Lesnir;

6.6.09

Holland gefur Íslandi 76.418.100.000,- kr.

Jæja, minna mátti það ekki vera ...

Sú frétt sem mest var lesin í dag á hollensku fréttasíðunni www.nu.nl fjallar um væntanlegan samning vegna Icesave (sjá hér).* Fyrirsögnin er þýdd og staðfærð hér að ofan en hljóðar svo í beinni þýðingu: „Holland færir Íslandi 440 milljónir evra að gjöf.“

Hinni annáluðu sparsömu og aðhaldssömu hollensku þjóðarsál er þetta að vonum mjög sárt. Þjóð sem þekkt er fyrir að smyrja með sér nesti hvert sem hún fer, taka með sér kartöflur í ferðalög til útlanda, greiða aldrei uppsett verð og leifa engu ef það var ekki ókeypis.

Fer ekki umburðarlyndi í ljósi mannréttindasáttmála og almennra friðaryfirlýsinga að jaðra við bælingu? Eða búa mennskar hvatir hér að baki, pólitískar?

*) Reyndar kemur ekki annað fram í fréttinni en að þetta samkomulag hafi verið gert og feli í sér að Ísland hafi 15 ár til þess að endurgreiða Hollandi 1,3 milljarða evra, þ.e. greiðslu fyrir fyrstu 20 þúsund evrurnar á Icesave-reikningunum. Restin fellur á Holland, sem alkunna er, sbr. yfirskriftina, og þykir mörgum óréttlátt. Í annarri tilkynningu kemur einnig fram að þetta samkomulag sé bindandi eða endanlegt (definitíft), sbr. hér, ólíkt því sem lesa má í íslenskum fjölmiðlum þar sem þessa samþykkt á enn eftir að samþykkja.

1 skilaboð:

  • Spurningin sem brennur á mér er sú hvað Holland „græðir“ á þessu fyrirkomulagi. Nú kemur fram í íslenskum fjölmiðlum að um eins konar málamiðlun sé að ræða m.a. vegna Bretlands og beitingu hryðjuverkalaga; því séu vextirnir lægri. En hvernig snýr það þá við Hollandi? Þar er um sömu vexti að ræða en engin „óeðlileg“ afskipti --- önnur en þau að hollensk fjármálayfirvöld höfðu víst samband við Landsbankann og báðu hann vinsamlegast um að draga úr geipilegri auglýsingaherferð sem hér var ráðist í (mér var meira að segja sagt að Icesave-plaköt hefðu verið sett upp við aðalbyggingar Trektar-háskóla, strætóskýli og þess háttar (auk sjónvarps og útvarps), en ég varð a.m.k. ekki var við þau í grennd við húmanísku deildirnar).

    Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 9:58 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða