Lesnir;

17.4.08

Málfræðihúmor í Egils sögu, fyrri hluti:
„Brjóstbirtan og ópersónulegar sagnir til forna“

Löngum hafa menn þókst1 sjá votta fyrir örlitlum húmor í fornsögum okkar. Við yndislestur á Egils sögu hef ég rekist á margt forvitnilegt, en yndislestur hef ég um það að lesa bókmenntatexta ekki síður málfræðilega en að gefa gaum að merkingu eða inntaki textans. Þar á meðal er tvennt sem verður efni tveggja pistla; hið fyrra snýr að drykkjuskap Egils hjá Eiríki konungi í Atley.

Og hefst nú lygisagan:

Vísast kannast margir við frásögnina í 43. kapítula Egils sögu, þegar segir frá því er Egill fer með Ölvi, húskarli Þóris hersis og féhirði, að heimta landskyldir Þóris. Þeir halda til Atleyjar, sem Eiríkur konungur á, þar sem á móti þeim tekur Atleyjar-Bárður. Þar fá þeir Egill og Ölvir og föruneyti þeirra ekki höfðinglegri móttökur en svo, að Bárður færir þeim brauð og smjör, og skyr að drekka í eldhúsi fjarri hinum fínni vistarverum. Þeir háma þetta í sig og eru svo þyrstir, að þeim er fengin ábót á skyrið. Bárður kveðst í tvígang harma að geta ekki boðið þeim upp á öl, þar eð ekkert slíkt sé til á bænum.

Að efninu til er þetta skondin uppákoma, en ekki dugir það nú til þess að hlægja málfræðing — nema til komi eitthvað smásmugulega málfræðilegt líka til þess að krydda frásögnina. Og það gerist raunar í 44. kapítula:

Á sama tíma og Egill og Ölvir súpa skyr Bárðar, er Eiríkur konungur kominn í eyna ásamt Gunnhildi drottningu og þar er honum haldin veisla. Lofðung furðar á því hvað dvelji Bárð eiginlega, þar sem ræsir raðar í sig kræsingunum og bergir á öli í hinum betri skálanum. Mildingur mælist til þess að Egill og félagar skuli færðir til sín og taki þátt í veisluhöldunum. Menn Ölvis gerast nú mjög ölvir og æla þeir þar „inni í stofunni, en sumir komust út fyrir dyr“. Egill drekkur og drekkur, og það er sama hve oft fyllt er á drykkjarhornið, alltaf kveður hann sig þyrsta. Bárði finnst Egill gera þeim með þessu skömm og óvirðingu (enda er áfengi eitt af því sem þá, eins og nú, er harðbannað gestkomendum að sníkja?), og þau Gunnhildur ákveða að eitra nú fyrir Agli. Egill sér við þeim með því að rista á hornið rúnir og kveður vísu; þá springur hornið. Ölvir er orðinn harla hífaður svo Egill hyggst fara með hann út. Á leið til dyra biður Bárður Ölvi þá að drekka brautfararminni en í staðinn grípur Egill hornið og drekkur.

Að því búnu kveður Egill þá skondnu vísu sem er tilefni þessa pistils (skáletrun mín):

Ölvar mik, þvít Ölvi
öl gervir nú fölvan,
atgeira lætk ýrar
ýring of grön skýra;
öllungis kannt illa,
oddskýs, fyr þér nýsa,
rigna getr at regni,
regnbjóðr, Hávars þegna.

(Mik ölvar, þvít öl gerir nú Ölvi fölvan; lætk ýrar atgeira ýring skýra of grön; kannt öllungis illa nýsa fyr þér, oddskýs regnbjóðr; regni Hávars þegna getr at rigna.2)

Ópersónulega sögnin ölva (ǫlva) hefur hvergi varðveitst1 nema í þessu kvæði svo sennilega hefur Egill (ljóðskáldið) smíðað hér nýja sögn. Verði maður til dæmis fyrir því að hann berst út á rúmsjó fyrir tilstilli krafta sem hann hefur enga stjórn á, gæti sá notað ópersónulegu sögnina reka og sagt sem svo: Æ! mig rekur á haf út! Það er að skilja: Ó, mig auman, þetta hendir mig bara og ég fæ engu um það ráðið. — Í ljósi þess hve linnulaust Egill hefur drukkið og móðgað gestgjafa sína, er kímilegt að áhrifum drykkjunnar skuli lýst með ópersónulegu sögninni ölva, eiginlega 'verða (óvart, óviljandi) fyrir áhrifum áfengis'. Þar hefur gerandinn því breytst1 í þolanda, og Egill snýr þannig á dónana með stæl.

Til þess að átta sig á þessari nýju broslegu vídd, þarf vitaskuld að gera sér grein fyrir því að þessi sögn hefur (sennilega) ekki verið til í málinu fyrir. (Og segið svo að málfræði sé til einskis nýt!)

1 Sjá stafsetningarpistilinn: Stúrin er tunga illa stöfuð.
2 Vísan er 10. lausavísa, bls. 117, samantekt og skýringar við vísu, bls. 316, sbr.: Egils saga Skalla-Grímssonar. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Reykjavík, 1937.

7 skilaboð:

  • Þetta þótti mér skemmtilegur pistill.
    En ég hnýt um það, að þú segir, að orðið „mig ölvar" hafi a.ö.l. ekki verið til, fyrren Egill notaði það.
    Er það virkikega svo, að orð eru ekki til fyrren einvher hefur notað þau?

    Sagði Blogger Palli, kl. 12:09 e.h.  

  • ...séu ekki til...[?]

    Sagði Blogger Palli, kl. 12:09 e.h.  

  • Skarplega athugað. En segjum þá að það hafi verið í þeim skilningi að öðrum hafi (e.t.v.) a.m.k. ekki ratast slíkt orð á munn fyrr, og að í einmitt því liggi snillin.

    [og jú, ég held ég sé sammála þér með viðtengingarháttinn]

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:49 e.h.  

  • Jújú, það verður ekki um það deilt, að Egill var mjög orðhagur - það sýnir þú líka vel framá hér.
    En með viðtengingarháttinn - hvorn þeirra?

    Sagði Blogger Palli, kl. 1:06 e.h.  

  • Ad thú skulir voga thjer ad kalla æfisøgu Egils Skallagrímssonar lygisøgu!

    Gunnar ij høllu drottningar.

    Ps. Mjer finnst vidtengingarháttur videigandi, en ekki óvideigandi ij thessu tilfelli.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 3:57 e.h.  

  • Sama er nú hvaðan gott kemur, lygin lygi eða ólygin lygi. --- Hins vegar hefur það verið lagfært sem aflaga fór í birtingu þessa pistils, að undirtitillinn sást ekki.

    Sagði Blogger Heimir, kl. 4:00 e.h.  

  • Sælir þetta er skemmtilegur pistill. Á bls. 18 Í Gamansemi Egluhöfundar segir "Öl ber mér ... ". Á bls. 40 í Egluskýringum Halldórs (1973) segir "Öl ber mér (eða: Ölvar mik") síðar segir hann "Ölvar (svo í sumum útg.) af ölva: verða ölvaður;" Er þetta ýmist svo í Egluhandritum að stendur "Ölvar mik" eða "Öl ber mér"? Eða er ölvar mik breytt (eða þýtt) í öl ber mér til að bæta samhengi textans. Það er nefnilega röklegt samhengi í því að segja: ég ætla að drekka ölið sem Ölvi er ætlað því hann hefur fengið nóg. Hins vegar er það undarlegt að segja: Mig hefur ölvað vegna þess að ölvir er búinn að fá nóg enda er hann orðinn fölur af öldrykkju. Orsakasambandið er ekki augljóst á milli þess, að Egill er orðinn ölvaður og að Ölvir er búinn að fá of mikið öl. Sérðu leið til að sjá textann í röklegu samhengi með: Ölvar mik ...?

    Sagði Blogger Þorsteinn, kl. 8:49 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða