Lesnir;

29.10.04

29. október

Kæru lesendur.
Nú þegar Lesnir hefur hafið göngu sína er ekki úr vegi að skýra nafnið. Það hefur jú margræða merkingu; í fyrsta lagi þá að við séum lesnir af öðrum, í öðru lagi að við séum vel lesnir sjálfir, í þriðja lagi er Lesnir nafn, myndað af sögninni, svipað og Sleipnir og Heimir og Jólnir.
En nú er ég bara með andlegt harðlífi. Heimir er í vísindaferð og verður líklega ófær um að skrifa nokkuð gáfulegt út helgina, nema þá að morgunógleðin blási honum einhverju sniðugu í brjóst.
Annars eru tengsl harðlífis og skrifta nokkuð margslungin. Sjálfur er ég ekki með eiginlegt harðlífi, heldur aðeins heilbrigða stíflu. Það eina líkamlega sem hrjáir mig núna er það að ég þarf að hætta að nota mjólk út í kaffi, annars súrnar mjólkin á milli tannanna ef ég bursta ekki tennurnar.
---
Blogg dagsins hef ég hugsað mér að vera örlitla hugleiðingu um dauðdaga ýmissa kappa.
Flestir núlifandi kappar eru ekki enn dauðir. Við eigum enn eftir að sjá með hvaða hætti dauði þeirra verður. Ef til vill deyja þeir úr elli, eða sjúkdómum. Þeir sem deyja af slysum eða við hættuleg störf eru jafnvel kappar fyrir það eitt. Og það er ekki amalegt fyrir þann sem deyr þannig að vita að hann verður ekki bara syrgður, heldur líka mærður.
Frægustu menn í byrjun 20. aldar dóu flestir úr kynsjúkdómum, enda lagðist lítið fyrir þá.
Helzt eru það fornmennirnir sem hafa dáið undarlegum dauðdögum. Rólant sem vann Rúnsivalsbardaga dó úr þorsta.
Enn fleiri hafa samt dáið úr ofdrykkju. Fornkonugar Norðurlanda voru sérlega miklir drykkjumenn. Skrá er til yfir dauðdaga Svíakonunga frá því að Freyr frjósemisguð dó eðlilegum dauðdaga.
Sonur hans, Fjölnir var í veizlu á Sjálandi. Eina nóttina fór hann að kasta af sér vatni, en á leiðinni aftur datt hann milli hæða og ofan í mjaðarkerið, þar sem hann drukknaði. Sveigðir sonur hans, lét dverg ginna sig inn í stein. Hann sást aldrei síðar. Vanlandi sonur hans dó úr martröð.
Margir Svíakonungar dóu þó á venjulegan hátt; ýmist hengdir af öðrum konungum, af konum sínum, úr sótt eða þá að synir þeirra brenndu þá inni.
Einum konungi sínum, Dómalda, blótuðu Svíar sér til árs, því að óár höfðu verið. Þetta snarvirkaði. Þeir hengdu hann uppí tré.
Einn konungur, Dagur spaki, dó þegar hann var að hefna gæludýrs síns á Jótlandi. Hann átti semsagt spörfugl, sem eitt sinn var að tína sér korn á akri á Jótlandi. Bóndinn kastaði í hann grjóti og drap hann, sem Dagur fór svo að hefna. Í miðjum hernaðinum skaut þræll nokkur að honum heykvísl, svo að dagur datt af baki og dó við fallið.
Alrekur og Eiríkur Agnasynir voru konungar saman. Þeir voru hestamenn miklir, og fóru eitt sinn í útreið, en fundust svo báðir dauðir, með beisli hesta sinna í höndunum. Menn gátu sér þess til að þeir hafi farið að slást með þeim af hestametingi.
Egill hét einn, sem var rekinn í gegn af óðu nauti, annar Aðils, sem féll af baki innanhúss og hausbrotnaði, og enn einn Ingjaldur sem brenndi sjálfan sig inni.

Hvað getum við svo lært af þessu?
Ég tel að það megi læra af þessu að eigi maður val um bjór eða hitt, þá sé betra að drekka.

Palli.