Lesnir;

20.10.08

Blessuð síldin

Telpa ein spurði um síld. Hún sagði: Ég er að skrifa ritgerð um síld og mig vantar að vita hverjir eru óvinir hennar? – Ég læt ekki undir höfuð leggjast að svara. Svar mitt er svona:

Blessuð síldin, sem syndir óravegu silfurhreistruð og fögur um hina dýpstu sjói, og syndir í hópum og torfum, og hver síldin horfir á aðra með opin augun af því að þeim vill hún aldrei loka, ekki einu sinni þegar hún deyr, og engin þeirra hefur nafn.
Óvinir hennar eru margir. Sjómaðurinn sem stendur á skipinu sínu og horfir í sjóinn og hugsar með sér hvað síldin sé góð og allt fólkið verði glatt þegar það fær síld að borða yfir veturinn því þá er hún bezt og kýrnar sem fá mjölið í tunnum og í fjósinu þannig að reykurinn stendur úr grönunum. Sömuleiðis ærin sem eru svo þreytt á vorin eftir að hafa átt lömbin, en á samt eftir að mjólka ofaní þau allt sumarið og fram í haust. En sjómaðurinn er ekki óvinur síldarinnar. Hann elskar hana og ber hag hennar fyrir sínu eigin glaða brjósti.
Ýsan sem horfir daufum augum yfir botninn og finnur svo vel fyrir öllum sjónum í gegnum svörtu röndina á síðunni. Hún étur egg og seiði síldarinnar, en þekkir hana ekki þegar hún verður stór. Þegar síldin og ýsan mætast horfir síldin á ýsuna, og veit að hún gaf henni líf, með því að éta hana ekki í æsku. Þessvegna hatar síldin ýsuna. – Ýsan virðir ekki síldina viðlits.
Marglyttan syndir slímug um sjóinn og deyðir ótal af litlum seiðum, sem ennþá vita jafn lítið um sjóinn og marglyttan sjálf. Hún veit ekki einusinni að hún er til, þar sem hún fálmar með eitraðan faðm sinn. Og hver getur því láð henni, að hún drepi lítil síli, svosem í ógáti?
Allir fuglarnir í fuglabjörgunum; lundi, álka, langvía, rauðfætta teistan, geirfugl, fýll og rita, og drottning sjófuglanna – súlan – éta ókjör af síld. Eftir því sem hún kemur nær hafborðinu, þar sem er bjartara og hlýrra, eru fuglarnir nær því að veiða hana í sín beittu nef. Þeir hremma hana og halda, og sporðrenna svo við tækifæri í einum teyg. Þegar fuglinn flýgur af bjarginu og yfir sjóinn, finnur hann brátt stað, þar sem krökkt er af síld undir niðri. Hann þarf ekki nema að rétt seilast undir þunna skel sjávarborðsins, og þar bíða hans síldir í þúsundatali. En það er dimmur heimur, og fuglinum óþekktur, nema sem uppspretta silfraðra gnægta. Einsog gráðugur og sjálfumglaður pelíkani belgir hann sig út af síld, og hugsar ekki meir um það. Svona eru fuglar syndlausar skepnur. Síldin hinsvegar sér aldrei fuglinn, bara veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið fyrren hann hefur náð henni.
Í hafinu búa margir hraðsyndir fiskar. Það eru blóðrík og straumlöguð makríli og túnfiskar, bröndóttir svo að bráðfiskarnir eigi verr með að sjá þá. Það eru líka kaldhjarta fiskar með þvag í vefjunum; hákarlinn og hámerin. Þeir stinga sér í síldartorfurnar og háma í sig því sem þeir ná. Stundum nær síldin að víkja sér frá, því að torfan veit öll hvar veiðifiskurinn kemur að henni. Hinir hraðsyndu fiskar haga sér að öllu leyti einsog naut, sem ólmast og stangar heysæti og þeytir því í loft; þeir synda í allskyns krókum og sveigja sporðinn gegnum vöðuna. Þessum leik hafa þeir gaman af – og síldin víkur sér fimlega frá.
Selurinn býr við sjóinn. Líka hann sækir í síldarvöðurnar. Öll torfan veit af honum, en hann veit líka af henni í gegnum sitt ofurnæma hvoftaskegg. Þegar hann svo kemur úr kafinu rís ekki nema hausinn úr sjónum. Þá hefur selurinn mannsaugu. Er hægt að áfellast sel með mannsaugu?
Frændi selsins, hin skjótti háhyrningur, étur síld. Vopnaður fjöldamörgum tönnum siglir hann gegnum höfin blá, þartil hann finnur göngukorn af síld. Í grimmd sinni smalar hann henni saman með því að synda hring eftir hring kringum torfuna, þrengra og þrengra, æ krappara. Þá slær hann öflugum sporðinum í safnið og rotar síldina til dauðs. Háhyrningurinn er þó varla óvinur síldarinnar. Það eru bara djúplæg svengd og þorsti háhyrningsins sem birtast í þessu grimmdarlíki.
Og síldin gengur endalaust um sjóinn, allt eftir því hvar henni líkar best.

Óvinur síldarinnar er ég.
Þegar ég keyri á fjöruna með risastór gúmídekk undir bílnum er ég óvinur síldarinnar. Þegar ég stend uppi á hólnum og yggli mig út í sjóinn og veðrið, er ég óvinur síldarinnar. Þegar ég ríð ofan eftir garði svo snarpt að allar kindurnar hrökkva í burtu. Þegar ég kyndi svo hratt að ég ég sé ekki hvert ég er að fara fyrir gufu og þegar snjórinn fyllir vitin í æðisfenginni drífu, svo að ég strýk af andlitinu með berum lófanum. Þegar ég sit á ferð og finnst ég svo þungur að ég snerti ekki stýrið nema með þumlunum. Þegar droparnir hrynja neðan af þakskegginu einsog af augabrúnum mínum, og ég stend og horfi eftir endilangri götunni.
Ég – er óvinur síldarinnar.

1 skilaboð:

Skrifa ummæli

<< Forsíða