Lesnir;

24.8.06

Bloch og einsagan

Ég las fyrir nokkru bók eftir franska sagnfræðinginn Marc Bloch (í enskri þýðingu, ég kann því miður ekki frönsku) sem heitir the Historian’s Craft – iðn sagnfræðingsins.1 Í ljósi nýrra tískustrauma í sagnfræði – þá á ég sérstaklega við einn arm póstmódernískrar sagnfræði, einsögu – fannst mér þessi kafli áhugaverður:

„In a word, a historical phenomenon can never be understood apart from its moment in time. This is true of every evolutionary stage, our own and all others. As the old Arab proverb has it: “Men resemble their times more than they do their fathers.” Disregard of this Oriental wisdom has sometimes brought discredit to the study of the past.“2

Bloch hefði allt eins getað skrifað „will bring discredit to the study of the past“, vegna þess að nú á hinum síðustu og verstu hefur sprottið upp sú gerð sagnfræði sem kennd er við einsögu. Hennar helsta markmið virðist vera að „hafna stofnannasögunni“, „hafna yfirlitssögunni“, „blása til uppreisnar“ o.s.frv.

Það sem þessi innihaldsrýru slagorð þýða í praxís er að þegar ritað er um eitthvað sögulegt, t.d. bónda sem hélt dagbók (sem virðist vera eitt af afar fáum viðfangsefnum sem einsagan ræður við), þá er eingöngu notast við téða dagbók í sagnfræðilegu greiningunni og ekkert annað, saga bóndans er ekki sett í samhengi við aldarfar, atburði, pólitík, annað fólk eða neitt sem tengst getur hinu illa yfirliti.

Enda er það ekki nema von að hin s.k. einsaga mæti mótlæti af hálfu sagnfræðinga sem nenna að vinna vinnuna sína.

___
1 Bloch náði samt ekki að klára bókina, því hann var drepinn af Gestapo árið 1944 – hann var júði.
2 Marc Bloch: The Historian’s Craft. Peter Putnam þýddi. Manchester 200411 (1954). Bls. 29.

6 skilaboð:

  • (Skárra er það nú en að verða tvísaga - en það kalla ég hér að ætla sér að ná utan um eitthvað tvennt ólíkt: atvik og ytri aðstæður) - mér finnst einsaga ágæt nálgun því hvað þykist sagnfræðingur á 20. öld geta sett sig inn í orðræðu á 10. öld, nema í gegnum misvísandi sundurleit brotabrot brota brotabrota? Er ekki nær að sætta sig við takmarkanirnar og meta hvert atvik, hvern einstakling, hver skrif, hvern texta, hvern stakan staf í því samhengi - og nákvæmlega því samhengi - sem hann birtist í.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 1:33 f.h.  

  • Það er eitt að gera sér grein fyrir takmörkunum heimildanna, og gera þá skýra grein fyrir þeim, en annað að hafna öllum öðrum brotabrotum sem varpað geta ljósi á rannsóknarefnið en nákvæmlega því broti sem vekur áhuga þinn - ásamt því að hafna rannsóknum annarra á sama sviði.

    Einmitt þetta sem þú nefnir, að meta hlut í því samhengi sem hann birtist í, er það sem einsagan hafnar. Samhengi felur í sér tengsl einhvers við eitthvað annað og það er nákvæmlega það sem einsagan vill ekki sjá - eingin tengsl við stofnana- eða yfirlitssögu.

    Auðvitað gera sagnfræðingar sér grein fyrir takmörkunum heimilda, það hafa þeir alltaf gert. Það eitt að texti sé gamall gerir hann ekki átómatískt trúverðuglegan. Hér get ég vísað í sjálfan mig, greinin ,,Kvikfjártalið 1703 í Árnessýslu" sem birtist í Árnesingi VII (2006) bls. 147-182, á síðu 149-150 met ég trúverðugleik þeirra frumheimilda sem ég var að vinna með þá stundina. Munurinn er sá að ég þarf ekki að blása sjálfsögð sagnfræðileg vinnubrögð sem einhverja árans -isma.

    Því má samt ekki gleyma að aðferðir einsögunnar geta gagnast, tempri maður uppreisnarandann ögn. Það sem er hvað hættulegast við einsöguna á Íslandi er trú fylgismanna hennar á að hún sé e i n a rétta sagnfræðilega aðferðin, ekki bara eitt tæki sem sagnfræðingurinn getur gripið til þegar það á við.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 12:05 e.h.  

  • Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    Sagði Blogger Palli, kl. 4:20 e.h.  

  • Efnislega get ég ekki gert athugasemdir við pistilinn þareð ég treysti mér ekki til að ráða fram úr málsgreinum á ensku.
    En hvað varðar athugasemdirnar; er það ekki, Gunnar, þannig, að samhengi einhvers ræðst af því hversu margt er hægt að setja það í samhengi við? Og þar af leiðandi að eftir því sem brotin eru færri til að tengja eitthvað við, því skakkari verður tengingin?
    Er þá möguleiki á því að Sigurður Gylfi Magnússon hafi í raun séð þann kost vænstan að gefast upp fyrir hinu ófullkomna og loðna, og sníða sér stakk eftir vexti, stakk sem hlýtur eðli síns vegna alltaf að smellpassa?

    Sagði Blogger Palli, kl. 4:31 e.h.  

  • Og eitt enn, áhugans vegna: „Því má samt ekki gleyma að aðferir einsögunnar geta gagnast, [...]"
    Hvenær er breiðsagnfræðingum stætt á að notast við einsögu?

    Sagði Blogger Palli, kl. 4:35 e.h.  

  • Breiðsagnfræðingur, það er gott orð. En hvað síðari athugasemd þína varðar, Páll, þá vil ég segja þetta: Það er ekki endilega "rángt" að rannsaka eitthvað fyrirbæri samhengislaust, það getur gefið skemmtilega sýn á viðfangsefnið og brotið upp umfjöllunina. En menn sem skipa sér í flokka og berjast fyrir sínum eina og rétta og sanna málstað, hafandi séð ljósið og sannleikann, þá ber að varast.

    Ég tala því hér fyrir millivegi og því að fólk geri sér grein fyrir takmörkunum sínum og öllum mannanna verkum.

    Það leiðir hugann að öðru: póstmódernistar segja sannleika ekki til, samt prédika þeir sínar aðferðir sem hinar einu og sönnu. Kúnstugt.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 4:42 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða