Lesnir;

4.6.05

Júníhugleiðingar

Kæru lesendur.
Langamma var fædd í Gnúpverjahreppi, og bjó mest alla ævi sína í Flóanum. Um þessar mundir minnist ég orða hennar um Heklu. Hún sagði að Hekla væri einhvernveginn skökk og undarleg séð úr Rangárvallasýslu.
Það er svipað með mig hér. Hér eru sömu fuglarnir og sömu jurtirnar og heima. En fíflarnir eru samt skrýtnir í laginu, maríuerlan grárri, reynitrén of margstofna og þrestirnir ekki barar syngja öðruvísi, heldur fljúga þeir og hreyfa sig ókunnuglega.
En hvað man maður svosem? Sjón og heyrn glepja, en lyktarminnið er sterkt.
Ég var einmitt fyrir nokkru nýbúinn að raka mig og bera á mig rakspíra, og var að snýta mér í puttana yfir vaskinum með kalt vatn rennandi úr krananum. Fann þá nákvæmlega sömu lykt einsog í fatahenginu í Haukadal eftir að hafa sagað nokkur tré á heitum degi.

Um daginn kallaði deildaryfirmaðurinn okkar, doktor í fíknefnalækningum, A.G.Kalínín, mig á tal við sig. Hann tjáði mér að sökum nýrra reglna frá menntamálaráðuneyti rússneska sambandsríkisins yrði ég að afhenda háskólanum afrit af stúdentsskýrteini mínu stimplað af lögfræðingi. Það er nú kannski minnsta málið að fá mömmu til að fara í FSu, ljósrita skýrteinið og láta lögfræðing stimpla afritið, en hvenær er komið nóg af svona reglugerðum?

Í gær datt mér í hug að sjóða súpu uppúr matreiðslubók sem mamma gaf mér. Við höfðum lifað á rauðrófusúpu í nokkra daga, svo að mér fannst að kakósúpa væri góð tilbreyting.
Ég fór út í búð og keypti mjólk. En þar var ekki til kakó. Ég fór í aðra búð, en fann bara kartöflumjöl. Ég fór með strætisvagni í stóra matvöruverlsun hér í nánd, og fann kakó, en enn vantaði mig vanilludropa. Að lokum ákvað ég, þar sem ég fann ekki vanilludropa, að velja einhvern sniðugan líkjör úr hinu mikla úrvali verlsunarinnar. Ég spurði mann nokkurn hvaða líkjör myndi helzt líkjast vanillu, en hann hafði að eigin sögn aldrei smakkað vanillu. Hinsvegar lýsti hann múltuberjalíkjör sem ekki beiskum, ekki súrum og varla sætum, og keypti ég þann 16% líkjör. Alls tók þessi Bjarmalandsför um tvo og hálfan tíma.
Kakósúpuna sauð ég, en hún var einna líkust venjulegu kakói. Svo varð okkur svo illt í maganum að við sáum þann eina kost að drekka líkjörinn í eftirmat.

Díma herbergisnautur gafst upp á náminu hér að lokum. Enda hafði hann vart sótt tíma síðan í febrúar. Á nóttunni bjó hann til furðuleg remix á fartölvunni eða fór á bari, á morgnana svaf hann einsog múrmeldýr. Þegar við reyndum að vekja hann um hádegisbil umlaði hann að það miklvægasta væri að sofa út. Nám kæmi þar á eftir.
Enda má segja að hann hafi sofið út önnina.
Fyrir tveimur vikum fór hann heim til sín í Kotlas. Þar klárar hann háskólagráðuna við eitthvert útibú frá Pétursborgarháskóla. Þar mun vera „einfaldara” að læra. Með „einfaldara” er átt við að ef illa gengur, sé alltaf hægt að kaupa sér betri einkunnir.

Um daginn var ég í bókabúð að skoða úrval þýddra erlendra bókmennta. Þá rakst ég á það, að fáanleg eru þrjú verk markgreifans de Sade. Ekki kannaðist ég við neina þessara bóka, enda voru 120 dagar Sódómu og Gómorru þar ekki á meðal.

Hér eru hitar miklir. Á miðvikudaginn var komst ég með herkjum í efnafræði, þareð ótrúleg hlýindi mættu mér í hverju skrefi. Jafnvel það að opna buxnaklaufina hjálpaði ekki til. Ég var handviss um að það væru 30°c, en þær voru í raun ekki nema 15.
---
Enn minnkar Framsóknarflokkurinn. En mér finnst það bara mátulegt. Hvaða rugl var það annars að hafa Landbúnaðarstofnun á Selfossi? Eða hvern vantar meiri skríl til viðbótar við hrukkuliðið úr Reykjavík? Ég á aldrei eftir að tíma því að kaupa mér íbúð á Selfossi ef verðið heldur áfram að hækka þar. Takk, kæru nýframsóknarmenn, það er ykkur að þakka að spá Jóns um ævi mína á eftir að rætast; ég á eftir að lifa tómu lífi einsamall á Súðavík.
---
Hvað varð um allar rauðu Lödurnar síðan ég var lítill?

Palli

6 skilaboð:

  • Talandi um lödur, þá hitti ég bílasölumann (Stefán að nafni) í dag og tókum við tal saman. Ég orðaði laungun mína í lödubíl, og hann hló bara. Reyndi ekki einusinni að selja mér slíkt farartæki!
    Ég þekki mann sem á heildarsafn de Sade í enskri þýðingu. Eitt hnausþykkt bindi í enhvurskonar penguin-útgáfu, þú ættir að reyna að athuga það.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 4:55 e.h.  

  • Að lesa þetta var svona h.u.b. eins og að vera áheyrandi að áhugaverðum samræðum (gegnum síma vísast). Þetta var algjörlega að virka á mig allavegana - skopskyn og annað. En hæ, svona kakódrykk þarftu endilega að malla fyrir mig einhvern daginn: hvað kennir ekki neyðin manni!

    Já mér er geipileg eftirsjá að þeim Lödunum. Eitthvert það alkúlaðasta ökutæki sem ég hef séð var svört Lada á Snæfellsnesi einhvers staðar, Stykkishólmi ef ég man rétt. Henni var ekið fram og aftur um stærstu (einu) götu bæjarins allt kvöldið (hm - á hvað minnir það ...) Hún var ekki með þessu dæmigerða tauáklæði heldur einhverju sem líktist dökku (plastkenndu) leðri. Þessir bílar eru nær alveg horfnir. Stunduðu ekki Rússarnir það að kaupa Löduhræ af fólki hér um árið til að eiga í varahluti? Núna verður að kaupa þetta nýtt.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 9:24 e.h.  

  • Mér finnst þessi Díma minna skuggalega mikið á mig, nema hvað að ég náði öllu. Oft stóð valið á milli þess að sofa eða mæta í skólan og hið fyrra varð oftar fyrir valinu.

    Svo tala ég ekki um barheimsóknir mínar og súru laptop remixin.....


    Jæja ansaðu nú tölvupóstnum mínum þrjótur...

    Jón Örn

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 2:08 e.h.  

  • Þessi fannáll er dauður

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 2:38 f.h.  

  • Lesnir eru svo sannarlega langt frá því að vera dauður fannáll. Þá fyrst tel ég fannál vera dauðan ef hann hefur ekki verið uppfærður í meira en mánuð.
    Hvað er annars nákvæmlega fannáll?
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 1:05 e.h.  

  • Þetta er óskup einfach:
    Blog = web log
    Fannáll = vef annáll

    og þannig er nú það.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:33 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða