Lesnir;

16.9.05

Svabverskir strætisvagnar.

Hér ætla ég að gera stutta grein fyrir strætisvagnakervinu [þetta var fullkomlega óviljandi, ég læt það standa] hér í hjarta Schwabíu, Tübingen.

Fyrir þau ykkar sem eruð vön gamla strætisvagnakerfinu ætti það að kæta ykkur að ég nem vagn nr. 5 í skólann, glíkt og svo margir stúdentar gerðu hér áður fyrr á Íslandi. Það er undantekning ef hann er ekki á áætlun (á virkum dögum gengur hann á 10 mín. fresti frá morgni til kvölds) og er alla jafna all margt fólk í vagninum. Það er ekki furða, þetta er ódýr og góður samgöngumáti. Ég, sem stúdent, borga fyrir septembermánuð 24 evrur (rúmlega 1800 krónur) og í október, þegar skólinn byrjar, borga ég ca. 35 evrur (rúmlega 2600 krónur) fyrir alla önnina. Eki þarf maður að sýna vagnstjóranum kortið, heldur gengur maður inn sem ekkert sé. Ef þú átt ekkert kort er sjálfsali, og kostar farið eina evru og áttatíu sent. Stundum er svokallaður Kontrolleur í vagninum, sem lítur á kortin hjá fólki, en slíkt hef ég enn ekki séð. Harmonikkuvagnar (þ.e. afar langir vagnar með svegjanlegum miðhluta) eru algengir, því svo margt fólk brúkar vagnana. Í vagninum sjálfum er skilti, sem á stendur hver næsta stoppistöð er, og hvort einhver hafi þrýst á hnappinn. Eins er hátalarakerfi sem segir hver næsta stoppistöð er, líkt og tíðkast í mörgum lestum erlendis. Vagninn fer sérlega menningarlega leið, fyrst framhjá Kunsthalle, eða listasal, svo Beethovenweg, eða Beethovenvegi (hliðargötur við þann veg eru t.d. Brahmsweg og Mozartweg), svo framhjá Botanischer Garten, eða grasagarði Tübverja, og þvínæst allmörgum Klíníkum, eða heilsugæslustöðvum, þar sem læknar framtíðarinnar nema sína list. Þá komum við að skólanum sjálfum. Hann er við afar fallega götu, Whilhelmstrasse, sem ég segi kannski frá síðar.

1 skilaboð:

  • Ég biðst forláts! að ég skuli ekki fyrir löngu vera búinn að skrá mínar hugleiðingar. Þetta fyrirkomulag sem þið eruð með þarna minnir um margt á vagnkerfið eins og það var hér í kringum 1950; vagninn gekk þá ávallt á fjórðungsfresti en ekki þriðjungs eins og nú, vagnstjóri tilkynnti hvert hann var kominn „Hlemmur! / Vogar! / Sund! / Hlíðar!“ og farþegar svöruðu „Já takk!“ þegar þeir vildu úr. Miklum mun er þetta viðkunnalegra heldren nú er, þegar vagnstjórar yrða vart á farþega, við básinn nær rauðlogandi athugasemd: „Ónáðið ekki vagnstjórann“ svo maður þorir varla að bjóða góðan dag, hvað þá meira.
    Síðan er það verðið; ég greiði 2600 krónur á mánuði fyrir mínar ferðir - sem þó eru áreiðanlega bæði stopulli og strjálli en þær sem þarna eru í boði. Við eigum langt í land...

    Meira af hversdagslegum tíðindum frá Dojdslandi, takk.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 6:53 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða