Lesnir;

25.11.10

Á gangi í ársfjórðung

Haust: safaríkt og gult. Fyrir framan gluggann á herberginu okkar er heimreiðin með runnum og illgresi. Það minnti helst á dvergvaxinn hitabeltisskóg. Allar götur og stræti voru blautar og skítugar, líka á malbikinu. Trén stóðu sumpart ennþá með laufum; hvítar bjarkir með gulum og grænum blöðum; sum reynitrén klæddust blóðmöttum haddi, önnur voru eld-gul, hin gul og örfá með allt laufið fokið burt.
Dag nokkurn gekk ég eftir Rósu Ljuksemburg-stræti. Það var ánægjulegt að labba á trébrúnum, sem eru til þess að ganga á meðfram götunum. Sumstaðar voru plankarnir harðir og traustir á milli stöplanna, annarsstaðar dúaði undan fæti, og kvenfólkið arkaði með svip, sem gaf til kynna að þeim bæri stöðugri hluti brúarinnar. Allstaðar kom uppúr jörðinni lyktin sem mér líkar svo vel - lykt af ferskum fúa og myglu, einsog kemur oft eftir langar rigningar og svalt veður.
Þá sá ég líka skjó uppi í birkitrjánum; hann klúkkaði eitthvað með hásri rödd og flaug tré úr tré. Skjórinn lyfti sér fagurlega upp í krónuna, í hægum þokkafullum sveig, einsog hann væri með þungt stél líkt og raunverulegur páfugl. Ákaflega glæsilegur fugl, finnst mér. Þann dag var ég í einkar góðu skapi.
- - -
Í september voru inntökupróf í framhaldsnámið. Það hafði svosem enginn sagt að þau yrðu erfið, en samt töldu allir að það væri betra að vera vel undirbúinn. Annað prófið af þremur var heimspeki.
Sæmilega lærði ég, aðallega með því að lesa útprentaða svindlmiða. Prófið var kl. 12 í stórri kennslustofu sem hækkar um eitt þrep uppaf hverri sætaröð.
Nú, ég gekk inn og úlpu, kennslubækur og útprentuðu hjálparmiðana lét ég á hnitmiðaðan hátt á auðan stól fyrir neðan innganginn, og settist sjálfur í autt sæti fremst þar fyrir ofan, svo að hver sem vildi gæti séð að ég svindla ekki. Ég var í fallegri rauðri skyrtu, með góðan penna mér í hönd, og óttaðist ekki neitt. Snéri mér við og kastaði kveðju á árgangssystur mínar úr skógfræðinni, sem sátu þarna aðeins aftar.
Síðan hófst útdeiling prófmiða. Ég dró miða með tveimur spurningum; um tilurð og forsendur marxisma; og um kategoríurnar form og innihald. Ég sat og samdi gáfuleg svör; tíndi allt til sem ég vissi um þessa hluti og reyndi að gera úr því heildrænt og skiljanlegt mál. Fyrir aftan mig hvissaði í hjálparmiðum, hvískri og bókaflettingum. Ein kona sat og fylgdist með að enginn svindlaði; hún réði krossgátu með báðum augum á meðan.
Eftir klukkustund var komið að því að svara; fjórir kennarar komu inn og settust hver á sinn stað, og stúdentarnir gengu til þeirra eftir því sem verkaðist. Alls voru kannski um 50-60 manns í prófinu, og eftir að um það bil helmingurinn hafði svarað og gengið út, var mér farin að leiðast biðin. Þá losnaði sá kennaranna sem mér þótti fýsilegast að svara, og ég stóð upp með svarblöðin mín. Nema hvað, stökk þá ekki einhver hindin sem hafði hugsað það sama og ég, og varð fyrri til. Nú, en þar sat enn sjálfur skorarformaðurinn, doktor prófessor Kolosov, með arnarnef og ólundarsvip sem fór ágætlega saman við það.
Ég fór til hans og hóf lesturinn. Minntist á díalektík Hegels, orð Engels um materíalisma Feuerbachs, og tókst svo að koma því að, að Marx væri á Vesturlöndum varla talinn heimspekingur, heldur í mesta lagi klár félagsfræðingur. Alltaf þyngdist arnarnefið á prófessornum - ég frétti seinna að hann hefði á sovétárunum verið aðalritari héraðsstjórnar kommúnistaflokksins. Nú, ég lét móðan mása, og hann kinkaði ekki hið minnsta kolli, heldur bara ranghvolfdi augunum. Þá vildi hann næst heyra um form og innihald.
Ekki get ég sagt að ég hafi skilið hvað felst í þessum sk. kategoríum. Það eina sem ég vissi, var að form gæti ekki verið án innihalds, og innihald ekki án forms. Form væri í innihaldi, og á yfirguðlegan hátt, þá væri innihald líka í formi. Og svo framvegis.
Að lokum setti hann upp líkneskis-svip, og spurði:
- Hvað er innihald?
- Innihald? Uh, nú, innihald er fyrirbæri ...
- Fyrirbæri? Það er ekki fyrirbæri. Fyrirbæri er a l l t annað!
Og fór síðan í aðra sálma:
- Gætirðu sagt mér eitthvað meira um tilurð marxisma?
Ég nefndi Saint-Simon, en Kolosov skar á þann þráð:
- Jájá, hann kemur nú málinu ekki við: ég er að spyrja hér um sögulega nauðsyn tilurðar marxisma.

Á þessum augnablikum fannst mér einsog það væri raunveruleg hætta á að ég yrði felldur þarna, á þessari stund. Felldur af gömlum marxista með vax í hárinu. Á glæsilegan hátt hefði þarmeð verið sett þungt pottlok yfir stórkostleg námsafrek mín á næstu misserum.
Þvínæst fnæsti prófessorinn, muldraði eitthvað og skrifaði «viðunandi» við nafnið mitt. Ég þakkaði fyrir mig og gekk út.

Allt gott tekur einhverntíman enda, en þessi pistill heldur áfram: Nú er haustið liðið, og orðið kalt á morgnana. Fyrir utan gluggann í framhaldsnemaherberginu er háskólagarðurinn og sjálf aðalgatan við ána. Skipin Kafteinn Evdokimov og Dikson liggja við bakkann. Dvína er breið og full af ís sem er við það að leggja. Hinumegin, á Vesturbakkanum, standa hafnarkranarnir og verksmiðjuturnarnir. Í björtu veðri sést langt, yfir lága hálsa með endalausum skógi, rafmagnsmöstur og rákótt ský. Sólaruppkoman er falleg. Líka sólsetrið, ef manni dvelst fram yfir kaffitíma. Þá blika borgarljósin í góðu veðri.

2 skilaboð:

Skrifa ummæli

<< Forsíða