Lesnir;

26.10.08

Spunameistari ríkisins – ekki meir, ekki meir!

Nú um stundir boða fyrrum boðberar sk. „frelsis“ hér á landi helsi af alverstu sort, helsi hugans. Þeir segja ekki tímabært að leita sökudólga, og vilja með því takmarka frelsi okkar til athafna og réttmætra gjörða.

Þá sjaldan þeir hafa misst út úr sér orð eða tvö um sekt og ábyrgð hefst skemmtileg hringekja. Seðlabankinn segir „ekki ég“, heldur útrásarvíkingarnir. Útrásarvíkingarnir segja „ekki ég“, heldur stjórnvöld. Stjórnvöld segja „ekki ég“, heldur útlenzka fjármálakreppan. Þar með bera allir og enginn ábyrgð, og hún, sem var svo mikil þegar þeir sátu sveittir við að skaffa sér laun, sést ei meir. Allir sitja á sínum stólum sem fyrr.

Barnaleikur einn kemur upp í hugann þegar þetta er skoðað: Hver stal kökunni úr krúsinni í gær? Ha, ég? Ekki satt. Hann stal kökunni úr krúsinni í gær! Og þannig heldur hringekjan áfram hring eftir hring.

Þessi leikur er bæði einfaldur og afar gagnlegur. Almenningi er snúið í hringi og einfaldar sálir sem „einblína á einn sökudólg“ og stunda „nornaveiðar“ sjá ekki heildarmyndina: Allir eru sekir. Allir þurfa að víkja, missa æruna, embætti og stöðu sína í samfélaginu.

Þessi óaugljósa blanda sektar og sakleysis kristallast ágætlega í einni dæmisögu. Þegar sá sem ber ábyrgð á pólitískri einkavæðingu bankanna, án þess að því fylgdi skýr lagarammi, með afleiðingum sem nú eru öllum kunnar, reyndi að hemja þá gengdarlausu misnotkun fjölmiðlanna sem viðgengist hefur, var þeirri sömu áróðursmaskínu beitt á snilldarlegan hátt (Goebbels hefði orðið hrifinn) og almenningur snerist á móti takmörkunum eignarhalds, og aðalklappstýra auðmannanna neitaði að skrifa undir lögin. Þessi staðreynd hvítþvær engann. Eins og fyrr segir: Allir eru sekir.

Hvers vegna er áðurnefnd hringekja sett á stað? Svarið er nokkuð augljóst, til að halda annarri stærri hringekju smurðri. Það er sú hringekja sem nú hefur nú keyrt í kaf, hringekja einkavæðingar stofnanna sem starfa í almannaþágu, síversnandi almannaþjónustu, ofureigna örfárra, þyngingu skuldaklafa neyzlugraðs almennings; með öðrum orðum: viðhald hins sama hugmyndafræðilega þrælahalds og viðgengist hefur undanfarin ár.

Í landinu er félagafrelsi svo ekki gengur að banna Sjálfsóknarflokkinn. Því er okkur frjálst að kjósa hann og viðhlæjendur hans, Framasókn og Sankfylkingu. En með því erum við að aðstoða við að smyrja þá vél sem bundið hefur hugsun okkar og gjörðir; með fyrirsjáanlegum þeim afleiðingum sem öllum eru kunnar, og koma regluglega í ríkjandi kerfi, óðaverðbólgu og gjaldeyrisskorti.

Og hvað er þá til ráða? Svarið er nokkuð augljóst. Koma þarf á kerfi sem ekki er byggt utan um peninga, auðsöfnun, græðgi, takmarkalausan vöxt. Koma þarf á kerfi sem tekur tillit til manneskjunnar, með velferðakerfi sem ekki hefur hagnað sem grunneiningu, og tekur tillit til þarfa mannsins fyrir menningu og andlegt líf, og án þess að lægstu hvatir forðasöfnunar ráði stjórnvöldum og fjölmiðlum. Einnig þarf að hyggja að stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Sú staða er tryggust í sem nánustu samstarfi við nágranna okkar á Norðurlöndum. Ef það svo sýnir sig að íslenzka krónan þjónar ekki hlutverki sínu lengur má taka aftur upp það kerfi sem komið var á fót 1873, þegar Norðurlandaþjóðirnar lögðu niður ríkisdali og aðrar myntir og tóku upp krónur, sem voru bundnar sama gengi.

4 skilaboð:

  • Ég hlýt í þessu samhegni að hvetja til þess að Tíminn verði endurstofnaður.
    Samvinnustefnan gæti líka átt þátt í uppbyggingu næstu ára.
    Palli

    Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 10:08 e.h.  

  • Já, ég tek undir síðustu athugasemd. En annars Gunnar, varðandi titilinn á pistlinum; eitthvað hljómar þetta mjög kunnuglega, og kveikti hjá mér nokkra kátínu, þegar ég sá. Hvaðan kemur hið upprunalega (var það ekki húsameistari ríksins?)

    Sagði Blogger Palli, kl. 8:23 f.h.  

  • Ha, jú. Titillinn er fenginn að láni frá Steini Steinari:

    ---
    Hallgrímskirkja (líkan)

    Húsameistari ríkisins
    tók handfylli sína af leir
    og horfði dulráðum augum
    á reislur og kvarða:

    51 x 19 + 18 / 102,
    þá útkomu læt ég mig
    raunar lítils varða.

    Ef turninn er lóðréttur
    hallast kórinn til hægri.
    Mín hugmynd er sú,
    að hver trappa sé annarri lægri.

    Húsameistari ríkisins
    tók handfylli sína af leir,
    og Hallgrímur sálugi Pétursson
    kom til hans og sagði:

    Húsameistari ríkisins!
    Ekki meir, ekki meir!

    Sagði Blogger Gunnar, kl. 10:15 f.h.  

  • Þetta er með miklum ólíkindum, allt saman. Ég sé fyrir mér þá ágætu lausn að Íslendingar sjái okkur hér í nafla alheimsins fyrir ódýru rafmagni og fiski. Svo ekki sé nema í refsingarskyni fyrir græðgina. Auðvitað verður aldrei gengið inn í Evrópusambandið nema Ísland --- öðru nafni Sjálfstæðisflokkurinn --- geri einvörðungu að hagnast á því, en allir aðrir tapi.

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 7:29 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða