Lesnir;

6.4.08

Þýðingar á orðum og hugtökum

Hér á þessum síðum hefur sú málpólitíska stefna, að þýða erlend hugtök innan fræðasamfélagsins, sem ég uppnefni gjarna þýðingaráráttu, verið gagnrýnd. Einnig tel ég að minnst hafi verið á aðlögun erlendra orða, og að nokkuð skorti á að hið opinbera, e.t.v. í sínum stafsetningarreglum eða öðrum leiðbeiningum um málfar, segi okkur málnotendum hvernig stafsetja skuli erlend orð sem notuð eru í textum. Eða hvernig er sú íslenska sögn sem leidd er af hinni ensku download stafsett? Mér þykir sá háttur sem einhvern veginn blasir við, að skrifa þetta eftir framburði, alls ekki álitlegur: dánlóda — dánlódaði; enda er ég lítið fyrir framburðarskrift. Íslenskir málnotendur hljóta að þurfa að líta svo á þessi íslensku orð, sem hver maður hefur á vörum sér, að þau séu skítug orð og ógeðsleg, sem ekki hæfi í rituðu máli, og að þar sem engar reglur gilda um ritun þeirra sé réttast að umorða hugsun sína.

Mér finnst raunar að íslenskt fræðasamfélag eigi að hætta alfarið að sóa kröftum sínum í að þýða erlend hugtök yfir á íslensku, eða hvaða tilgangi þjónar það? Ég tel það hefta hugsun, skerða skilning, tefja tal og gera íslenska nemendur, verðandi fræðimenn, og ekki síður fræðimenn sjálfa að eins konar L2-theoretici (L2-theoreticusum, L2-theoreticum?), það er, fræðimönnum og/eða kenningasmiðum sem hafi „erlend“ (les: „alþjóðleg“) hugtök og orðræðu á valdi sínu á sama hátt og upp að sama marki og Íslendingar kunna ensku, eða jafnvel dönsku (L2, L2,5[!], L3).1 Það er að mínu mati fullkomlega úrelt hugsun að ætla sér að þýða allt hugtakakerfi GB, P&P, mínimalisma, OT ... í málfræði, póst-módernisma og alla þessa isma ... og mér finnst óverjandi að útgáfur á fræðilegum bókum tefjist um hartnær áratug vegna þess að þeir sem að útgáfu þeirra standi geti ekki komið sér saman um hvaða íslensku orð beri að nota í stað hinna útlensku! (Sitúasjón sem þeirri var lýst yfir opinberlega á einni málstofunni á nýliðnu Hugvísindaþingi. 7 ár tók það.)

Þó að við séum landfræðilega pínulítið einangruð frá þjóðum Evrópu og Ameríku, get ég ekki skilið hvers vegna við þurfum að búa til okkar eigið orðakerfi fyrir hverja einustu undirgrein fræða og vísinda. Fyrir hverja eru þessi orð? Fyrir almenning? Fyrir Íslenska málnefnd? Eru þeir hópar, og aðrir, betur settir með orðið „hengill“ í stað klítík? Önnur uppástunga er „dindill“, e.t.v. sbr. orðið „hali“ (kóda) um stöðu í atkvæðum. Og hvað með „röklið“ í stað argúments, „ögn“ í stað partíkels, „hljóðan“ í stað fónems, „myndan“ í stað morfems, etc., etc.

Enska orðið „speaker“ er stundum þýtt sem „málhafi“, og á fyrrnefndri málstofu var sýnd tillagan „málnemi“ um orðið „learner“. Orð af þessu tagi eru meinlausari, að mínu mati, en orð sem tengjast tilteknum kenningum með nánari hætti, þar sem verður að vera skýrt hvað átt er við, enda tengist ýmis fyrri orðræða sumum orðum en ekki öðrum, og hvað verður um slíkt þegar orð eru þýdd yfir á íslensku? Annars var sú athugasemd gerð við orðið „málhafi“ að sumir notuðu það á furðulegan hátt. Þá var minnst á dæmi á b.v. „Jón er ekki málhafi japönsku“, og því fleygt fram að tæpast væri hægt að nota orðið „málhafi“ nema e.t.v. um þátttakendur í könnun á málfari. Hér hefur íslenska orðið „málhafi“, a.m.k. fyrir þessum tiltekna íslenska málhafa sem lagði orð í belg á umræddu þingi, því einhverja allt aðra merkingu en það enska orð sem það er þýðing á. Mér finnst nauðsynlegt að geta sagt, t.d. í titli greinar, „Stílfærsla í aukasetningum hjá kínverskum málhöfum íslensku (sem annars máls)“, þ.e. þegar þeir sem hafa kínverslu að móðurmáli tala íslensku og færni þeirra er athuguð.

Ég legg til að öllum þessum þýddu hugtökum verði rutt út úr umræðunni innan háskólasamfélagsins, sem og í greinum birtum í fræðilegum tímaritum íslenskum; en að leyfilegt sé að þýða fræðileg hugtök, ef nauðsyn krefur; og nauðsyn krefur e.t.v. ef bera á eitthvað af þeirri þekkingu á borð fyrir nemendur í grunnskólum landsins sem fræðasamfélagið hefur aflað sér. Mér finnst út í hött að leggja eigi á nemendur að læra tvö gersamlega ólík orð um sama fyrirbæri, og það gerir lítið annað en að þvælast fyrir þeim í námi, jafnt hér sem erlendis. Ég legg til að við látum af þessari þjóðernisvitleysu — nú erum við orðin sjálfstæð og getum alveg slett aðeins ... úr klaufunum.

1 Með þessu á ég bæði við það að Íslendingar eru yfirleitt ekkert ýkja sleipir í dönsku, þó að til langs tíma hafi hún verið — hvað lögin varðar — 2. tungumál Íslendinga, og að þessu hefur nú verið breytt, þannig að Íslendingar læra nú ensku áður en þeir læra dönsku.

2 skilaboð:

  • [Til skírleiks- og yndisauka hafa fáeinar hljóðar tæknilegar breytingar verið gerðar á þessum pistli, og skipt á einum stað um alþjóðlegt hugtak og íslenska þýðingu þess, frá því hann var sendur inn í gærkvöldi; HFV.]

    Sagði Blogger Heimir, kl. 12:14 e.h.  

  • Mætti ekki bara kalla þetta þýðingarsýki?

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 12:28 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða