Lesnir;

9.8.05

Getraun II

Hver ritaði svo:

Aldrei sýnir menntan manna fagrari ávöxtu en þegar mönnum tekst að samlaga sig til að koma fram mikilvægum og viturlegum fyrirtækjum. Sérhver sá, sem þekkir náttúru mannsins, veit, hversu nærri sjálfsþótti og eigingirni liggur eðli hans og lýsir sér með margvíslegum hætti, sem bráðlega getur raskað eða sundrað félagsskap, ef menn vantar þann áhuga til að framkvæma tilgáng félagsins, eða lag það og lempni, sem kann að greina hið meira frá hinu minna og meta það mest, sem mest er vert. Á þessu verður því meira vandhæfi, þegar hugleitt er, að félagsskapur verður að vera byggður á jöfnum réttindum allra félagsmanna og hver einn þó að hafa svo mikið ráðrúm, að hann geti varið öllu sínu megni tilgángi félagsins til framkvæmdar, ef því yrði við komið. Eigi þvílíkur jöfnuður réttinda að haldast til lengdar, er auðsætt, að mikils hófs þarf að gæta á báðar hendur, svo enginn missi réttinda sinna og engum sé heldur bægt frá að vinna félaginu það gagn, sem hann getur unnið eða vill vinna.

6 skilaboð:

  • Ég myndi gizka á nítjándu aldar mann, heldur frá seinni hluta aldarinnar. Getur verið að þetta sé Þingeyjingur?

    Sagði Blogger Palli, kl. 2:25 f.h.  

  • Öldin er rétt en ekki árabilið. Hann er ekki Þingeyingur.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 9:52 f.h.  

  • Ný félagsrit eða Fjölnir og Jón Sigurðsson kemur strax upp í hugann. Ef textinn er birtur staftáknréttur myndi ég giska, eins og Palli, á seinni hluta aldarinnar (é andspænis è) en e.t.v. er ekki að marka þessa táknun. Orðmyndin 'fagrari' bendir aftur á móti ekki til ungs aldurs, þannig að ég giska hér á 1835-1845. So. missa stýrir hér eignarfalli, sem er sannarlega ekki ungt einkenni. Greinarmerkjasetning mjög niðurnjörfuð. Hreint mál og óbjagað.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 11:30 e.h.  

  • Þú ert sannarlega á réttri leið, Heimir. Nú er að skjóta á svarið, og ekki missa marks!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 8:16 f.h.  

  • Ég ætla að segja að þetta sé Jón Sigurðsson að skrifa í Fjölni.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 4:03 e.h.  

  • Ég verð að gefa rétt fyrir þetta, því ekki var spurt um ritið. Þetta er sem sagt upphaf ritgerðarinnar ,,Um félagsska og samtök" sem birtist í Nýjum félagsritum, fjórða ári 1844 en er prentuð í bókinni Af blöðum Jóns forseta, hverja Sverrir Jakobsson nýdoktor tók saman, en hún kom út árið 1994. Tilvitnunin er af blaðsíðu 255.

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 6:44 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða