var orðinn fullur þegar við, um það bil seinustu 20 farþegarnir, vorum komnir niður á jörð. Hann ók í burtu.
Við stóðum í fjúki og kulda, sérstaklega var mér kalt, enda þreyttur og lítt klæddur. Ég hafði ekki hugsað út í það, að landgangurinn er beint út á götu í Arkangelsk.
Það mun hafa verið 10 gráðu frost, snjókoma og sunnan gola. Það hljómar nú kannski ekki svo ógurlega, en í minningunni var veðrið hræðilegt, og í ritgerðarkorni einu tókst mér síðar að skrifa að «vindurinn hafi blásið dýrslega». Fjúkið var þó þannig að það sást ekki glögglega sjálf flugstöðin.
Eftir drjúga stund, þegar hópurinn hafði staðið og beðið eftir því að bíllinn kæmi aftur og ferjaði okkur yfir völlinn, lögðu nokkrir af stað fótgangandi, og í framhaldi af því allur hópurinn. Það var um 100 metra gangur að útgönguhliðinu.
Við hliðið biðu mín Kalínín og Komarova. Kalínín þessi var yfirmaður útlendingadeildar háskólans, og titlaði sig deildarforseta. Hámenntaður, með doktorspróf í fíknilyfjafræði (narkologia), en hélst ekki lengur í starfinu en til vors; gufaði upp og hefur síðan þá dúkkað upp hér og þar. Á Komarovu þekkti ég engin deili, en seinna vissi ég að hún er aðstoðarrektor, sem fer meðal annars með mál erlendra nema.
Við fórum inn í flugstöðina og náðum í farangur minn, og tókum svo leigubíl inn í borgina. Vegurinn þangað liggur yfir nokkrar brýr, skurði og runnamýri. Ég veit ekki hvað þetta var löng leið, og áttaði mig engan veginn á stefnunni, en eftir þetta hef ég farið þessa braut all-oft.

Kalínín kom með mér uppá heimavist og sýndi mér herbergið. Þar bjuggu fyrir tveir innfæddir hagfræðinemar, sem tóku mér ágætlega. Ég kom töskunum fyrir meira og minna, og lagðist svo til svefns.
Morguninn eftir beið ég á vissum tíma samkvæmt samkomulagi niðri á tröppunum eftir dóttur Kalíníns, skólastelpu á að giska 16 ára. Ásamt vinkonu sinni sýndi hún mér gegnum borgina. Þetta var vel boðið, því að ég bjó ekki að því að verða sýndur staðurinn af löndum mínum, sem væru hér kunnugir.
Þaðan komst ég einn með strætisvagni aftur upp á heimavistina. Seinna um daginn gekk ég á símstöðina, sem ég vissi frá fornu fari hvar var, og hringdi heim. Mér sýndist óráð að eyða meiru en fimm mínútum í símkostnað; óskaplegra símtal hef ég varla átt. Mamma sagði mér að amma hefði sagt, að ég vissi ekkert útí hvað ég væri að fara. Sem er kannski rétt.
En þó að það hafi kannski verið rennt blint í laugina þá, þá finnst mér núna einsog ég damli sæmilega í sjónum. Kannski var þetta fyrsta hálfa ár einn ríflegasti tími sem ég hef átt; lærði margt nýtt, var óhræddur við flest, tók stórum framförum í tungumáli og lét mér fátt brenna fyrir brjósti. Og veturnir á eftir í mörgu tilliti ekki síðri.
Vefsíða þessu hefur verið mér kær þennan tíma. Það er gott að eiga akkeri og vettfang til að birta það sem maður telur að eigi ef til vill eitthvað erindi.

Frá því um vorið 2005 og veturna þrjá á eftir því fór ég nokkrum sinnum í viku með strætisvagni á lúðrasveitaræfingar. Þá gat ég stigið niður úr hversdagsleikanum og staðið í bílnum þegar það var dimmt úti; á vorin séð hvernig ísinn flosnaði í ánni eða setið sveittur og horft á sumarumferðina. Stundum voru svo mikil þrengsli að miðavörðurinn varð að stíga útúr dyrunum til þess að fólk kæmist inn á stoppistöðvunum, stundum var bíllinn tómur og ég gat lagt handlegginn eftir báðum stólbökunum. Þá hugsaði ég margt.

17.1.10

„Of flóknir valkostir“

„Fullorðinsárin sem læsa deyfíngarkló í hjartvöðva mannsins, þau standa mér fyrir sjónum sem örlögþrúngnust háðúng. Þá væri sælla að deya en eiga fyrir sér að setjast á bekk með þeim sem rimpa saman fúagloppurnar í þjóðfélaginu og brýna fyrir kotúngnum að sjóða kartöflurnar sínar í moðkassa.
Góðir hálsar! skrifa ég þegar ég er orðinn fullorðinn; vér verðum allir að spara, og alt verður að spara! Lausnin á vandamálum mannkynsins er moðsuða, moðsuða, moðsuða!“
Vefarinn mikli frá Kasmír, eftir Halldór Laxness. 42. kafli

Stundum þegar ég les ljóð eða kvæði, mikilvægan kafla skáldsögu eða listilega skrifaða grein, geri ég mér í hugarlund að höfundurinn hafi setið lengi og velt hverri setningu fyrir sér. Að hvert orð sé vandlega valið og að merkingin sé nákvæmlega sú sem höfundurinn vill að hún sé.
Á sama hátt bera mikilsverðir textar það oft með sér, að í þeim stendur eitthvað sem vert er að taka mark á. Eða í það minnsta að vega það fyrir sjálfum sér, hvað stendur í þeim.
En hversu mikið er nú ekki til af pistlum sem varla er lesandi, eða munnlegum umsögnum sem fátt skilja eftir? Líkt og hópar þeirra sem láta sig málin varða hafi opnað golupokana, og standi nú á hlaðinu og sói vindorkunni út í buskann. Greinahöfundar, pistlagerðarmenn og álitsgjafar taka oft skakkan pól í hæðina; andmæla ummælum eða skoðunum meintra andstæðinga sinna sem þeir afflytja um leið, broga, teygja út, eða virðast hreinlega hafa farið á mis við inntakið. Það er svosem kannski ekki við þá eina að sakast. En svona gengur þetta koll af kolli einsog lúsafaraldur sem enginn veit hvaðan kom upphaflega.

Þróun mannkyns hefur leitt margt gott af sér. Og ég held að fólk hafi með tíð og tíma orðið æ klárara, upplýstara og kunni meira fyrir sér með hverri kynslóð. Það er svo verkefni okkar að þróa kunnátuna áfram. Um þetta snýst aukin menntun. Þekking okkar nær sífellt þrengra og dýpra, og jafnframt eykst yfirsýnin og heildarskilningurinn.
En það er ekki sjálfgefið! Oft kostar það yfirlegu og þaulhugsun að skilja það sem liggur fyrir. Tilveran er flókin, og hún verður alltaf flóknari með tímanum. Og það er verkefni okkar allra að halda í við þá þróun.

Það gengur ekki að leiða umræðu um flókin og margslungin mál með því að hrópa upp, kasta til höndum og trúa óljósri sannfæringu, og beita til þess öllum ráðum að sannfæra aðra.
Það þarf meiri aga í umræðuna. Betri köfun, meiri skerpu og umfram allt meira miskunnarleysi. Hörku gagnvart sjálfum sér, miskunnarleysi gagnvart röksemdafærslum og grimmd gagnvart upplýsingaleysi.
Ég vil miklu meiri grimmd.
Fávitar.

6.1.10

Ísbjörg

De Pers, bls. 3, 6-1-2010 (einnig hér)


Fyrirsögn myndar: Forseti Íslands vill ekki skila peningunum okkar.

Myndartexti: Og ef þeir munu sannarlega ekki borga ...


17.10.09

Þetta var haustið 2008

Það er yndislegt að uppgötva fyrir sér skáld.
Á steini við Dettifoss las ég brot úr kvæði eftir Kristján Fjallaskáld. Seinna lærðist mér að meta ljóð Jóhanns Sigurjónssonar.

Það var í fyrrasumar, á rigningareftirmiðdegi á Rangárvöllum, að ég ákvað að nenna ekki að vinna meira þann daginn. Tók saman tommustokkinn og snærið og henti því inn í bílinn og ók af stað niður að Gunnarsholti. Hlustaði á Víðsjá í útvarpinu. Sem ég brunaði niður Rangvellingabraut í ölduköstum um mela og sandhaga, lullaði þátturinn áfram. Fjallað var um komandi ljóðakvöld Nýhils fyrir menningarnótt. Svo las Kristín Eiríksdóttir upp.
Hún var útivið. Ljóðið var Leiðin.
Allt byrjaði þetta án þess að ég legði eyrun sérstaklega við. „Enn einhver Reykvíkingurinn að bulla“ – hugsaði ég. Og þó. Röddin gáfuleg en áreynslulítil. Stefið varð sterkara með hverju lagi. Loks var sem orðin ægðu saman í einn stóran flaum, í senn kraftmikinn og hægfara.
Hvaðan kom þetta? Hjartað sló hægar og blóðið gekk í takti um æðarnar. Ég ók, og andaði þungt og hægt, með opinn munninn án þess að taka eftir því.
Svo flaug flugvél yfir Reykjavíkurhöfn, svo að ekki heyrðist meira. Útvarpið lét það gott heita og snéri sér að öðru, enda bráðlega komið að sexfréttum.

Á menningarnótt fór ég á ljóðakvöld í þjóðleikhúskjallaranum ásamt tveimur vinum mínum sem ekki verða taldir neinir sérstakir nýljóðaunnendur. Við komum að vísu ekki fyrren eftir að upplesturinn var byrjaður. Þannig þurftum við að feta með rauðvínsglösin framhjá ljóðaliðinu sem sat og másaði í sætunum og horfði með áfergju á upplesarann. Svo settumst við í laus sæti aftarlega í dimmum salnum. Aldrei hafði ég áður komið á svoleiðis viðburð. Þar var þungt og tilkomumikið andrúmsloft. Á listilegan stökk kynninum ekki bros þó að í gestunum kraumaði hláturinn.
Atriðin voru, eins og gengur, mis eftirminnileg. Sjálfsagt fer það líka eftir hverjum og einum, hvað honum finnst. Þessvegna felli ég engan dóm um neitt.
Þá steig upp Kristín Eiríksdóttir.
Við sátum svo aftarlega í salnum, að eins hvefði hún getað verið að lesa upp í útvarpinu. En röddin og upplestrarfasið var hið sama.
Það var annað ljóð. Stóri hvíti maður. Það byrjaði grunnrist. Óræð böndin bárust að einhverju sem létu mig snöggvast halda að þetta væri and-karllægur róður; að hún væri að segja eitthvað það, sem svo oft áður hefur verið sagt. Þegar tók að líða á ljóðið sótti á önnur tilfinning. Endalausar myndir, óljósar og umlykjandi. Það var erfitt að festa hendur á. En það var gott.
Nokkru áður en ég hvar af landi þetta haust, kom ég eitt kvöld til vinar míns, manns sem telja má framsækinn í menningarmálum. Á meðan hann baukaði í tölvunni, leit ég yfir bókastaflann, og rak augun í Kristínu Eiríksdóttur. Bókina Húðlit auðnin. Myrkar teikningar og texti sem ég teigaði í mig sitjandi á rúmstokknum. Þar hafði ég það. Loksins hafði ég í særóti líðandi stundar fundið mitt skáld. Skáld af minni kynslóð. Mitt í allri Lesbókinni, ofmetna krúttskáldskapnum og sniðugheitunum. Laus við skáldadrýldni og falska hljóma. Kórall í sjó.
Það er satt, að yfirhöfuð botna ég ekkert í því hvert Kristín Eiríksdóttir er að fara í ljóðunum. Þau eru mér í raun gersamlega óskiljanleg. En ég hef líka alltaf haft óbeit á þeim, sem heimta túlkun og skilning á öllum hugverkum. Mætti ég fá að skyggnast í heilabúið þegar fólkið skoðar óhlutrænar myndir?

Í síðustu ferð minni í bókabúð fyrir brottför náði ég í Annars konar sælu. Kom með hana uppá heimavistina, en þorði ekki að opna hana fyrren ég var búinn að lesa mig óþyrstan af öðru.
Eftir fjórar vikur tók ég plastið varlega af og fletti. Las hvert ljóð með hléum.
Hversu glöð verðum við ekki þegar við höfum leitað að einhverju sem við höfum fengið af óljósan þef, en finnum svo aftur og getum sökkt vitunum í? Og orðið ekki fyrir vonbrigðum? Skáld, sem gerði mig fullkomlega sáttan við það, að ég hef sjálfur ekki ort neitt. Því að þetta er það sem ég vildi hafa sagt, og vildi heyra.

5.8.09

Listin að skrifa, í krepputíð

Það er viss dilemma sem sækir á málfróðan í efnahagskreppunni. Á tímum sem þessum er leitað leiða til hagræðingar, þ.e. í ríkara mæli en venjulega. Ef skera á niður í kennslu og fjölga í bekkjum í barnaskólum hlýtur einnig að vakna sú spurning hvað skiptir máli að kennt sé í þessum sömu skornu (skertu) skólum.

Réttritun.

Stafsetningarreglur er sennilega sú pólitík sem málfræðingar heillast hvað mest að, svona að upplagi. Réttritunarreglur eru, eins og í mörgum öðrum löndum, bundnar í lög á Íslandi og þeim ber að fylgja í ritum sem tengjast beint hinu opinbera, þar með í menntastofnunum. (Þetta eru sérstök lög, því að þeim fylgir fólk út í ytstu æsar, þó að þeim beri alls engin skylda til þess.)

Tilefni þessa pistils er boðaður niðurskurður og sú einkennilega mikla vigt sem lögð er á að kenna íslenskar réttritunarreglur. Reglunum um stafsetningu íslensks máls mætti líkja við (eitt sinn) snoturt hús, sem með tímanum sést varla í fyrir ljótum viðbyggingum; nýbyggingar svipta fyrrum fagra götumynd sjarma sínum.

Hvað er ljótt við þessar reglur? Jú, í reglum um stafsetningu er eðlilegt að sé eitthvert innra samræmi, einhver ákveðin stefna. Því er ekki til að dreifa í núgildandi reglum; verið er að sólunda dýrmætum tíma í kennslu í að kenna einkennilegar undantekningar, sem hvorki eiga sér stoð í fortíð né nútíð. Þarna togast á framburðarreglur og upprunareglur, en núgildandi reglur eru eins og bland í poka; jafnvel mætti líkja þeim við fastmótaðar reglur, sem aftur hefur verið umturnað í átt til einhvers konar anarkisma, sem aftur er festur í óskiljanlegar reglur sem ekki eru í neinum tengslum við raunveruleikann.

-- Hvers vegna er kennt að skrifað skuli slappst (þú slappst) þegar sagt er slafst?

Samt er skrifað hist (þau hafa hist), vegna þess að sagt er hist, þrátt fyrir að þetta sé dregið af sögninni hitta (með /tt/), rétt eins og sleppa (með /pp/).

-- Hvers vegna er skrifað enskur og íraskur eins og sagt er, en ekki engskur og írakskur, sbr. slappst að ofan.

Samt er skrifað kembdur (hann var kembdur), sbr. kemba (með /mb/), þó að sagt sé kemdur.

Hvað var átt við með því að reglurnar hefðu eitt sinn verið snoturt hús, við fallega götu? Jú, tvennt. Annars vegar ástandið fyrir lagasetningu um stafsetningarreglur, þegar menn skrifuðu (að einhverju leyti) eins og þeim sýndist. Hins vegar reglurnar þegar upprunareglan var ofan á (1937) og tala mátti um hana sem rauðan þráð. Ganga hefði mátt lengra í þessa átt með breytingunum 1974 og 1977, en þess í stað var undantekningum fjölgað og reglurnar gerðar fullkomlega órökréttar.

Hvort er nú betra, að halda áfram að kenna þessar ónýtu reglur, eða hvetja --- enn einu sinni --- til umræðna á alþingi um að samdar verði rökréttar, heilsteyptar reglur um stafsetningu, til þess að hægt sé að verja tíma og orku í annað í skólum en að kenna börnum um duttlunga málfræðinga, sem mæ(tt)st hafa einhvers staðar á miðri leið, með það fyrirheit að vissulega þurfi að ganga lengra. En í hvaða átt?

Þeir sem sömdu reglurnar hafa oft sagt: í átt til framburðar. Það er eitt viðhorf. En fyrir alla muni, ef reglur, þá samræmi. Svar nefndarmanna við þessu voru hins vegar, merkilegt nokk: þeim sem hugnast ekki reglurnar, einfalt, þið þurfið ekki að fylgja þeim!

Meira að segja er innbyggt í reglur um greinarmerkjasetningu (ákvæði sem kennarar minnast aldrei á við nemendur sína) að heimilt sé að víkja frá reglunum í listrænum tilgangi.

Spurningin er þá ekki hvort þið eruð menn eða mýs, heldur, eruð þið listamenn eða ófrumlegar lyddur, sem ekki þora!