Lesnir;

17.1.10

„Of flóknir valkostir“

„Fullorðinsárin sem læsa deyfíngarkló í hjartvöðva mannsins, þau standa mér fyrir sjónum sem örlögþrúngnust háðúng. Þá væri sælla að deya en eiga fyrir sér að setjast á bekk með þeim sem rimpa saman fúagloppurnar í þjóðfélaginu og brýna fyrir kotúngnum að sjóða kartöflurnar sínar í moðkassa.
Góðir hálsar! skrifa ég þegar ég er orðinn fullorðinn; vér verðum allir að spara, og alt verður að spara! Lausnin á vandamálum mannkynsins er moðsuða, moðsuða, moðsuða!“
Vefarinn mikli frá Kasmír, eftir Halldór Laxness. 42. kafli

Stundum þegar ég les ljóð eða kvæði, mikilvægan kafla skáldsögu eða listilega skrifaða grein, geri ég mér í hugarlund að höfundurinn hafi setið lengi og velt hverri setningu fyrir sér. Að hvert orð sé vandlega valið og að merkingin sé nákvæmlega sú sem höfundurinn vill að hún sé.
Á sama hátt bera mikilsverðir textar það oft með sér, að í þeim stendur eitthvað sem vert er að taka mark á. Eða í það minnsta að vega það fyrir sjálfum sér, hvað stendur í þeim.
En hversu mikið er nú ekki til af pistlum sem varla er lesandi, eða munnlegum umsögnum sem fátt skilja eftir? Líkt og hópar þeirra sem láta sig málin varða hafi opnað golupokana, og standi nú á hlaðinu og sói vindorkunni út í buskann. Greinahöfundar, pistlagerðarmenn og álitsgjafar taka oft skakkan pól í hæðina; andmæla ummælum eða skoðunum meintra andstæðinga sinna sem þeir afflytja um leið, broga, teygja út, eða virðast hreinlega hafa farið á mis við inntakið. Það er svosem kannski ekki við þá eina að sakast. En svona gengur þetta koll af kolli einsog lúsafaraldur sem enginn veit hvaðan kom upphaflega.

Þróun mannkyns hefur leitt margt gott af sér. Og ég held að fólk hafi með tíð og tíma orðið æ klárara, upplýstara og kunni meira fyrir sér með hverri kynslóð. Það er svo verkefni okkar að þróa kunnátuna áfram. Um þetta snýst aukin menntun. Þekking okkar nær sífellt þrengra og dýpra, og jafnframt eykst yfirsýnin og heildarskilningurinn.
En það er ekki sjálfgefið! Oft kostar það yfirlegu og þaulhugsun að skilja það sem liggur fyrir. Tilveran er flókin, og hún verður alltaf flóknari með tímanum. Og það er verkefni okkar allra að halda í við þá þróun.

Það gengur ekki að leiða umræðu um flókin og margslungin mál með því að hrópa upp, kasta til höndum og trúa óljósri sannfæringu, og beita til þess öllum ráðum að sannfæra aðra.
Það þarf meiri aga í umræðuna. Betri köfun, meiri skerpu og umfram allt meira miskunnarleysi. Hörku gagnvart sjálfum sér, miskunnarleysi gagnvart röksemdafærslum og grimmd gagnvart upplýsingaleysi.
Ég vil miklu meiri grimmd.
Fávitar.

2 skilaboð:

 • Gott.

  Allt verður reynt til þess að telja almenningi trú um að valkostirnir séu of flóknir. Að vísu eru þeir flóknir. Og svo þetta tal um að 'spurningin' verði illskiljanleg meðaljóni; þ.e. að hann koksi einfaldlega á henni. Ekki er það laglegt þegar landinn er farinn að trúa svo mjög þeirri skólalærdómslygisögn að íslensku einkenni stuttar og kjarnyrtar setningar, og innskotslausar, að hann er hættur að geta lesið lengri klausur með mikilvægum innskotum. (Um þessa stílsvitleysu: það er eins og móðurmálskennarar hafi hugsað með sér hvert er sérkenni íslensks stíls? og gripið svo í upphaf Njáls sögu:

  Mörðr hjet maðr, er kallaðr var gígja. hann var sonr sighvats hins rauða. hann bjó á velli á rangárvöllum. (Njála, 1. kafli, útg. KG&EJ 1875)

  En ekki lesið lengra.)

  Annars er sérkennilegt að helst virðist ekki mega kjósa um neitt nema vissa sé fyrir því að einhver ákveðin skoðun verði ofaná.

  Mér blöskraði, eins og þér, umræðurnar í þinginu fyrir áramót og að sjá að eitthvað sem ætti að vera upplýst skoðun, og vel rökstudd, minnti meira á trúarlegt ofstæki, óhagganlegt. Hægri farið að tala eins og vinstri og öfugt. Enda var hægri fljótt að skipta um skoðun eftir áramót. En að atkvæðagreiðsla um ríkisábyrgð á innlánatryggingasjóðnum sé farin að snúast um eiginhagsmuni flokkanna, þ.e. a) vinstristjórnin haldi velli, b) hægribland komist að, og vinstrimenn í stórum stíl farnir að dansa með (og hægri á móti), þótti mér næg réttlæting fyrir forsetann að taka völdin í sínar hendur og selja almenningi.

  Sagði Blogger Heimir Freyr, kl. 10:01 f.h.  

 • Ég er hverri málsgrein í athugasemd þinni, Heimir, sammála.
  Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur almennt, þá held ég reyndar að það séu einmitt best heppnuðu þjóðaratkvæðagreiðslurnar sem eru þannig, að þær spyrji merkingarbærra spurninga, sem vert er að svara, en hlutfalli helst með sæmilegum meirihluta. Þ.e.a.s. - ég held að það sé ekki þægilegt þegar naumur meirihluti hefur sitt fram í einföldum nei/já-kosningum.
  Palli

  Sagði Anonymous Nafnlaus, kl. 8:02 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Forsíða