Lesnir;

5.6.08

Einn pistill um stjórnmálaástandið í Rússlandi

- Jæja?
- Jæja og jæja.
- Iss, ég er nú orðinn leiður á þínum pólitísku bröndurum.

(Sovézk skrýtla)

Á síðasta misseri hafa farið fram tvennar kosningar hér í Rússlandi; í desember var kosið til þings, og í mars var kosinn nýr forseti. Fyrir rúmlega viku voru svo borgarstjórakosningar í Arkangelsk. Og þar eð Múrinn er hættur að koma út, þá langar mig að birta eina upplýsandi og gáfulega grein í anda Sverris Jakobssonar, skrifaða rétt einsog hann hefði alltaf búið í viðkomandi landi. Eða svona til mótvægis við bullið í öllum vesturbæjardagblöðunum.

Nógu kunnugur er ég líka pólitíkinni hér. Ég hef verið augliti til auglitis við marga ráðamenn; ég hef spilað í veizlu þar sem hélt skálarræðu Rušailo, fyrrverandi innanríkisráðherra; einn frambjóðenda til borgastjóra í kosningunum núna, A. Tútov, hefur sjúkranuddað á mér bakið, enda er hann baksjúkdómalæknir; ég hef tvisvar staðið í hópi með jólasveininum honum Artúri Čilingarovi, þingmanni og norðurpólsoflátungi*; auk þess eitt skipti gengið framhjá héraðsstjóranum Kíseljovi, sem var nýverið settur af fyrir ásókn í mútufé, en er nú þingmaður í efri deild.
Ég hef talað við fólk, lesið blöð og farið víða. Að vísu hef ég ekki komizt nær hinu mærða Kremlarvaldi en að hafa setið á MacDonalds rétt við Rauða torgið og drukkið brennivín. – Það er annars allt önnur saga.

En, kæru lesendur, hvað er í gangi?
Það er oft sagt á vesturlöndum að í Rússlandi sé veikt lýðræði. Sumt er það af Rússunum kallað skrök og skilningsleysi. En mitt álit er að lýðræði sé hér í amöbumynd. Flokkar fá ekki menn inn á þing nema ná 7% á landsvísu. Mörgum finnst það bæði mjög eðlilegt og nauðsynlegt að til sé „ráðandi flokkur” - svipaður og kommúnistaflokkurinn var. Enginn veit í raun hvaða stefnu stærsti flokkurinn (Sameinað Rússland) hefur. Jú, stefnan var birt fyrir síðustu kosningar, og heitir «Áætlun Pútíns». Flestir þingmenn eru líka í viðskiptum, og fóru kannski þessvegna inn á þing. Þá má einnig nefna þá miklu fjarlægð sem er á milli kjósenda og frambjóðenda.

Kosningar eru með furðulegasta móti. Enda kannski ekki við góðu að búast, þegar flestar kynslóðir kosningabærra manna eru aldar upp við eins flokks kerfi. Kona nokkur sagði frá því, þegar hún fór með mömmu sinni að kjósa, þá barn að aldri. Móðir hennar fékk kjörseðilinn í hendur, braut hann saman og gekk umsvifalaust að kjörkassanum og lét hann ofaní. Afhverju? spurði barnið. Jú – ef hún hefði farið inn í kjörklefann, hefðu menn haldið að hún væri að strika einhvern út. Það hefði ekki verið neitt gamanmál; leiðinda spurningar og erfiðleikar við að fá úthlutað ýmsu og fá gert sem hefði krafizt sérstakra leyfa og slíks, í þjóðfélagi þar sem vald kom að ofan og næstum allt fór fram í gegnum hið opinbera.
Þetta mun hafa verið á níunda áratugnum.
Sitthvað var rotið í Sovétríkjunum. Og margt af því hefur gengið aftur. Spilling og skrifræði ganga ljósum logum. Embættismannakerfið er líka nátengt stjórnmálunum. Margir embættismenn eru flokksbundnir - í sama flokknum. Verkalýðsfélögin eru máttlaus. Fólk sér þann einan hag af inngöngu í þau, að fá afslátt af sumarleyfisferðum og sumarbúðum fyrir börn. Af kjarasamningum hafa fáir heyrt.
Þar eð stjórnmálin eru einnig nátengd viðskiptalífinu, draga þau af því nokkurt dám. Enda einkennast hér bæði þessi svið af hörku og mannfyrirlitingu. Það eru til hverfi þar sem velflestir íbúarnir eru starfsmenn eins fyrirtækis. Það er auðvelt að segja sem svo, að verði ekki nægilega mörg atkvæði greidd vissum flokki í viðkomandi kjörsvæði, þá verði, tja – niðurskurður.**

Það er hefð fyrir því að skoða samfélagið og stjórnmálin útfrá þeim forseta sem sat við völd á hverjum tíma. Éltsíntíminn var tími upplausnar. Los var á flestu, bæði innan samfélagsins, í efnahagslífinu og aðskilnaðarhreyfingar tóku að brjótast um. Stjórnartíð Pútíns einkenndist af aukinni festu, talað er um að endurheimt hafi verið „landfræðilegt heildstæði”, þ.e. þegar gengið var á milli bols og höfuðs á skæruliðaflokkum í Téténíu. Miðstýring hefur aukist, og til hefur orðið svokallaður ríkiskapítalismi; ríkið á og rekur risafyrirtæki í alskyns atvinnugreinum, ýmist í samkeppni við einkafyrirtæki eða í einkeppni.***
Menn spurðu fyrst í stað, þegar nafn Medvédevs varð þekkt, hver þessi maður væri. Hann er kannski í raun rökrétt framhald af Pútín. Festu hefur verð komið á; nú er röðin komin að öðrum málum, á borð við húsnæðismál, valddreifingu og félagslegan jöfnuð.
Stefna Sameinaðs Rússlands hverfist um einn meðlims þess, um Pútín. Medvédev er hinsvegar óflokksbundinn.
Sem er kannski eðlilegt, enda enginn Framsóknarflokkur starfandi í Rússlandi.


*Hann var potturinn og pannan í hinu mikla ævintýri í vetur, er Rússar settu upp fána á botn Norður-Íshafsins.
**Þetta getur átt við hvaða stjórnmálaafl sem er, ekki endilega SR.
***Þetta eru til dæmis Gazprom, ýmis olíufélög, stálbræðslur og hergagnaframleiðsla.

5 skilaboð:

  • Já, Palli. Þessi pistill snertir okkur auðvitað öll. Kannski kemur sá dagur að þú sendir annað eins í blöðin, ég er fyrir mitt leyti orðinn þreyttur á bullinu sem þeir birta þar hvað varðar Rússland. Sjáðu þér hag í að fá önnur eins skrif birt.
    Þakka kærlega,
    Hallur Karl

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 4:04 f.h.  

  • Hvernig segir maður 'jæa' á rússnesku, mér hefur alltaf þókt erfitt að þýða þettað?

    En hafðu þökk fyrir pistilinn. Hins vegar mættir þú, hafir þú vit og vilja til, fræða okkur (jafnvel í sérstökum pistli) um viðhorf Rússa til gasleiðslnanna sem liggja þaðan til Evrópulanda, sérstaklega Þýzkalands og pólitík þá sem umlykur það mál. Telja þeir sig hafa orkupúngtak á restinni af Evrópu?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 6:19 e.h.  

  • Þetta eru merkileg skrif, Páll. Nú forvitnar mig að vita hvaða mynd niðurlenskir fjölmiðlar draga af Rússlandspólítík, til samanburðar þessu sem þú nefnir hér og okkar fjölmiðlun. En hverjir eru heimildarmennirnir, yfirleitt, spyr maður sig. Nú var niðurlensk stjórnmálaumfjöllun um Íslandspólitík svolítið skrítin, fannst mér (2007), eða eins og þeir hefðu fundið einhvern sérvitran, gamlan fylliraft og nöldursegg og étið allt upp eftir honum.

    Hins vegar forvitnar mig enn meira að vita hvernig maður segir jæja á rússnesku! ég hef engan áhuga á þessu bannsetta framapoti lyginna og fégráðugra veifiskata.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:17 e.h.  

  • Hahaha!
    En jæja notaðist ég við sem þýðingu á rússneska smáorðinu [nu] (nú), sem má nú kannski allt eins þýða sem - nú.
    Þá hefði skrýtlan hljómað svona:
    - Nú?
    - Nú og nú. o.s.frv.
    En jæja er þannig séð svona álíka merkingarbreitt orð og nú er í rússnesku.

    En ég þakka athugasemdirnar, og ég hyggst hefja gríðarmikinn greinaflokk um stjórnmálaástandið og annað ástand í Rússlandi, viðhorf og þrár, vonir, langanir og hugaróra jafnt almúga sem lyginna framapotara, - sem mun eflaust hafa djúp og langframa áhrif á alla stjórnmálaumræðu á Íslandi og víðar.

    Það er svo kannski annað mál, Hallur talar um bullið sem birt er um Rússland, og Heimir minnist á það, sem vill oft verða, að treyst er á einn heimildarmann í langan tíma um flókin mál - (ég vil spyrja, hverju er afdankaður skógfræðinemi lengst norður í Hobbitalandi, hverju er hann betri sérvitrum, gömlum fyllirafti og nöldurseggi?)
    En ég er alltént betri heimildarmaður en ananova.com.

    Sagði Blogger Palli, kl. 8:27 e.h.  

  • привет, исландищи.
    вы такие прикольные.
    давайте менять газледнинг на кваследнинг

    sæll og blessuð

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 4:41 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða