Lesnir;

24.10.05

Ferðasaga frá Bayern

Aðdragandinn.

Belginn Sebastiaan [svo!], sem sat sama Erasmuskúrs og ég, þekkir eldri hjón, Manfred og Hannelaure Lutz, sem búa í suður-Bayern. Þau eiga íbúð í Alpaþorpinu Oberammergau sem þau leigja túristum. Sjálf búa þau í Peißenberg. Þar sem Sebastiaan er fjölskylduvinur buðu þau honum íbúðina eina nótt endurgjaldslaust, og Manfred, sem þekkir Alpana betur en nokkur annar (næstum því), bauðst til að vera leiðsagnari okkar í fjöllunum.

Föstudagurinn 21. október 2005.

Áður en lagt er af stað í fræg ferðalög er mikilvægt að borða vel. Því hittumst við fjórir Erasmußar á föstudagskvöldinu og átum pólskt bigosh. Hef ekki hugmynd um hvernig það er skrifað. Um og eftir átið þurfti auðvitað mikið að spjalla, og ég fór heim um kl. 23:30 til að sækja dótið mitt. Við höfðum ákveðið að auðveldast væri ef ég gisti heima hjá Sebastiaani, því hann á heima rétt hjá lestarstöðinni en ég lengst í norður-Tübingen, og það ganga engir strætóar kl. fjögur um nótt (lestin okkar fór kl. 4:36). Ég sumsé hjólaði upp þessa gífurlegu brekku heim, pakkaði og hjólaði niður aftur. Það var miklu auðveldara. Við náðum semsagt ca. þriggja tíma svefni og svo var lagt í hann.

Kofel

Laugardagurinn 22. október 2005.

Við þurftum að skipta um lest í Stuttgart og Augsburg. Ég var sofandi þegar við fórum í gegnum landamæri Baden-Württemberg og Bayern, sem eru rétt austan við Ulm (þar sem Einstein fæddist). Í lestinni frá Stuttgart til Augsburg voru pönkarar, sem voru mikið að velta því fyrir sér hvort einn þeirra þyrfti að æla (Musst du kötzen oder was?) og og einn var afar upptekinn af því hversu langur tími liði þar til hann kæmist heim til pípunnar sinnar. (Ich kann höre meine Pfeife schreie nach mir!) Frá Augsburg til Weilheim (hvar Manfred sótti okkur) fór afar smá og hægfara lest í gegnum afar fallegt Bayverskt landslag, og í fjarska sáum við Alpana kalla á okkur, líkt og pípan á pönkarann. Veðrið var með besta móti, léttskýjað og milt. Við komum til Weilheim rétt fyrir tíu. Manfred beið á brautarpallinum og blessunarlega tók hann strax fram að ég þyrfti ekkert að þéra hann, við værum að fara saman á fjöll og þar þérast menn ekki. Manfred á afar töff bíl, nítján ára gamlann BMW 324 d M, hvítan, ekki keyrðan nema ca. 120 þúsund. Við fórum sumsé til Peißenberg þar sem Hannelaure beið eftir okkur. Þar hitti Sebastiaan líka foreldra sína, sem voru að koma úr fríi, þau höfðu, eins og svo oft áður, leigt íbúð Manfreds og Hannelaure. Hannelaure bauð uppá Bæverskt brunch, hvítar pylsur (sem verða að borðast fyrir kl. 12 á hádegi, annars eru þær ekki lengur ferskar), heimalagað sinnep, brezel og bæverskan hveitibjór. Þá fyrst fannst mér ég vera kominn til Þýskalands. Eftir þessa frábæru máltíð lögðum við, Sebastiaan, Manfred og ég, af stað til Oberammergau. Esja þeirra Oberammergaubúa er Kofel, 1342 metrar á hæð, en gangan hefst í u.þ.b. 800 metrum. Á það fjall gengum við. Ég segi Esja því það var mikil traffík á tindinum. Á Kofel er afar vel merktur stígur, með keðjum til stuðnings og hvaðeina, en það er auðvitað bara fyrir amatöra. Eftir að hafa gengið einhverjar tíu mínútur eftir stígnum segir Manfred: Hér er leiðin! Og beygir af stígnum og út í skóg med det samme. En það breytti engu, ég fékk skemmtilegri leið uppá fjallið (þ.e. klettaklifur án keðja) fyrir vikið. Mig grunar líka að Manfred hafi gert þetta til að sjá út hvað ég réði vð fyrir sunnudaginn. Þegar niður var komið skutlaði Manfred okkur í íbúðina, benti á skemmtilegustu veitingastaðina og fór. Ég át í bæheimskri sveitakrá Schweinenbraten með Knüdeln og Blaukraut og ljósan Franziskanabjór með. Afar bæverskt. Ég var svo sofnaður kl. níu um kvöldið, enda hafði dagurinn hafist 17 tímum áður, eftir einungis þriggja tíma svefn.

Sunnudagurinn 23. október 2005.

Ræs kl. 7, sturta og morgunmatur, og lagt af stað kl. átta til að sigra Kieneckspitz (1943 m.), Kienjoch (1953 m.) og Geissprüngkopf (1933 eða 1943 m.), þrjá tinda fjalls sem ég veit ekki hvort hafi eitthvert samheiti (mig grunar samt að það sé Kienjoch). Við lögðum í hann eitthvað fyrir níu og komum til baka nærri sex tímum síðar eftir eitthvað meira en 20 kílómetra hring á Kienjoch. Stóran part af leiðinni fylgdum við Königsweg, hestastíg sem var byggður fyrir Leopold II. (minnir mig) konung af Bayern á 19 öld. Hann er núna illgreinanlegur á köflum en afar góður engu að síður. Efst var samt minna um góðar götur, og á köflum var það eina sem var á milli mín og þúsund metra falls eitt fóthald og báðar hendur um lerkigreinar. Sem auðvitað er mikið stuð, eftir á. Við vorum einnig mjög heppnir með veður þennan dag, spáin hafði verið slæm, en það var sæmilega hlýtt og léttskýjað, enda gætti smá hnjúkaþeys um morguninn. En samt sem áður, eiginlega um leið og við komum niður af fjallinu og gengum að bílnum (ca. hálftíma-klukkutíma eftir vegi sem er eiginlega bara ætlaður fyrir hjólreiðafólk (og fótgangandi ef þeir eru ekki fyrir)), byrjaði að rigna. Það var sérstaklega skemtilegt við báðar þessar ferðir að í hvorugt skiptið var sama leið farin upp og niður, sumsé hringur. Þegar heim til Peißenberg var komið bauð Manfred uppá brauð með osti og pylsu og dökkan hveitibjór og arineld. Enda var maður hálf blautur og kaldur eftir rigninguna og þreyttur eftir gönguna. Svo kom Hannelaure heim, með eplaköku, sem var gerð góð skil. Síðan skutluðu þau okkur á lestarstöðina í Peißenberg hvar þau og við vorum kvödd með virktum og góðum þökkum fyrir frábæra helgi. Frá Peißenberg fórum við til Weilheim, frá Weilheim til Munchen (ég hef verið 20 mín. í Derricksborg!), frá Munchen til Memmingen, frá Memmingen til Ulm (ég hef verið 10 mín. í Einsteinsborg!), frá Ulm til Bissingen og frá Bissingen til Tübingen. Það er gaman að ferðast á stúdentaprís. Við vorum komnir heim kl. 00:23, 19 mínútum eftir að síðasti strætó fór heim, svo ég gisti aftur hjá Sebastiaani. Ræs klukkan níu á mánudagsmorgun, rokið heim og í skólann kl. ellefu.

Á milli Kienjoch og Geissprüngkopf

Mállýskan í Bayern.

Það er allnokkur munur á Schwabneskunni og málinu í Bayern. zwei er zwo, fünf er füf (füfuzwozig!), Tschüß gengur ekki í Bayern, þar er sagt ferty (hef ekki hugmynd um hvernig þetta er skrifað, en svona hljómar það) sem er stytting á guð veri með þér eða einhverju álíka, sem a.m.k. hljómar alls ekki eins og það geti styst í ferty. Ja er heldur ekki sagt í Bayern, heldur jo. Sumsé, afar skemmtilegt. Einnig er sagt Berg heil, þegar á tindinn er komið. Þegar göngufólk mætist á fjalli dugar engan veginn guten Tag. Servus er afar vinsælt, en þó meiri austurríska. Grüß Gott er einnig afar vinsælt. Það gengur líka sem guten Tag, og ekki bara í Bayern heldur líka í Baden-Württemberg, þó það sé útbreiddara fyrir austan. Í Bayern er ekki sagt bißchen fyrir eitthvað smáveigis heldur bißle, en ég hafði hingað til haldið að –le væri sér-scchwabnesk smækkunarending.

1 skilaboð:

  • Sebastiaan hast recht. Plochingen var thad. Ich war auch gar nicht sicher ob ich hatte das recht.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 9:23 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða