Lesnir;

14.12.08

Þegar Íslendingar stálu jólunum

Það er máske bara við hæfi að málfræðingur tjái sig um efnahagsmál á þessum hamfaratímum, nú þegar á daginn hefur komið að jafnvel sjálf alþýðan grunaði réttilega þekkingu og teoríur allra sérfræðinganna á sviði fjármála. Og grunur um gæsku ráðherranna, sem svo mikið var í mun að á þessa sömu sérfræðinga væri hlustað, reyndist einnig á rökum reistur.

Við Jón Ólafsson úr Grunnavík hrópum nú báðir í kór: illskusvikaland!

Hér á Niðurlöndum steyta menn einnig hnefana. Í hvert sinn sem opnað er fyrir sjónvarp ómar söngur fréttahauka um lausafjárkreppu. Allan liðlangan októbermánuð var rætt um Icesave og að ekkert gengi að fá lausafé niðurlenskra sparifjáreigenda út úr Landsbanka eða frá íslenska ríkinu; oft voru málefni Icesave fyrsta frétt og merkilegt nokk virtist oft sem meira fréttist af gangi mála á Íslandi í niðurlenskum fjölmiðlum en þeim íslensku. Hér í Trekt tóku þegnar, sem höfðu látið ginnast af Icesave-auglýsingum í öllum helstu fjölmiðlum (sem fóru jafnvel ekki framhjá niðursokknustu námsmönnum), sig til og boðuðu til borgarafundar. Hópur fólks, og fréttamenn af sjónvarpsstöðinni Niðurland 1 með í för, hélt til Íslands í von um að fá þar meiri upplýsingar um sparifé sitt. Fleira fólk gerði upp á sitt einsdæmi för sína til þessa litla undralands sem hafði rænt það aleigunni.

Í dagblöðum birtust frásagnir af fólki sem hafði stofnað reikning hjá Landsbankanum og komist í veruleg vandræði við skyndilegt gjaldþrot hans. Ein fjölskylda hafði nýlega selt húsið sitt og lagt söluupphæðina inn á Icesave-reikning á meðan það leitaði sér nýrra hýbýla, enda hvorki leyfilegt né ráðlegt að geyma svo háar upphæðir undir kodda. Landsbankinn var með háa vexti og með háa ágætiseinkunn í þokkabót. Slíkt láta Niðurlendingar ekki framhjá sér fara, þjóða sparsamastir og leita ávallt besta boðs, þó að þeir þurfi að taka á sig krók. Og nóg var nú Icesave auglýst, fram í rauðan dauðann. Innistæður voru hér tryggðar upp að 100 þúsund evrum (nú um 15 milljónir króna, í fyrra um 10 milljónir), svo þessi — vel að merkja venjulega — fjölskylda tapaði þar því sennilega um 200 þúsund evrum. Það er súrt í broti að vera sendur aftur á byrjunarreit, loksins komin yfir þann þröskuld í lífinu að hafa keypt hús.

Í annarri frásögn sagði frá ungum manni sem hafði hlotið allháa upphæð í arf, sem hann lagði inn á Icesave-reikning. Af þessari upphæð þurfti hann svo að greiða háa skatta, enda eru hér mörg skattþrep og hátekjufólki því ekki beinlínis umbunað fyrir aurasýkina. Þegar Landsbankinn varð gjaldþrota tapaði þessi ungi maður því sem eftir var af arfinum, að frátöldum 100 þúsund evrunum sem niðurlenska ríkið tryggir. Skattgreiðslan sem maðurinn fékk í hausinn nam 200-300 þúsund evrum. Hann situr því nú uppi með 100-200 þúsund evra skuld vegna arfsins sem hann fékk. Sú upphæð nemur nú 15-30 milljónum íslenskra króna, á genginu í fyrra um 10-20 milljónir. Maðurinn kvaðst ekki líta glaðan dag, sem von er.

Eins og ástandið var á Íslandi í október var Íslendingi fýsilegt að stofna hér almennan bankareikning; erfitt, ótraust og óáreiðanlegt var að millifæra fjárhæðir og vonlaust að taka út úr hérlendum bönkum. Þetta gerði ég í lok októbers og þurfti skömmustulegur að gangast við þjóðerni mínu. Eftir að hafa stofnað almennan bankareikning benti bankastarfsmaðurinn einnig prakkaralega á að þjónustufulltrúar væru alltaf reiðubúnir til þess að veita ráðleggingar um sparireikninga.

Já, nú er rétt að hafa ekki hátt um upprunann og von að fólk af Nýja-Íslandi geri sér far um að leyna þjóðerni sínu:

Myndin er tekin af bloggi Morgunblaðsins, höf. Ingi Jensson: http://ingijensson.blog.is/users/0d/ingijensson/img/10-10-08.jpg(Myndin er tekin af vef Morgunblaðsins, höf. Ingi Jensson)

Ég þekki þess einnig dæmi að skólastofnun hér, sem áður lét íslenska fánann blakta við hún, hafi eftir bankahrunið ekki dregið fána að húni, af skiljanlegum en hingaðtil ástæðulausum ótta við reiðan pöpul.

Meira að segja sjálfur niðurlenski jólasveinninn — sem alls ekki má kalla svo, enda nefnist hann Sinterklaas, heilagur Nikulás — hefur orðið fyrir barðinu á útrás Landsbankans og á ekki fyrir gjöfum í skóinn handa börnunum, ef marka má fjölmiðla … (Dagblad de Pers, 5. desember 2008, bls. 3):


Allir peningarnir mínir voru á íslenskum reikningi, — en takk samt fyrir fallegu teikninguna.
Sveinki

Niðurlendingar virðast þó hafa fullan skilning á því að ekki sé við landann sem slíkan að sakast — nema vitaskuld, er rétt að bæta við, þá ófáa kjósendur, sem ég læt ekki eftir mér að uppnefna, er kjörtímabil eftir kjörtímabil hafa ekki séð ástæðu til þess að kjósa sér annað konungsefni en Sjálfstæðisflokkinn.

En það er þetta með ímyndina, ættjörðina, stoltið, velgengni (?) undanfarinna ára, geipilegt kæruleysið og gegndarlausan áróðurinn. Nei, þessi íslenski kjósandi í útlöndum lét sem betur fer ekki blekkjast af áróðurstækjum ríkisins.

Nokkrir hérlendir námsmenn, sem ég kynntist vel og bjó með í fyrra og sé nú suma daglega, komu að máli við mig um mitt sumar og spurðu mig út í þetta Icesave. Áróðurskór valdhafanna orgaði þá laglaust fyrir eyrunum á mér eitthvað í þá átt að ekki mætti tala niður krónuna, allir yrðu að vera varkárir í orðum sínum og segja að allt væri með hinu fegursta hymnalagi. Verðbólguskot og tímabundnar og eðlilegar sveiflur í gengi krónunnar, sannarlega væru nú stoðirnar traustar og barasta aðdáunarvert hvað bankarnir væru öflugir jafnvel utan landsteinanna.

Hvað á nú að segja við útlendinga sem vilja leggja fé sitt inn á sparireikning hjá íslenskum banka, sem kemur sér jú vel fyrir efnahag landsins? Að allt sé með hymnalagi? Þá væri ég nú ekki upplitsdjarfur hér á göngunum í lopapeysu og með loðhúfu.

Nei, ég sagði, sem satt var, að á Íslandi hefðu alltaf verið miklar sveiflur í efnahag þjóðarinnar og að ástandið væri nú bara síður en svo svo gott nú um mundir. Gengi krónunnar hefði t.d. breytst mikið á árinu og óvíst hvenær það næði jafnvægi. Þetta var viku eða tveimur áður en vor viðskiptaráðherra lét eftirfarandi orð falla („Útrás og árangur bankanna“, birtist 5. ágúst 2008):

Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingaævintýri Íslendinga erlendis niður. Þannig eru nú hlutirnir einusinni og því er það mikilvægt nú þegar hægir tímabundið á útrásinni vegna þrenginga á erlendum mörkuðum að halda frábærum árangri þessara flagsskipa atvinnulífs okkar ríkulega til haga. Þetta eru okkar voldugustu fyrirtæki og nokkrar af helstu undirstöðum efnahagskerfis okkar til lengri tíma litið.

Ég skammaðist mín fyrir ráðleggingar mínar til þessara nema, og þá einkum og sérílagi eins niðurlensks nema sem alvarlega íhugaði að leggja sparifé sitt inn á reikning hjá Landsbankanum. Ég bað hann að láta það alveg vera og að halda sig frá íslensku bönkunum. Svo sýndi ég honum yfirlit yfir gengisþróun krónunnar undanfarinna ára, hvernig sparnaður minn til margra ára hefði rýrnað í verði miðað við evru, að lítið stoðaði fyrir mig, nema í útlöndum, að vinna fyrir íslenskum krónum — næsta verðlaus pappír með því áframhaldi —, og að staðan væri nú algerlega óljós. Hjartað hamaðist, mér fannst þetta vera hin mestu ættjarðarsvik.

Nú er ekki annað hægt en að vera reiður yfir þessum dæmalausa vitleysisgangi í ríkisstjórninni.

Því miður hafði málfræðingurinn á réttu að standa. Hefði hann nú bara náð til allra hinna 150.000 sparifjáreigendanna hér í landi …