Lesnir;

23.9.07

Dregið í dilka

Vantar þig smá krydd í tilveruna? Drífðu þig þá inn á www.pipra.ekki og skráðu þig. Pipra ― stefnumótasíða fyrir fólk með háskólamenntun.

Þetta er ekki mjög íslenskuleg auglýsing, eða hvað? Þetta er hins vegar þýdd og lítillega staðfærð þýðing á auglýsingu frá stefnumótaþjónustu (sjá hér, ef vill) sem heyra má í hollensku ríkisútvarpi. Þar er ekkert tiltökumál að vísað sé svona opinskátt til menntunarstigs, enda er Hollendingum ekki eins mikið í mun að telja sjálfum sér og öðrum trú um að engin stéttaskipting sé í landinu, né að stéttaskipting sé endilega af hinu vonda.

Þvert á móti. Löngum hefur verið talið æskilegt þar í landi að börn með líkan bakgrunn séu höfð í sama bekk. Þess vegna ku spurt mikið út í menntun foreldra og fyrri störf, hvort þeir eru útlendingar eða annað í þeim dúr. Til dæmis sagði mér kennari við Trektarháskóla að áhersla væri lögð á að börn yrðu ekkert annað eða meira en sá efniviður sem þau eru runnin af; börn sprengja ekki þann ramma sem foreldrar þeirra skapa þeim. Það sé nefnilega ekki venjan að barn húsasmiðs verði læknir, eða öfugt. Vissulega eru um það dæmi, og þá má endurskoða þessa skiptingu ef barnið gerist mjög bókhneigt.

Dæmi um þennan mun gæti verið sá að hollenskum nemanda sem hneigist mjög til tungumála býðst að taka latínu og grísku þegar hann er enn ungur að árum. Það merkir ekki að allur hópurinn sé neyddur til þess að taka þessi mál. Aldrei hefði verið tekið upp á því hér á landi að kenna ungum nemendum latínu og grísku, enda væri vænn slatti af nemendum sem alls engan áhuga hefðu á tungumálum yfirleitt. Hvers ættu þeir að gjalda? Fyrir vikið kann ég hvorki latínu né grísku, og þykir miður.

Það er munur á fólki. Hér er sagt sem svo: allir verða að hafa sömu tækifæri! Frá því sjónarmiði er hollenska dæmið alger fásinna. Hins vegar má líta á þetta frá öðru sjónarhorni, nefnilega því að verið sé að steypa alla í sama mót; sem aftur er trúlega sprottið af því að á Íslandi séu allir jafnir. Þess vegna myndi auglýsing eins og sú sem minnst var á hér í upphafi sennilega fara fyrir brjóstið á mörgum, enda myndu þeir spyrja sig: hví skyldi einhverju máli skipta hvaða menntun fólk hefur sem leitar sér maka? En á móti má spyrja: er venjan ekki yfirleitt sú að hjón hafi svipaðan bakgrunn?

Þetta atriði verður mjög ljóst í málfræðinni. Hér áður fyrr trúðu menn ekki á mikinn mun á málfari eftir stétt, enda væri hér engin stéttskipting. Annað kemur þó í ljós ef þetta er kannað því þá kemur fram mikill eða talsverður munur á börnum eftir því hvert menntunarstig foreldra þeirra er.1

Hvers vegna eru Íslendingar þá svona viðkvæmir fyrir þessu? Finnst þeim þeir svona hátt yfir sauðina hafnir að mannfólk skuli aldrei draga í dilka, jafnvel þótt svo virðist sem það hafi sjálft tilhneigingu til þess að skiptast í ólíka hópa? Eru Íslendingar svona kristilegir í eðli sínu að vilja ekki fara í manngreinarálit? Það er eins og við höldum að orðin „sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“ séu alveg fullkomlega úr lausu lofti gripin.

Hlýtur þetta ekki að hafa vond áhrif, að smita út frá sér? Stéttaskipting sem er, en enginn má tala um, hlýtur að vera til trafala. Tilteknir hópar fá ekki efni og umræður við sitt hæfi, á hvorn bóginn sem það nú er: að talað sé niður til fólks með grunnmenntun eða að þeir sem hafi meiri menntun fái ekki tækifæri til þess að fá allt það út úr fræðunum sem þau hafa að bjóða.

Grunnavíkur-Jón gerði sér grein fyrir þessu í riti sínu Hag-þeinki frá 1737, og stend ég enn við fyrri orð mín um að sú bók ætti að vera skyldulesning öllum kennurum, og svei mér þá, öllum nemendum líka! (sjá fyrri umræðu um það hér).

1 Sjá t.d. niðurstöður eftirtalinna kannanna, sem sýna félagsbundin mun á málfari barna, og umræður þar um þá þætti: Ásta Svavarsdóttir, Gísli Pálsson og Þórólfur Þórlindsson, 1984: „Fall er fararheill“, Íslenskt mál 6:33-51. Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling, 2001: „Það var hrint mér á leiðinni í skólann: Þolmynd eða ekki þolmynd?“, Íslenskt mál 23:123-180. Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson, 2003: „Breytingar á frumlagsfalli í íslensku“, Íslenskt mál 25:7-40.

3 skilaboð:

  • Ágæta umfjöllun um stéttskiptingu - byggða á ætt annars vegar og gáfum hins vegar - er að finna í bókinni Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson. Sú bók er hin bezta að allri gerð!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 9:28 f.h.  

  • Æ. Ég veit það ekki.
    Hvorki mamma mín né pabbi eru háskólamenntuð. Pabbi er verkamaður. Hvar hefði ég þá verið sett í skóla? Ég er ekki viss um að ég væri í mastersnámi núna ef ég hefði verið sett í "verkamannabekkinn" þegar ég var lítil.

    Kannski er ég bara draumóramanneskja sem trúir á stéttlaust þjóðfélag og jafnrétti (til náms og annars) :)

    Sagði Blogger Regnhlif, kl. 12:17 e.h.  

  • Nei, ég er svo sem sumpart sammála, Hlíf. Ekki með það að ég trúi á stéttlaust þjóðfélag en að óæskilegt sé að skipa nemendum í brennimerkta bekki --- eins og raunar var gert hér fyrir nokkrum áratugum.

    Hvað menntun og uppfræðslu barna varðar þá hefur það svo sem færst í aukana hér að börnum sé gefið meira val. Eftir því sem ég best veit er sá möguleiki kominn niður í 9. bekk nú, sem er gleðilegt. Hins vegar er mjög slæmt ef börn notfæra sér þennan valrétt og fyrirgera rétti sínum til áframhaldandi náms.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 1:27 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða