Lesnir;

10.1.07

Bókarýni I

Hér, í þessum fyrsta þætti bókarýni lesinna (og fylgja vonandi fleiri í kjölfarið), verður fjallað um nýlega bók: Hernaðarsögu Íslands 1170-1581 eftir Birgir [sic, skv. auglýsingu sem ég sá í einhverju dagblaðanna skömmu fyrir jól] Loftsson. Fyrst þegar ég sá þessa bók auglýsta í nóvember 2006 varð ég afar spenntur, enda spennandi efni. En við skoðun á ritinu varð ég fyrir sárum vonbrigðum. Lesendur verða að virða það við mig að ég legg mig fram um að finna lesti á þessari tímabæru bók, enda getur höfundur þess réttilega að hernaðarsagan hafi hingað til verið afskipt (bls. 5). Eiginlega efnislega umfjöllun, þ.e. ekki hvað útlit eða heimildavinnu varðar, reyni ég að takmarka við það svið sem mér er kunnugast, þ.e. herskatta, enda er ég að vinna að BA-ritgerð í sagnfræði um herskatt frá 17. öld.

Bókin telur 288 blaðsíður og er prýdd fjölda mynda, flestra í lit. Heimildaskrá er sem og tilvísunarskrá [sic]. Engin mynda-, nafna- eða atriðisorðaskrá er. Sérstaklega saknar maður myndaskráar því allur gangur er á því hvernig vísað er til mynda í myndatexta, oft er engin vísun (t.d. á bls. 42, 62, 70, 104, 138-140, 172-176 og 179) en oftast er Birgir Loftsson sjálfur skráður sem heimildamaður mynda. Gildir einu hvort þar sé á ferð mynd greinilega tekin á einhverju safni, sögusýningu eða sviðssetningu leikhóps (e. reenactment) (t.d. á bls. 8, 14-15, 20, 23-24, 28-29, 33-35 o.á.) Á síðu 153 eru tvær myndir hverjar höf. er skráður heimildamaður fyrir en augljóslega teknar á safni (ótilgreindu) en myndefni annarrar þeirra er ekki í fókus). Höfundur fer frjálslega með kort birt í Skýringar og fræði. Íslendingabók, veraldar saga, leiðarvísir Nikuláss Bergssonar, samþykktir og sáttmálar, ættir og átök, kort, töflur, orðasafn, nafnaskrá, staðarnafnaskrá. [3. bindi Sturlungasögu.] Örnólfur Thorsson ritstýrði. Reykjavík, 1988. Hann einfaldlega getur þess ekki hvaðan þau koma auk þess sem þetta bindi Sturlunguútgáfunnar er ekki í heimildaskránni (fyrri tvö bindin eru þar). Má sem dæmi nefna kort á bls. 109 og 110 í Hernaðarsögunni sem eru á bls. 227 og 226 í Skýringum og fræðum. Mun fleiri dæmi um þetta mætti nefna, enda eru á bls. 82-121 mörg kort sem ættuð eru frá Skýringum og fræðum, bls. 161-272, án þess að til þeirra sé vísað.

Nokkrar myndir eru úr handritum geymdum í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (ranglega nefnd Árnastofnun á Íslandi í bókinni) og vandar höfundur sig þar og getur úr hvaða handritum myndirnar eru fengnar (t.d. á bls. 12-13, 44, 148-149, 158-159, 252-253). Hins vegar bregst höfundi bogalistin þegar mynd er fengin úr skjali geymdu í Þjóðskjalasafni Íslands, þar segir einungis að hér sé á ferðinni „[k]ort af Bessastaðagarði 1720...“ (bls. 124-125) en ekki hvar í safni Þjóðskjalasafns þetta er geymt. Annað dæmi um óvandaða heimildavinnu er í myndatexta við mynd á bls.136, þar segir: „Íslenskir höfðingjar á ferð. Úr íslensku handriti.“ Mynd af sömu síðu í þessu handriti var notuð á forsíðu Sögu, tímarits Sögufélags XLIII:1 (2005) í tenglsum við grein Jóns Árna Friðjónssonar í því riti: „Af beislabátum og unnarjóum. Járningar hesta og samgöngubylting á miðöldum“ (bls. 43-80). Á titilsíðu kemur fram að hér sé um mynd úr Jónsbókarhandritinu AM 345 fol. (frá síðari hluta 16. aldar) að ræða. Höfundur hefði getað vísað í handritið sér að meinalausu. Engin þessara handrita eru í heimildaskrá, og vekur raunar athygli að höfundur bókarinnar hefur látið óútgefnar frumheimildir alveg eiga sig, í það minnsta ef marka má heimildaskrá bókarinnar (bls. 277-278).

Reyndar er sá ljóður á heimildaskránni að ekki er öll ívitnuð rit þar að finna. Má þar nefna bókina On War (þ. Vom Kriege) eftir Carl von Clausewitz. Í aftanmálsgrein segir: „Hér er vitnað í, að því að talið er, vönduðustu útgáfuna.“ Á hann þar við einhverja útgáfu enskrar þýðingar bókarinnar. Engin leið er hins vegar að finna út nákvæmlega hvaða útgáfa er hin vandaðasta því ritið er ekki skráð í heimildaskránni. Höfundur virðist ekkert athugavert sjá við það að nota hugmyndir 18. og 19. aldar Prússa (Clausewitz fæddist 1780) til að skilgreina hermennsku íslenskra miðaldamanna (í kaflanum 1.2 Skilgreining á nokkrum herfræðilegum hugtökum bls. 9-11). Um Clausewitz má lesa í formála Louise Willmot að styttri enskri útgáfu On War, bls. IX-XXIII. (Clausewitz, Carl v.: On War. J.J. Graham þýddi, F. N. Maude endurskoðaði útgáfuna. Louise Willmot stytti og skrifaði inngang. Hertfordshire, 1997).

Heimildaskráin er einnig heldur stutt miðað við stærð bókarinnar, rúmlega 1½ síða með smáu letri (bls. 277-278). Frágangur er ekki samræmdur, stundum er útgefandi skráður, stundum ekki, titlar bóka eru ekki skáletraðir, þær blaðsíður sem greinar spanna í ritum eru ekki tilgreindar o.s.frv. Tilvísunarskrá [sic!] er ekki kaflaskipt eftir köflum bókarinnar, sem þó hefði auðveldað notkun hennar.

Á titilsíðu kemur hvorki fram hvenær né hvar bókin er gefin út. Formáli (bls. 5) er á síðu sem talin er með í blaðsíðutali, oft eru nokkrar fremstu síður bóka með rómversku letri og notaðar fyrir nauðsynlegan texta sem kemur þó efnislegri umfjöllun bókar ekki við. Formálinn er hvorki undirritaður né dagsettur, sem þó er vani. Sbr.: „Formáli er eins konar bréf höfundar til lesenda og fylgir ritgerðinni en er ekki hluti af henni. Í samræmi við það er algengt að dagsetja formála og undirrita ...“ (Gunnar Karlsson: Baráttan við heimildirnar. Leiðbeiningar um rannsóknartækni og ritgerðavinnu í sagnfræði. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 7. Jón Guðnason ritstýrði. Reykjavík, 1982. Bls. 40.)

Prófarkarlestri hernaðarsögunnar er ábótavant. Málfar er á köflum vont og þvælist fyrir lesaranum. Dæmi um þetta eru setningar á borð við: „...Íslendingar hafa engan [sic] stofnun sem sinnir hlutverki hers.“ (bls. 5). „Vopna-Teitur var óumdeilanlega leifar [sic] hinnar fornu hermennsku á Íslandi...“ (bls. 251). „Hér hefur verið fjallað um flestallt [sic] sem viðkemur hermennsku og hernaði á Íslandi á tímabilinu 1170-1581 en hér hefur verið farið í meginatriði hernaðarsögu þessa tímabils.“ (bls. 253). „Hingað til hefur því verið haldið fram að Ísland hafi verið friðað [sic] að mestu með tilkomu konungsvaldsins en því fer víðsfjarri [sic].“ (bls. 253) Engin vísun er í þau rit þar sem hinni höfnuðu skoðun á síðu 253 er haldið fram, þó er ekki loku fyrir það skotið að slíka sé að finna fyrr í bókinni. Víðar er skortur á vísun við fullyrðingar, t.d. þar sem segir: „Hér fylgdu Íslendingar í fótspor margra annarra þegna konunga í Vestur-Evrópu á þessum tíma, að neita að greiða konungi sérstaka herskatta.“ (bls. 152). Engin leið er fær lesara til að átta sig á hvað stendur á bakvið þessa fullyrðingu.

Í kafla 5.3, um herskatta, sem telur tæpa blaðsíðu (skiptist á síður 151-152), er engin úrvinnsla eða umfjöllun, heldur einungis þurr, samhengislaus upptalning á hvenær á umræddu tímabili konungar og drottningar kröfðust skatta í tengslum við hernað. Hér er heldur ekki vísað í Ríkisréttindi Íslands, skjöl og skrif eftir Jón Þorláksson og Einar Arnórsson. Þar er ágæt umfjöllun um herútboð og herskatta sem krafist var af Íslendingum á meðan erlent konungsvald réði yfir landinu og umfjöllun um viðbrögð Íslendinga við þeim og lögmæti þeirra m.v. samþykktir á borð við Gamla sáttmála sem höfundur Hernaðarsögu Íslands nýtir ekki. (Jón Þorláksson og Einar Arnórsson: Ríkisréttindi Íslands, skjöl og skrif. Reykjavík, 1908. Bls. 202 og víðar).

Undarlegt þótti mér einnig við þessa bók að hún er gefin út af Pjaxa hf. Hernaðarsaga Íslands er sýnist mér fyrsta sagnfræðiritið sem Pjaxi gefur út (sjá: http://www.pjaxi.is/utgafa.html). Afhverju, fyrst hér er um slíkt brautryðjendaverk að ræða, var það ekki Háskólaútgáfan eða Hið íslenzka bókmenntafjelag sem gaf ritið út? Vera má að slíkt skipti ekki máli, höfundi er frjálst að gefa hugverk sitt út hvar sem honum sýnist. En hinu verður ekki neitað, að sé verkið jafn glæst og auglýsingar hafa gefið til kynna, hefði þá ekki verið nær að leita til virtari útgefanda?

Með þessum orðum læt ég umfjöllun um Hernaðarsögu Íslands 1170-1581 e. Birgi Loftsson lokið.

9 skilaboð:

  • Sumsé afar lítt vönduð bók.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 9:19 f.h.  

  • Það sagði ég aldrei..!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 11:36 f.h.  

  • En það er það sem þú meintir.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 4:49 e.h.  

  • Gott að sjá þessi ummæli studd rökum á "opinberum" miðli. Alltof margir hafa hafið þetta rit upp til skýjanna gagnrýnislaust þó vissulega eigi hún sína spretti.

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 6:32 e.h.  

  • Þessar athugasemdir eru ákaflega misveigamiklar en þó má greinilega sjá að víða hefði átt að vanda betur / (betur) ... til verks, eins og mér hefur sömuleiðis verið sýnt svart á hvítu. Furðanlegast er þó að engar frumheimildir séu nýttar (a.m.k. samkv. heimildaskrá) úr því að um lítt kannað efni er að ræða, og raunar alveg hreint makalaust.

    Vonum að skrifin verði þó til þess að vekja meiri áhuga meðal fræðimanna um þetta efni - það má þá alltént gera betur. Opni ég bókina sem fróðleiksfúst almenningspeð orkar hún að minnsta kosti á mig sem athyglisverð og all-læsileg. Annað læt ég vera.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 12:28 f.h.  

  • Það er nú ekki allt talið. Flest úr þessari bók hef ég heyrt áður eða lesið, annaðhvort í tímum hjá Birni Þorsteinssyni eða í bókum eftir hann. Svo er folaldið sem fylgir merinni líka snemmbært, allt í einu talað yfirborðskennt um hernað á 20. öld. Og menn sem verðleggja bók upp á tæp 8.000 verðpa að hafa eitthvað að segja fyrir þann pening.

    Sagði Blogger Erlingur, kl. 10:46 e.h.  

  • Heimir: frumheimildir eru sannarlega nýttar, sbr. Sturlungu (reyndar svart á hvítu útgáfuna) o.fl. En óútgefnar frumheimildir liggja óbættar hjá garði, en hljóta einhverjar að finnast á skjalasöfnum þó viðfangsefni bókarinnar sé fornt.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:46 e.h.  

  • Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:54 e.h.  

  • [Það uppdagaðist skelfileg innsláttarvilla svo mér var nauðugur einn kostur að eyða orðum mínum. Hér með sendast þau inn aftur, án þessarar villu.]

    Mæl þú manna heilastur Erlingur! Mér fannst nóg um, þó ég færi ekki að orða verðmiðann eða byssó-inn í lokin.

    Snöggur lestur efnisyfirlita tveggja bóka Björns Þorsteinssonar leiðir líka í ljós að sannarlega er hér að miklu leyti gamall grautur í nýrri skál á ferð. (Björn Þorsteinsson: Enska öldin í sögu Íslendinga. Reykjavík, 1970 og sami höf.: Íslensk miðaldasaga. Reykjavík, 1978.)

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:56 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða