Lesnir;

23.6.06

Ógeymi veraldar

Atli stóð í dyrum úti, ok var hann veginn af manni nökkurum, sem deildi við hann af einum langási. Reiddi hann burt ásinn.
- Þar með endaði sá kapituli. [innskot Grunnavíkur-Jóns.]

Af Atla þessum er ekkert meira sagt. Né heldur af manninum sem vó hann.
Atburður sem eitt sinn átti sér stað, er nú okkur aðeins kunnur sem undarleg klausa í upphafi Heiðarvíga sögu, án samhengis við þekkt framhald hennar.
Atli, sem eitt sinn var, og var síðan veginn, er nú meðal vor, óþekktur nema af nafni og af sínu eigin vígi.
Þetta leiddi huga minn að hverfulleika tilverunnar, eða öllu heldur ógeymanleika hennar. Fólk eyðir æfinni í að lifa og hrærast, tekur þátt í atburðum og síðan stendur sáralítið eftir. Frá landnámi hefur rúm milljón Íslendinga verið uppi, og hvað munum við, sem nú höldum uppi samtíðinni? Við munum og þekkjum Jónas frá Hriflu, Þuríði sundafylli, Áshildarmýrarsamþykkt og Jón sultu – en hvar eru allir hinir? Megnið af Gauki á Stöng er horfið, og um mestallan fjöldan er lítið hægt að segja – við vitum ekki einu sinni hvað þau hétu.
Þetta á fyrir okkur öllum að liggja. Í framtíðinni mun enginn vita hvað við, sem nú störfum og lifum, höfðumst að. Nema kannski eitthvað sitji eftir, en það verður þá varla neitt nema í líkingu við margendurljósritaða mynd; í raun afrit af frumeintaki, en frábrugðið, brenglað, óþekkjanlegt.

Maðurinn, ólíkt dýrum merkurinnar, veit gjörla að hann að endingu deyr. Og nú um stundir, ólíkt frumáum okkar, vitum við að heimurinn er ekki sístöðugur. Það m.ö.o. er ljóst að jafnvel þó að eitthvað standi eftir sem minning um gerða hluti og menn, þá kemur að því að allt hefur verið gert í hinzta skipti, og ekkert skiptir lengur neinu máli. Að endingu hlýtur svo allt að verða étið af einhverju svartholinu.

- Það var fyrir nokkrum árum að ég gekk yfir Fimmvörðuháls með ferðafélagi. Eftir hressandi dag áðum við yfir nótt í Höskuldarskála ekki langt frá hálshryggnum. Bróðir fararstjórans kom manna þreyttastur inn, og má það hafa verið af því að hann burðaðist ásamt öðru með væna koníaksflösku. Hann tók þá til við að stauta fram úr brík með höfðaletri, sem stóð þar uppi í skálanum. Kennslukona nokkur í ferðahópnum snarhjálpaði honum, og las: „Lífið er stutt en listin er löng.”

Þetta tel ég vera góða speki. Allt er hún mér í senn – djúp huggun, skær leiðarstjarna í starfi og biturt vopn gegn endanleika heimsins.
Það er nú samt svo að speki þessi finnst mér leiða til þess að eitthvað þurfi maður að gera. Alltént finnst mér ekki hæfilegt að liggja í bœlinu alla daga og segja sem svo að maður óttist ekkert, því að þó að lífið sé stutt, þá sé listin löng.
Og þetta setur á mann, að mér finnst, nokkra kvöð – segja má, að lífið sé stutt, og listinn langur.
Enn er eitt sem má draga af löngulistarspekinni; það í raun skiptir ekki máli hvort listin er stundleg eða ekki. Lag sem er spilað og hljómar ekki lengur en sitt eigið bergmál og ekki heyra fleiri en flytjandinn er jafngilt lagi sem er geymt á snældu eða sem þúsundir heyra í útvarpi. Kvæði flutt með skálarræðu fyrir fimm manns og gleymist svo, er á sama hátt jafngilt margprentuðu og víðlesnu ljóði.
Þetta opnar fyrir möguleika á meiri einatviksgerð, t.d. því að gefa út einnota hljómplötur, bækur sem hægt er að nota í annað eftir að búið er að lesa þær, og þar frameftir götunum. Ef við viljum á annað borð njóta þess sem hefur verið skapað, er rétt að dvelja ekki lengur við það en þarf.
---
Einsog áður var getið, er tilveran endanleg, bæði til skemmri og lengri tíma litið. Maðurinn hefur frá öndverðu verið að berjast gegn því, aðallega með eigin framlengingu í einhverskonar tilurðarformi eftir dauðann. Fornmenn sögðu:
Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama.
En orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur.
Það er nokkuð til í því. Meiður af sama stofni eru minningargreinar í blöðum og tímaritum.
Í framhaldi af þessu mætti athuga minningarútsendingar í útvarpi. Þangað gæti fólk hringt og beðið um lag eða eitthvað ámóta til minningarauka um einhvern látinn. Þannig myndi um stund framlenging mannsins öðlast útvarpsbylgnavængi og dreifast um land og mið frá Gufuskálum og Eiðum.
Því að fyrst við getum ekki svo auðveldlega framlengt okkur í tíma, verðum við að gera það í rúmi.

4 skilaboð:

  • Ertu farinn að breima, Páll?

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 1:52 e.h.  

  • Já, ég gleymdi besserwisseri dagsins: Vita brevis, ars longa. Þetta er ægigamalt, Hippókrates sagði þetta og átti við læknislistina - enda er hann þekktur sem faðir þeirrar listar. En Seneca snaraði þessu yfir á latínu og var það í ritinu de brevitate vitae, um hið skamma æviskeið.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 1:58 e.h.  

  • Þetta þykir mér merkt(,) en það er ekki laust við að mig fylli lundarþyngsla við; eða hugss.

    Heimir

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 8:46 e.h.  

  • Juujuu, lundarthygsli hljouta vissulega ad spila inn ii ars longa.
    hehe.

    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 6:02 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða