Lesnir;

31.10.04

A - Z, A - Ö

Nú er árið 2004.

Fyrir 30 árum var seta (áður stafsett: zeta) felld brott úr íslensku ritmáli. Þetta kallaði vitaskuld á ýmsar breytingar. Til dæmis þurfti að endurskoða allar kennslubækur með tilliti til stafsetningar, Biblíuna, og allt það sem styrkt var af ríkinu. Höfundar urðu sömuleiðis að skipta um stafsetningarsið til að draga tungumálið ekki of áþreifanlega inn í heim verksins. Langflestir hafa því hætt að nota þetta tákn í skrifum sínum og Z því í raun orðin umfröm og óþörf.

Ég veit ekki hversu gömul íslensk hnappaskipan á hnappaborðum er en það hlýtur snemma að hafa komist sú regla á staðsetningu hnappanna sem nú er. Að minnsta kosti er greinilegt að hún er eldri en stafsetningarbreytingin 1974 því Z er gert býsna hátt undir höfði. Eða er ég einn um að finnast helst til kjánalegt að hafa Z rétt í námunda við heimaröðina asdf en Ö þarna einhvers staðar lengst uppi? Með brottnámi setunnar tók hún nefnilega stökk frá því að vera notuð mjög oft yfir í að vera notuð alls ekki neitt.



Ég legg því til að þessu verði breytt: Z verði kastað þangað sem Ö er, og Ö komið fyrir þar sem Z er nú, rétt fyrir neðan A; rétt í seilingarfjarlægð. Þetta er 100% rökrétt meira að segja í málsögulegu samhengi, því eins og allir vita skiptast þessi tvö tákn, A og Ö, oft á í einu og sama orðinu: kÖttur, kÖtt, ketti, kAttar; kettir, ketti, kÖttum, kAtta. Jafnvel fyrir hinum venjulega leika málnotanda ættu þessi ættartengsl - já, bræðrabönd! - að blasa við.



Ekki mun ég nú ganga svo langt að hvetja alla til að breyta þessu á tölvum sem þeir koma nálægt en þessu má vel velta fyrir sér. Það er ekki sjálfgefið að allt sé best eins og það er. Verum óhrædd við breytingar.

(Og svo sem innan sviga, þá er spurning hvort Z, og raunar Q, W og C, eigi nokkuð heima yfirleitt á sérstökum hnapp á íslenska hnappaborðinu. Nóg eigum við nú af sértáknum sem tilvalið væri að setja þarna í staðinn og stórauka þannig aðgengi að þeim.)

4 skilaboð:

  • Vefur fyrir húsmæður, takkaborðsnörda og leiðinlegt fólk. Ætli bingóþátturinn og Bingókvöld fari að auglýsa hér?

    Jón leiðinlegi

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 2:17 f.h.  

  • Mér fannst þetta mjög skemmtilegur pistill, sem gefur mér mjög margar frjóar hugmyndir sem getur tekið mig langan tíma að vinna úr, svo að þetta er í raun mikill hvalreki fyrir hið skapandi vitsmunalíf mitt.
    Páll jákvæði

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 3:16 e.h.  

  • Auðvitað er þetta rétt hjá þér Heimir, en er þetta hægt í okkar glóbalíska samfélagi?

    gémarel

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 6:08 e.h.  

  • Breytingin sem ég legg til felur í raun ekki í sér fækkun á aðgengilegum táknum, heldur umröðun sem hentar betur íslensku málsamfélagi. Hugmyndin sem ég viðra í lokin - brottvísun c, w og q - væri aftur á móti ógn við alþjóðasamskipti. Það er a.m.k. kostur fremur en galli að geta skrifað ensku og íslensku samtímis án þess að þurfa að quickswitcha milli þeirra.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:57 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða