Undir vetrarsólstöðum
Kæru lesendur. Kæru vinir.
Þó að það sé hlýtt í herberginu, þá sést varla út um gluggann fyrir frostrósum. Og í dag eru sólstöður. – Langamma sýndi mér hvernig einmitt þennan dag sólin rétt skríður upp á milli strompanna á húsinu í Stóru-Sandvík, séð neðan úr baðstofuglugganum. Ýlissólin birtir yfir ísað framtúnið, með gul stráin titrandi uppúr snjónum við skurðina, þartil hún gengur aftur niður og dimmir og roðnar á svellunum einsog hún væri að fjarlægjast í síðasta sinn.
Það er kannski örlítið töfrandi, allt þetta myrkur; einsog að kafa niður í djúpan brunn og ná til botns, eða búa í tuttugu ár undir svo svörtum greniskógi að maður sjái ekki stjörnurnar nema sjöunda hvern sunnudag; þær verða þá bara ennþá fallegri. Það eru harkan og úthaldið sem sefja í myrkrinu.
En héðanaf tekur dagana að lengja. Hinir köldu og grimmu nýársmánuðir líða hjá æ bjartari, þartil sjálft vorið strýkur okkur um kollinn og við pírum augun í sólinni.
Um nónbil bjarmar af sólarlaginu, glórauðu, bakvið bryggjurnar og vörukranana. Himininn skartar sínum fegurstu gráu tónum, aspirnar glenna greiparnar og bíða þess að krákurnar komi fljúgandi. Í runnunum hnipra spörvarnir sig í hópum og tipla létt við húsin ef einhver skupluklædd amman hefur kastað fyrir þá brauðmylsnu. Á kvöldin lýsa götuljósin aðeins sem ágengar týrur í fjarska. Eða magnast upp í tímalausri, flauelsmjúkri snjódrífu yfir öllum höttunum, nema mér einum, sem geng berhöfðaður í dásemd, með duggarahúfuna í hendinni.
Mig dreymdi í nótt að ég hefði fundið rauðkál úti í búð. Ég át það með matnum þartil ég sá, mér til mikillar furðu, að það var aðeins ein skeiðarfylli eftir í krukkunni. Því að súrmjólkurmorgnar eru alltaf kaldir.
Megi öll jól verða að brandajólum, og allt ölið klárast á þrettándanum.
Með kveðju - Palli
Þó að það sé hlýtt í herberginu, þá sést varla út um gluggann fyrir frostrósum. Og í dag eru sólstöður. – Langamma sýndi mér hvernig einmitt þennan dag sólin rétt skríður upp á milli strompanna á húsinu í Stóru-Sandvík, séð neðan úr baðstofuglugganum. Ýlissólin birtir yfir ísað framtúnið, með gul stráin titrandi uppúr snjónum við skurðina, þartil hún gengur aftur niður og dimmir og roðnar á svellunum einsog hún væri að fjarlægjast í síðasta sinn.
Það er kannski örlítið töfrandi, allt þetta myrkur; einsog að kafa niður í djúpan brunn og ná til botns, eða búa í tuttugu ár undir svo svörtum greniskógi að maður sjái ekki stjörnurnar nema sjöunda hvern sunnudag; þær verða þá bara ennþá fallegri. Það eru harkan og úthaldið sem sefja í myrkrinu.
En héðanaf tekur dagana að lengja. Hinir köldu og grimmu nýársmánuðir líða hjá æ bjartari, þartil sjálft vorið strýkur okkur um kollinn og við pírum augun í sólinni.
Um nónbil bjarmar af sólarlaginu, glórauðu, bakvið bryggjurnar og vörukranana. Himininn skartar sínum fegurstu gráu tónum, aspirnar glenna greiparnar og bíða þess að krákurnar komi fljúgandi. Í runnunum hnipra spörvarnir sig í hópum og tipla létt við húsin ef einhver skupluklædd amman hefur kastað fyrir þá brauðmylsnu. Á kvöldin lýsa götuljósin aðeins sem ágengar týrur í fjarska. Eða magnast upp í tímalausri, flauelsmjúkri snjódrífu yfir öllum höttunum, nema mér einum, sem geng berhöfðaður í dásemd, með duggarahúfuna í hendinni.
Mig dreymdi í nótt að ég hefði fundið rauðkál úti í búð. Ég át það með matnum þartil ég sá, mér til mikillar furðu, að það var aðeins ein skeiðarfylli eftir í krukkunni. Því að súrmjólkurmorgnar eru alltaf kaldir.
Megi öll jól verða að brandajólum, og allt ölið klárast á þrettándanum.
Með kveðju - Palli
2 skilaboð:
Vaskur vetur
og vindgnauð ríkja.
Vetur miður, myrkur niflar brátt liðið.
Jólakveðju kósakka
með kæti sendir
Gumi úr gömlu landi ísa.
Sagði Gunnar, kl. 2:10 e.h.
:Með ósk ins sama:
Leitt þykir lötum,
eitt laat bericht
til Finnmarkar marka,
merki myrkum orðum
lífs og lyndis, senda,
hyltu og holu landi frá.
Sagði Heimir Freyr, kl. 1:51 e.h.
Skrifa ummæli
<< Forsíða